Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English
Eldtefjandi efni
Eldtefjandi efni er heiti yfir alls kyns ólík manngerð efni sem eiga það sameiginlegt að vera bætt í hluti til að gera þá minna eldfima og hægja á útbreiðslu elds. Notkun efnanna jókst gífurlega í byrjun áttunda áratugarins með fjöldaframleiðslu húsgagna og annarra heimilistækja.
Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?
- Frauði eða svampi úr plasti sem notað er sem fylling m.a. í húsgögn
- Raftækjum (t.a.m. sjónvörpum, tölvum og símum)
- Barnavörum (t.a.m. bílstólum, skiptiborðum)
- Byggingarefnum, einkum einangrunarefnum úr plasti
- Bílum, flugvélum og lestum
- Eldhústækjum
- Leikföngum
- Textíl
- Vírum
Hvernig geta þau komist inn í líkamann?
- Með innöndun
- Í gegnum fæðuna
- Með upptöku í gegnum húð
- Í gegnum fylgjuna til fósturs
Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?
- Aukin hætta á krabbameini
- Innkirtla- og skjaldkirtilsraskanir
- Eiturhrif á æxlun (e. reproductive toxicity)
- Skaðleg áhrif á þroska fósturs
- Röskun á ónæmiskerfinu
- Skert taugavirkni
Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?
- Velja vörur sem eru merktar án eldtefjandi efna þegar það er hægt. Merkingar eru oftast á ensku sem:
- Flame Retardant Free
- Free of Halogenated Flame Retardants
- Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
- Velja textíl sem er mertkur með Oeko-Tex 1000.
- Velja náttúrulegan efnivið þegar það er í boði.
- Reyna að velja barnavörur og húsgögn sem eru fyllt með bómull, pólýester eða ull í staðinn fyrir pólýúretan plast (e. polyurethane, PU) frauð eða svamp.
- Lágmarka notkun gólfteppa og gardína.
- Lofta um og þvo hluti áður en þeir eru teknir í notkun.
- Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.
Nánari umfjöllun um eldtefjandi efni
Þrátt fyrir að eldtefjandi efni séu flokkuð sem hópur vegna þess að þau eru notuð í sama tilgangi eru efnin ekki öll með líka efnafræðilega byggingu. Þeim má því skipta í undirhópa eftir efnasamsetningu og algengastir þeirra eru:
- Brómuð eldtefjandi efni (e. Brominated flame retardands, BFRs):
- Fjölbrómaðir dífenýleterar (e. Polybrominated diphenyl ethers, PBDEs)
- Tetrabrómóbisefnól A (e. Tetrabromobisphenol A, TBBPA)
- Hexabrómósýklódódekön (e. Hexabromocyclododecanes, HBCDDs)
- Fjölbrómuð bífenýl (e. Polybrominated biphenyls, PBBs)
- Hexabrómóbífenýl (e. Hexabromobiphenyl, HBB)
- Klóruð lífræn eldtefjandi efni (e. Organochlorine flame retardants, OCFRs)
- Eldtefjandi lífræn fosfatefni (e. Organophosphate flame retardants, OPFRs)
Efnin byrjuðu að ryðja sér til rúms á áttunda áratug 20. aldar þegar húsgögn og önnur tæki úr manngerðum efnum svo sem plasti, svampi og öðrum gerviefnum fóru að taka yfir markaðinn í stað hefðbundinna efna svo sem trés, málma, glers og náttúrulegra textílefna. Nýju vörurnar reyndust mun eldfimari en eldri vörur og því ákváðu framleiðendur að meðhöndla efniviðinn í vörunum með enn fleiri efnum til að minnka eldfimina.
Þrátt fyrir að eldtefjandi efni hægi á myndun loga þá er kviknar hraðar í og heimili geta fyrr orðið alelda heldur en þegar notast er við hefðbundinn efnivið. Þess heldur auka eldtefjandi efni reykinn sem myndast.
Eldtefjandi efni sem innihalda bróm hafa verið skilvirkust og vinsælust, en að auki hafa efni sem innihalda aðra halógena (flúor og klór) verið afar vinsæl þar sem þau haga sér mjög svipað. Upp úr síðustu aldamótum vöknuðu grunsemdir um skaðleg áhrif brómuðu efnanna á heilsu manna og umhverfis, einkum efnahópsins PBDE. Að auki kom í ljós að flest efnanna sem innihalda halógena safnast fyrir í fituvefjum lífvera og brotna hægt niður í líkama og náttúru. Þegar þau að lokum brotna niður í náttúrunni geta enn skaðlegri efni myndast við niðurbrotið. Sem dæmi má nefna niðurbrot í díoxín afleiður. Efnin losna út í náttúruna með því að leka úr hlutum – ýmist hlutum í notkun eða sem orðnir eru að úrgangi – og komast þannig í andrúmsloft, jarðveg og vatn.
