Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Bílar

Bílar eru ekki umhverfisvænir og verða það aldrei, vegna umhverfisáhrifa sem verða til við framleiðslu þeirra, notkun og förgun. Þó er hægt að velja bíla sem hafa minni neikvæð umhverfisáhrif en aðrir bílar. Aðstæður eru breytilegar þegar skoðaður er umhverfisvænasti bílakosturinn og er megin ástæðan fyrir því hver uppspretta orkunnar er. Á Íslandi eru það bílar sem ganga alfarið á rafmagni eða metani. Báðir orkugjafarnir eru innlend framleiðsla, rafmagnið er framleitt úr grænni orku og metanið verður til á urðunarstöðum. Metanið sem ekki er nýtt á bílana sleppur út í andrúmsloftið sem mjög virk gróðurhúsalofttegund eða er brennt á urðunarstöðum. Á Íslandi eru rafmangnsbílaeigendur háðir því að geta hlaðið bílinn sinn á lengri ferðum en slíkt verður raunhæfara með hverjum mánuði sem líður þar sem sífellt fleiri hleðslustöðvar fyrir rafbíla eru settar upp um allt land. Á vefsíðu ON má t.d. sjá hvar á landinu þær eru. Metan er enn sem komið er aðeins fáanlegt á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Næst besti kosturinn í bílakaupum eru tvíorku bílar þ.e. bílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni eða metani og bensíni.

Kostir umhverfisvænni bíla eru ótvíræðir en þeim fylgir bæði fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur. Orkan sem þeir nota er ódýrari og hefur minni neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Þess má geta að virðisaukaskattur hefur verið lagður niður á rafmagnsbifreiðar í nokkur ár og vörugjöld af ökutækjum er breytilegt eftir skráðri losun koltvísýrings ökutækisins.  Upphæð bifreiðagjalds fer einnig eftir þyngd bifreiðar og losunar koltvísýrings (CO2). 

Umhirða og rekstur bíla
Mest öll efnisnotkun er almennt óæskileg þegar við skoðum þau út frá umhverfismálum. Bæði efnin sjálf geta verið skaðleg ef þau fara út í náttúruna óhreinsuð og svo er það líka framleiðsla efnanna sem hefur umhverfisáhrif. Reglurnar eru almennt þessar:

  1. Þvo bílinn á bílaþvottastöð þar sem frárennslisvatn er að einhverju leyti hreinsað eða efni af bílum skolast frá og eru meðhöndluð sem spilliefni. Það er betra að óæskileg efni fari í frárennsli þar en í afrennsli heima á bílaplaninu sem fer beint í ofanvatn án hreinsunar.
  2. Sleppa hreinsiefnum eins og hægt er eða
  3. Fá umhverfisvottuð hreinsiefni, bón og aðrar vörur til þvotta á bílnum.