Tannhvítun

Tannhvítun og tannhvítunarvörur

Tannhvítunarvörur eru snyrtivörur og um þær gildir því reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir reglugerð nr. 1223/2009 (EB) sama heitis.

Algengast er að virka efnið í tannhvítunarvörum sé vetnisperoxíð (hydrogen peroxide) eða önnur efni sem losa það og þá er yfirleitt um að ræða karbamíðperoxíð (carbamide peroxide). Hlutfallið milli þessara efna er almennt um 3:1 sem þýðir t.d. að 15% karbamíðperoxíð er ígildi u.þ.b. 5% vetnisperoxíðs. Dæmi um önnur efni sem notuð eru til tannhvítunar og losa vetnisperoxíð eru þalíð hexóník sýra (6-phthalmide-hexonic acid) og natríum perbórat (sodium perborate). Vetnisperoxíð gerir tennur hvítari með því að hvarfast við uppsafnaðan lit á yfirborði þeirra og líka lit sem er undir yfirborði þeirra svo sem í glerungi eða tannbeini.

Vörur til munnhirðu sem eru í sölu til almennings, þ.m.t. munnskol, tannkrem og vörur til tannhvítunar, mega ekki innihalda meira en 0,1 % af vetnisperoxíði eða ígildi þess. Ef innihald vetnisperoxíðs eða ígildi þess er á bilinu 0,1% - 6% mega eingöngu tannlæknar nota þessar vörur en með öllu er óheimilt að nota tannhvítunarvörur með hærri styrk.

Þegar tannlæknir framkvæmir tannhvítunaraðgerð skal fyrsta notkunin í hverri notkunarlotu eingöngu framkvæmd af honum sjálfum eða undir beinu eftirliti hans, ef jafngilt öryggisstig er tryggt. Eftir það er heimilt er að afhenda viðskiptavininum vöruna til þess að ljúka við notkunarlotuna. Mikilvægt er að hafa í huga að tannhvítunarefni geta verið skaðleg tönnum sem eru ekki í fullkomnu ástandi og ber tannlækni því ætíð að ganga úr skugga um það að tennur viðkomandi einstaklings þoli tannhvítunarmeðferð. Aldrei má nota tannhvítunarefni sem innihalda vetnisperoxíð í hærri styrk en 0,1%, eða ígildi þess, fyrir einstaklinga sem eru yngri en 18 ára.

Öll markaðssetning, notkun og sala snyrtivara til tannhvítunar sem ekki uppfyllir ofangreindar kröfur er ólögleg.

Tannkrem í sölu til almennings sem auglýst eru til hvítunar innihalda sjaldan vetnisperoxíð eða ígildi þess, heldur önnur efni sem einungis fjarlægja bletti á yfirborði tannanna. Þau breyta því ekki lit sem er undir yfirborði þeirra eins og vetnisperoxíðið gerir.