Eftir að áhrif og eiginleikar brómuðu efnanna komu í ljós var ákveðið að takmarka notkun þeirra í Evrópu, en samhliða því fór atvinnulífið að skoða staðgöngukosti. Ákvörðun iðnaðarins var sú að notast við lífræn eldtefjandi efni, sem innihalda klór eða fosfathópa, við flestar aðstæður. Rannsóknir benda til að þessar nýrri tegundir eldtefjandi efna geti haft jafn skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi eins og þau sem innihalda bróm. Nokkur þessara nýlegri efna hafa nú þegar verið takmörkuð og/eða bönnuð. Hins vegar liggja ekki fyrir nægar upplýsingar um áhrif allra efnanna þar sem rannsóknir eru tímafrekar og kostnaðarsamar vegna fjölbreytileika og stærðar hópsins.
Erfitt getur reynst fyrir neytendur að fá upplýsingar um efnainnihald í vörum, ekki síst um tegundir eldtefjandi efna sem gætu verið til staðar. Þetta er vegna þess að fyrirtækjum ber ekki skylda til að merkja vörur með nákvæmum innihaldslýsingum og upplýsingar geta týnst í aðfangakeðjunni einkum fyrir innfluttar vörur. Hópur efnanna sem notaður er í þessum tilgangi er einnig mjög stór og notaður í alls konar tilgangi og því er líklegt að við komumst í snertingu við nokkur mismunandi efni á hverjum degi. Þekkingu skortir á því hvort eða hvernig slíkur efnakokteill hefur áhrif á heilsu okkar og umhverfið.
Fjölbrómaðir dífenýleterar - PBDEs
Aðallega notuð í plast, textíl, raftæki, húsgögn og víra. Þetta voru framan af mest notuðu eldtefjandi efnin en notkun þeirra tók að dala í kringum síðustu aldamót í kjölfar aukinnar þekkingar á skaðsemi þeirra. Efnin geta auðveldlega lekið úr vörum vegna þess að þeim er bætt í vörur án þess að vera sérstaklega bundin við efnið/efnaviðinn sem þeim er bætt út í. Af þessum sökum geta þau farið út í andrúmsloftið og t.a.m. bundist við ryk.
Lítið brómeruð PBDE efni geta safnast fyrir í fituvefjum lífvera og helmingunartími þeirra í líkama fólks nemur oft nokkrum árum. PBDE efni sem eru meira brómeruð hafa styttri helmingunartíma. Vegna þess að efnin geta safnast fyrir í fituvefjum dýra þá geta þau borist í okkur í gegnum kjötvörur og fituríkan mat. Í nokkrum löndum hefur verið fylgst með magni efnanna í brjóstamjólk og það virðist fara dvínandi í kjölfar takmarkana og banna á tilteknum PBDE efnum.
Þekktustu og mest rannsökuðu PBDE efnin eru listuð hér ásamt niðurstöðum rannsókna í dýrum:
- Penta-BDE: Þrávirk og brotna lítið niður, geta magnast upp fæðukeðjuna líkt og PCB, hafa skaðleg áhrif á lifur, æxlunarfæri, skjaldkirtilshormón, ónæmiskerfið og þroska fósturs. Efnin geta borist til afkvæmis með brjóstamjólk.
- Okta-BDE: Þrávirk og safnast mjög auðveldlega fyrir í lífverum. Geta haft áhrif á frjósemi, valdið fæðingargöllum og lækkað fæðingarþyngd nýbura.
- Deka-BDE: Þrávirk, magnast upp fæðukeðjuna og ferðast auðveldlega langar vegalengdir og brotna niður í skaðlegri PBDE efni eins og t.a.m. okta-BDE. Geta haft áhrif á tauga- og hormónakerfið og haft skaðleg áhrif á frjósemi.
Samþykkt var að setja tetra-, penta-, hexa-, hepta- og deka-BDE inn í Stokkhólmssamninginn um þrávirk lífræn efni til að stöðva notkun þeirra og framleiðslu. Nokkrar undanþágur eru hins vegar til staðar til notkunar í sértækum tilgangi. Hér á landi eru þessi efni takmörkuð með reglugerð nr. 954/2013 um þrávirk lífræn efni sem innleiðir reglugerð (ESB) nr. 1021/2019 sama efnis.
ATH! PBDE efni eru enn notuð við framleiðslu plasts í Kína og því er mikilvægt að vera gagnrýnin á vörur sem framleiddar eru utan EES þar sem efnalöggjöfin er með þeim strangari í heiminum.
Tetrabrómóbisefnól A - TBBPA
Efnið er aðallega notað í fjölliður og má m.a. finna í prentplötum, rafeindatækjum og hitadeigu plasti (t.d. fyrir sjónvörp). Talið er að notkun þess innan Evrópu sé mikil. Það er krabbameinsvaldandi og mjög hættulegt vatnsumhverfi. Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) er að meta hvort efnið hafi innkirtlatruflandi áhrif og hvort það sé þrávirkt.
TBBPA binst um 90% við plastfjölliður ólíkt öðrum eldtefjandi efnum og er því talið að útsetning okkar fyrir því sé almennt frekar lág. Hins vegar eykst sú útsetning í vinnuumhverfi starfsmanna sem vinna við að taka raftæki í sundur, t.a.m. tölvur. Efnið er ekki takmarkað innan EES eins og er.
