Hárlitur

Hægt er að skipta hárlitum í tvær gerðir; Fasta (permanent) liti þar sem litarefnið fer inn í hárið og ekki er hægt að þvo úr og skolliti sem lita hárið í lengri eða skemmri tíma en skolast burt eftir nokkra þvotta. Báðar þessar tegundir af hárlitum geta valdið ofnæmi, sem og augnabrúna- og augnháralitir og jafnvel strípuefni. Ljósar strípur (aflitun) geta auk þess innihaldið ætandi efni sem geta valdið skaða. Árið 2007 rannsakaði Evrópusambandið 46 hárlitunarefni og þar voru 10 þeirra metin mjög ofnæmisvaldandi, 13 ofnæmisvaldandi og 4 frekar ofnæmisvaldandi.

Það eru litarefnin sjálf í hárlitunum sem valda ofnæminu. Þetta eru efni eins og p-phenylene diamine (PPD) og efni sem líkjast PPD eins og toluene-2,5-diamine resorcinol, 4-amino-2-hydroxytoluene og p-aminophenol.  Þessi efni eða hluti þeirra eru notuð í nær öllum hárlitum, augnabrúna- og augnháralitum og jafnvel strípuefnum. Resorcinol er mest notaða litarefnið í hárlitum og er það á lista Evrópusambandsins yfir efni sem sýnt hafa hormónaraskandi áhrif. Litarefni sem eru notuð til að dekkja hár eru oft með mun hærri styrk efna heldur en þau sem eru í ljósari litum.

Ofnæmiseinkennin koma oftast í ljós á fyrstu dögunum eftir að hárið hefur verið litað. Þekkt viðbrögð eru roði, útbrot, upphleypt húð og sár í hársverði, andliti og/eða hálsi og bólgur í andliti. Einnig getur andlitið bólgnað og í sumum tilfellum þarf að leggja fólk inn á sjúkrahús. Hjá flestum eru útbrotin horfin eftir nokkrar vikur en sumir þurfa að kljást við kláða í fleiri ár eftir hárlitunina. Einnig er hægt að þróa með sér ofnæmi þegar hár er litað oft en það er hægt að minnka líkurnar með því að velja frekar strípur úr skollitum heldur en að heillita hárið sem þýðir að efnin eru í mikilli snertingu við hársvörðinn.

Starfsfólk hárgreiðslustofa er mun meira útsett fyrir efnunum en almenningur og því er mikilvægt að nota hanska, hafa gott inniloft og huga að öryggi á vinnustaðnum í tenglsum við efni og efnanotkun.

Ekki er mælt með að lita hár barna og unglinga undir 16 ára.

Á höfuðborgarsvæðinu er hægt að fara til hárgreiðslustofa sem sérhæfa sig í grænum lausnum og skaðlausari efnanotkun. Einnig er hægt að ýta hér til að sjá frekari umfjöllun um örugga hárlitun.