Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Efni í raftækjum

Hvað getum við gert?

Þegar við kaupum raftæki:

  • Veljum umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu þegar það er í boði.
  • Raftæki eiga að vera CE merkt. CE merking gefur til kynna að tækið uppfylli þær lágmarkskröfur um öryggis-, heilsu- og umhverfisvernd sem tilskipanir Evrópusambandsins kveða á um.

Raftæki á heimilinu og í vinnunni:

  • Notum raftækin í þeim tilgangi sem þeim er ætlað og fylgjum leiðbeiningum framleiðanda. 
  • Ekki leyfa litlum börnum að naga eða skrúfa í sundur raftæki.
  • Slökkvum á raftækjum þegar þau eru ekki í notkun.
  • Förum vel með raftækin en gott viðhald á raftækjum tryggir betri endingu þeirra og minnkar brunahættu af völdum rafstraums.
  • Loftum reglulega út og ryksugum og þurrkum af a.m.k. 1 sinni í viku svo til að tryggja gott inniloft og minnka ryk sem efnin geta loðið við.
  • Loftræsting skiptir miklu máli sérstaklega starfsaðstöður sem hafa mikið af raftækjum og lítil rými eins og barnaherbergi.
  • Þrífum og loftum um tækin reglulega, t.d. safnast mikið ryk innan í tölvum og sjónvörpum, ef til vill er gott að fara með tölvuna á verkstæði og láta ryksuga hana að innan, sérstaklega lyklaborð.

Endurnotkun eða endurvinnsla raftækja:

  • Þau raftæki sem virka enn vel er kjörið að gefa eða selja. Efnin hafa minnkað til muna eftir því sem raftækið er notað.
  • Aldrei henda raftækjum í almennt rusl heldur komum því fyrir til móttökuaðila fyrir raftæki.
  • Sum fyrirtæki taka við gömlum eða biluðum raftækjum og nota sem aukahluti til viðgerða. Mörg þeirra borga fyrir tækið sem þú kemur með.
  • Kort sem syngja eða skór sem blikka teljast líka sem raftæki og þarf að koma fyrir í réttan farveg.
  • Rafhlöður og rafgeymar flokkast sem spilliefni vegna þeirra efna sem þau geta innihaldið eins og kadmíum, kvikasilfur, blý og ætandi sýrur.

Hvað er í raftækjum?

Raftæki er heiti yfir ýmis konar varning sem við kaupum til að einfalda líf okkar, allt frá tölvum og kaffivélum til ísskápa og þvottavéla. Ýmis efni og auðlindir þarf til að útbúa einn hlut, m.a. verðmætum málmum eins og gull, silfur og kopar og umhverfisskaðlegum efnum eins og kvikasilfurblý og eldtefjandi efni. Öll efnin eru til staðar í hlutum til að þjóna ákveðnum tilgangi.

Óæskileg efni sem finnast í raftækjum geta haft áhrif á heilsu manna og umhverfis á öllum stigum lífsferils vörunnar. 

  • Starfsmenn og nærliggjandi samfélög geta verið mjög útsett fyrir skaðlegum efnum við efnisvinnslu og framleiðslu, þar á meðal hærri tíðni krabbameins.
  • Á meðan notkun raftækisins stendur geta efni losnað úr tækinu og í umhverfi sitt þar sem það getur komist í snertingu við okkur eða loðað við rykagnir innandyra.
  • Ef tækið er urðað (landfyllingar) en ekki komið fyrir í endurvinnslu eða annan farveg þá geta efnin í tækjunum mengað jarðveginn og umhverfið á urðunarstaðnum. Því er mikilvægt að flokka raftæki rétt og koma þeim fyrir í réttan farveg.

Við almenna notkun raftækja þá losna efnin mest úr þeim þegar þau eru ný og þegar það er kveikt á þeim. Þó svo að styrkur efna sem er að losna út í umhverfið sé mjög lítill, sem er í sjálfu sér ef til vill skaðlaus, þá getur það leitt til vandamála þar sem það sameinast öðrum mengunarvöldum innandyra sem geta magnað upp áhrifin. 

Ef raftæki eru notuð á þann hátt sem þeim er ætlað þá ætti útsetning efnanna í þeim fyrir okkur að vera takmörkuð þar sem innvols raftækja eru ekki að komast í beina snertingu við okkur, t.a.m. þá snertir húð okkar ekki prentplötuna í farsímanum okkar. Aftur á móti þá eru efni sem eru útvortis t.d. eru í plastinu á raftækjunum að komast í snertingu við húð okkar og losna út í umhverfið.

Plast

Mikið af raftækjum okkar eru úr plasti en plast er mikill efnakokteill. Ítarleg umfjöllun og möguleg óæskileg efni sem geta fundist í plasti er að finna hér.

Þungmálmar

Þungmálmar (e. heavy metals) eru enn taldir nauðsynlegir í flestum raftækjum en iðnaðurinn er í sífeldri þróun að leita nýrra leiða. Dæmi um mögulega þungmálma:

  • Kadmíum - vinsælt í rafhlöður tölva, tengiliði og rofa.
  • Kvikasilfur - notað í fljótandi kristalsskjáum (e. liquid crystal displays, LCD) farsíma og tölvuskjáa, rofa, rafhlöður og flúrljómandi lampa.
  • Blý - notað í myndlampa/bakskautslampa (e. cathode ray tubes, CRT) sem finnast í tölvum og sjónvarpssjáum.
  • Nikkel – stundum notað í rásarborð farsíma og lóðningum.
  • Blý og kadmíum blöndur - notað í rafhlöður leikjatölva og rafmagnsleikfanga.
  • Sexgilt króm - var mikið notað í málmvirki raftækja, en er mikið til takmarkað í raftækjum.

Eldtefjandi efni

Algengt er að finna eldtefjandi efni í raftækjum til að hægja á eldi ef hann kemur upp og minnka líkur á íkveikju. Þau eru gerð til að duga í langan tíma eða líftíma raftækis og brotna því niður erfiðlega í náttúrunni. Efnin geta sloppið út í nærumhverfi sitt og loðað við ryk, en ný raftæki eiga það til að losa efnin þegar það er kveikt á þeim og þau verða heit.

Sýnt hefur verið fram á að sum efnanna geti haft óæskileg áhrif á heilsu okkar og umhverfi og hafa verið takmörkuð og/eða bönnuð. Nánari umfjöllun um eldtefjandi efni má nálgast hér.

Fráhrindandi efni

PFAS efni hafa verið notuð í ýmsar vörur vegna eiginleika þeirra að hrinda frá sér vatni- og olíu. Þetta gagnast vel fyrir raftæki þar sem vökvi getur skemmt tækið. Hins vegar hafa nokkur efnanna sýnt heilsuspillandi eiginleika og hafa verið takmörkuð en þar sem efnahópurinn er stór gengur hægt að rannsaka þau öll.

Nánar um PFAS efni má nálgast hér.   


Tengt efni

Saman gegn sóun - raftæki

Raftæki - söfnum til endurvinnslu

Norræn skýrsla um upplýsingar um efni í raftækjum (á ensku)

Sjálfbær öflun raftækja - SAICM skýrsla (á ensku)


Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 21. nóvember 2022.