Hexabrómósýklódódekan - HBCDDs
Efnin voru notuð í einangrun í byggingariðnaði, einkum sem íblöndunarefni í pólýstýren (e. Polystyrene, PS) froðu/svamp. Þau eru þrávirk, safnast fyrir í lífverum og eru eitruð, sérstaklega vatnalífverum. Efnin eru einnig grunuð um að valda skaða á frjósemi og fæðingargöllum. Að auki geta þau haft áhrif á þroska/þróun kerfa innan líkamans t.a.m. beinagrindina, taugakerfið og ónæmiskerfið.
Efnin voru sett inn í Stokkhólmssamningin um þrávirk lífræn efni til að stöðva notkun þeirra og framleiðslu, en undanþága er veitt til notkunar í framleiðslu á pressuðu eða þöndu pólýstýren plasti (m.a. frauðplasti) sem notað er í byggingariðnaði. Undanþágur eru oftast veittar vegna þess að ekki er búið að finna hentuga staðgöngulausn. Hér á landi eru þessi efni takmörkuð með reglugerð nr. 954/2013 um þrávirk lífræn efni sem innleiðir reglugerð (ESB) nr. 1021/2019 sama efnis.
Fjölbrómuð bífenýl - PBBs
Efnin voru mikið notuð á árum áður í textíl og nokkuð í plast og raftæki. Þeim var skipt út fyrir PBDE efni á áttunda áratug 20. aldar þegar notkun þeirra í textíl var bönnuð af ESB vegna skaða þeirra á heilsu manna. Þau eru bönnuð innan EES í textílvörum sem ætlað er að komast í snertingu við húð (REACH, XVII. viðauki, færsla 8; Umhverfisstofnun).
Hexabrómóbífenýl - HBB
Efnið var notað í húðun kapla, lökk, bílaáklæði og hitadeigt plast, einkum fyrir raftæki. Það hefur ekki verið notað innan EES í nokkra áratugi og framleiðsla þess og notkun er bönnuð í þeim löndum sem eru aðilar að Stokkhólmssamningnum um þrávirk lífræn efni. Að auki hefur efnið verið flokkað sem krabbameinsvaldandi. Tiltölulega auðvelt var að skipta efninu út þar sem staðgöngukostir voru þegar til staðar og fremur ódýrir.
Eldtefjandi lífræn fosfatefni - OPFRs
Þegar byrjað var að fasa út og takmarka notkun PBDE og annarra brómaðra efna í eldtefjandi tilgangi fór iðnaðurinn að skipta þeim út fyrir m.a. OPFRs. Efnin eru notuð í margvíslegum tilgangi, m.a. sem mýkiefni fyrir plast, og þau eru nú í öðru sæti yfir mest notuðu eldtefjandi efnin í Evrópu. Þau eru ekki bundin efniviðnum sem þeim er bætt við og geta því losnað út í umhverfið með uppgufun, núningi og/eða útskolun. Nokkur hafa verið takmörkuð og hættuflokkuð innan EES, má þar nefna:
- Tris(2-klóróetýl)fosfat, TCEP: Bráð eiturhrif 4, krabbameinsvaldandi áhrif 2, langvarandi eiturhrif á vatn 2 og eiturhrif á æxlun 1B. Efnið er leyfisskylt (REACH, XIV. viðauki, færsla 13; Umhverfisstofnun).
- Tris(2-klóró-1-metýletýl)fosfat, TCPP: Bráð eiturhrif 4.
- Tris[2-klóró-1-(klórómetýl)etýl]fosfat, TDCP: Krabbameinsvaldandi áhrif 2. Bannað í snyrtivörum (reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009 með sama heiti, sjá II. viðauka, Umhverfisstofnun).
- Öll þrjú efnin eru með sérstök viðmiðunarmörk fyrir leyfilegt magn í leikföngum sem ætluð eru börnum yngri en 36 mánaða eða í leikföngum sem eru ætluð til að setja í munninn (tafla í viðbæti C við II. viðauka reglugerðar nr. 944/2014 um öryggi leikfanga; HMS).
Efnin hafa fundist á Norðurskautinu sem gefur til kynna að þau geti ferðast langar vegalengdir en þau brotna mjög hægt niður í náttúrunni. Að auki hafa þau greinst í þvagi Norskra barna og mæðrum þeirra.
Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum
Almennt um eldtefjandi efni á íslensku á heimasíðu verkefnisins efnafræðilega snjöll eyja (e. chemically clever island).
Upplýsingar um eldtefjandi efni á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):
- Skýringarmyndir (enska)
- Upplýsingaskjöl (enska)
Almennt um brómeruð eldtefjandi efni á dönsku á heimasíðu Umhverfistofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).
Almennt um brómeruð eldtefjandi efni á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).
Almennt um eldtefjandi lífræn fosfórefni á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).
Upplýsingar um eldtefjandi efni á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet:
- Almennt um fjölbrómaða dífenýletera (PBDEs)
- Almennt um tetrabrómóbisfenól A (TBBPA)
- Almennt um hexabrómsýklódódekan (HBCDD)
Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 28. desember 2022.