Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hringrásarhagkerfið

Hvað er hringrásarhagkerfið?

Hringrásarhagkerfið er hagkerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi með áherslum sem tryggja að hægt sé að viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Markmiðið er að lágmarka auðlindanotkun og þar með úrgangsmyndun. Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og nær einnig til þess að endurmeta og endurskilgreina lífsgæði. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé haldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, endurframleiða og endurvinna. 



Deila
Með því að draga úr eignarhaldi vara og leggja frekar áherslu á að auka aðgengi að þeim er hægt að ná fram skilvirkari neyslu. Sameign vara og auðlinda (t.d. deilibílar, bókasöfn og samakstur) gerir notkun auðlinda skilvirkari og dregur úr umhverfisáhrifum.

Gera við
Viðgerðir auka líftíma vara. Vörur eru almennt endingarminni og erfiðara að gera við þær en áður. Með að efla og ýta undir viðgerðir, meðal annars með að gera varahluti og upplýsingar aðgengilegri, er hægt að glæða vörur nýju lífi.

Endurnota
 Með að nota vörur áfram í óbreyttu formi, til dæmis með að skipta um eigendur, er hægt að koma í veg fyrir framleiðslu á nýjum vörum. Vörur svo sem glerflöskur er hægt að nota mörgum sinnum áður en þeim er fleygt.

Endurframleiða
Hægt er að endurframleiða vörur, svo sem raftæki, samkvæmt forskrift framleiðandans með að sameina endurnotkun, viðgerðir og nýja íhluti.

Endurvinna
Efni eins og málma, pappír, gler og plast er hægt að endurvinna og nýta sem endurheimt hráefni í stað nýrra. Þegar efni er endurunnið er það orðið að úrgangi, mikilvægt er að reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að auðlindin verði að úrgangi til að byrja með.  

Hringrásarhagkerfið á Íslandi

Árið 2021 kom út ný heildarstefna í úrgangsmálum á Íslandi sem ber heitið Í átt að hringrásarhagkerfi. Stefnan spannar allan úrgangsþríhyrninginn og miðar að því að styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi.  Stefnan skiptist í tvo meginhluta, stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, og stefnu um meðhöndlun úrgangs.

Í Saman gegn sóun er lögð áhersla á að draga úr úrgangsmyndun og viðhalda verðmætum auðlinda eins lengi og mögulegt er. Stefnan var eitt fyrsta skrefið í innleiðingu hringrásarhagkerfisins á Íslandi. Umhverfisstofnun fer með umsjón Saman gegn sóun og heldur úti heimasíðu, Facebook síðu og Instagram síðu þar sem upplýsingum um hringrásarhagkerfið er miðlað til samfélagsins.  

Stefna um meðhöndlun úrgangs hefur þrjú meginmarkmið:

  • Það er að draga úr losun frá meðhöndlun úrgangs
  • Stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu með því að auka endurvinnslu og aðra endurnýtingu úrgangs, draga úr urðun og hætta urðun lífbrjótanlegs úrgangs
  • Að sá úrgangur sem fellur til fái viðeigandi meðhöndlun svo hann skapi ekki hættu fyrir heilbrigði manna og dýra eða valdi skaða á umhverfinu

Breytingar á löggjöf úrgangsmála sem styður við stefnuna boða m.a. skyldu til flokkunar á heimilisúrgangi, samræmdar merkingar og bann við urðun á flokkuðum úrgangi. Einnig er komið á auknu hvatakerfi við meðhöndlun úrgangs með álagningu úrvinnslugjalds á fleiri vöruflokka og með nýju og sanngjarnara innheimtukerfi sveitarfélaganna við meðhöndlun úrgangs sem kallast Borgað þegar hent er. Í heild sinni boðar stefnan 27 aðgerðir sem munu leiða til jákvæðra breytinga í úrgangsmálum á Íslandi sem miðar að aukinni nýtingu, aukinni endurnotkun og endurvinnslu og samdrátt í urðun úrgangs. 

Heildarstefna í úrgangsmálum tekur saman mikilvægar aðgerðir í umhverfis- og loftslagsmálum sem allar styðja við myndun hringrásarhagkerfis á Íslandi.

Hingað til hefur ekki verið sett fram stefna um visthönnun, þ.e.a.s. stefna sem miðar í auknum mæli að því að setja fram hönnunarforsendur sem tryggja að hugað sé að hringrásinni strax í upphafi. Til dæmis að skoða hvernig hægt er að auka eftirspurn eftir notuðum og endurunnum efnum í framleiðslu og auka hlut endurframleiðslu. Einnig hvernig beita má enn frekar hagrænum hvötum til þess að styðja við viðgerðamenningu og deilihagkerfið. Fyrstu skrefin af þessu eru tekin í heildarstefnu í úrgangsmálum, en á vissum sviðum er líklega þörf fyrir frekari stefnumótun.


Áhugaverðir tenglar:
Saman gegn sóun

Úrgangur.is

www.allanhringinn.is

Stjórnarráðið - hringrásarhagkerfið

Samband íslenskra sveitarfélaga - Samtaka um hringrásarhagkerfi     

Austurbrú - myndbönd um hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfi í Evrópu: Við höfum öll hlutverk

Ellen MacArthur Foundation

Hringrásarhagkerfið í byggingariðnaði