Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Kolefnisjöfnun

Kolefnisjöfnun er skilgreind svo í lögum um loftslagsmál: „Þegar aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti“.

Með nokkurri einföldun má því segja að kolefnisjöfnun felist í því að einstaklingar eða lögaðilar bæti fyrir eigin losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) með því að fjármagna verkefni sem a) koma í veg fyrir losun á samsvarandi magni GHL annars staðar eða b) fjarlægja samsvarandi magn GHL úr andrúmsloftinu.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum þurfum við fyrst og fremst að draga úr losun GHL. Þetta getum við gert með því að draga úr neyslu og þar með myndun úrgangs, endurvinna þann úrgang sem óhjákvæmilega fellur til, velja vistvænar samgöngur og loftslagsvænna mataræði, minnka matarsóun, nýta hluti betur og lengur og temja okkur orkusparnað. Þegar ekki er hægt að draga frekar úr losun er hægt að fjárfesta í kolefnisjöfnunarverkefnum sem binda eða koma í veg fyrir losun GHL. Kolefnisjöfnun er því ekki „vottorð til þess að menga meira“ heldur á hún ávallt að koma í kjölfar aðgerða til samdráttar.

Verkefni sem fjármögnuð eru með kaupum á kolefniseiningum til að jafna losun geta verið af ýmsum toga. Þau geta t.d. falist í að:

  • draga úr losun í tiltekinni starfsemi eða geirum, s.s. með því að auka orkunýtni eða auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku. 
  • fjarlægja kolefni úr andrúmsloftinu, s.s. með skógrækt eða landgræðslu 
  • koma í veg fyrir losun vegna landnotkunar, t.d. með endurheimt votlendis eða aðgerðum sem koma í veg fyrir eyðingu regnskóga.

Ein kolefniseining er eining sem gengið getur kaupum og sölum og felur í sér sönnun þess að losun á einu tonni koldíoxíðsígilda út í andrúmsloftið hafi sparast miðað við óbreytt ástand. Kaupandi slíkrar einingar getur notað hana til að sýna fram á að hann hafi kolefnisjafnað eitt tonn af eigin losun GHL, t.d. vegna raforkunotkunar, flugferða, bílferða o.s.frv. Við notkun þarf að afskrá viðkomandi einingu þar sem aðeins má nýta hana einu sinni til jöfnunar

Mikilvægt er að kolefnisjafna reksturinn með trúverðugum og ábyrgum hætti og velja verkefni sem hafa raunverulegan loftslagsávinning í för með sér. Umhverfisstofnun hefur tekið saman leiðbeiningar um viðmið, vottanir og seljendur kolefniseininga sem standast alþjóðlegar gæðakröfur. Leiðbeiningarnar má nálgast hér.  


Fyrirtæki, stofnanir og sveitafélög sem hafa hug á að reikna út losun frá helstu uppsprettum gróðurhúsalofttegunda (GHL) í rekstri sínum geta nálgast losunarstuðla Umhverfisstofnunar hér. Sjá einnig Græn skref  og Grænt bókhald.