Kadmíum

Kadmíum (e. cadmium) er frumefni og finnst í jarðskorpunni í litlum styrk. Losun kadmíums getur komið til bæði af náttúrulegum ástæðum og við athafnir manna einkum við málmvinnslu, námugröft og áburðaframleiðslu. Kadmíum og kadmíum efnasambönd eru flest mjög eitruð í stórum skömmtum og er talið að þau valdi beinþynningu og nýrnaskemmdum.

Hvar er líklegt að finna þau?

  • Tóbaksreyk
  • Batteríum
  • Litarefnum
  • Áburði
  • Málmvinnslum
  • Námuvinnslum
  • Plasti, einkum PVC

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Í gegnum meltingarveginn
  • Með innöndun

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Aukið líkur á krabbameini, einkum lungnakrabbameini
  • Aukið líkur á ófrjósemi
  • Aukið líkur á fæðingargöllum
  • Safnast upp í nýrum og valdið nýrnavandamálum
  • Skaðað lungu við háan styrk
  • Auknar líkur á beinþynningu
  • Grunuð um að valda stökkbreytingum

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Forðast að reykja tóbaksvörur þar sem kadmíum safnast fyrir í laufum tóbaksplöntunnar.
  • Höldum börnum frá því að anda að sér tóbaksreyk.
  • Leyfum ekki börnum að leika með batterí.
  • Koma batteríum í réttan farveg hjá móttökuaðilum eftir notkun. Við urðun geta efnin lekið út í jarðveginn.
  • Fara eftir öryggisreglum, þvoum reglulega hendur og klæðumst viðeigandi vinnufatnaði við vinnu í stóriðju og við stórar byggingarframkvæmdir.

Nánari umfjöllun um kadmíum

Kadmíum (e. cadmium) er eitt af frumefnum jarðar og er þungmálmur (e. heavy metal). Það losnar bæði í náttúrunni við eldgos og við athafnir manna en það síðarnefnda veldur meiri losun efnisins út í umhverfið. Upptaka efnisins í líkamann er fremur lítil en vandamálið er að það safnast frekar auðveldlega fyrir í lifur og nýrum en það hefur um 10 – 30 ára líffræðilegan helmingunartíma sem þýðir að erfitt er að losna við efnið þegar það er komið inn í líkamann. Ekki er vitað til þess að kadmíum þjóni tilgangi í lífverum en það hermir eftir öðrum málmum sem eru nauðsynlegir í ýmsum líffræðilegum ferlum. Algengara er fyrir yngri konur en karla að taka upp kadmíum vegna þess að konur á barneignaraldri og þungaðar konur eru líklegri til að vera með járnskort og við það ástand á líkaminn það til að taka upp meira kadmíum úr fæðunni.

Kadmíum er flokkað m.a. sem efni sem hefur bráð eiturhrif, stökkbreytandi áhrif á kímfrumur, krabbameinsvaldandi áhrif og að hafa bráð og langvarandi eiturhrif á líf í vatni. Flest kadmíum efnasambönd eru mjög eitruð í miklu magni og er talið að þau auki líkur á krabbameini einkum í lungum. Að auki er talið að efnin geti haft áhrif á frjósemi, myndun fæðingargalla, nýrnaskemmdir og beinþynningu. Verið er að meta kadmíum vegna stökkbreytandi áhrifa og eiturhrifa á æxlun af Efnastofnun Evrópu (e. ECHA).

Kadmíum og efnasambönd þess eru takmörkuð og/eða bönnuð með nokkrum reglugerðum hér á landi og innan EES. Vert er að nefna hér nokkrar þeirra:

ATH - Kadmíum getur komið fyrir í ýmsum matvælum en sú umfjöllun verður ekki rakin hér. Ef áhugi er fyrir fróðleik og leiðbeiningum varðandi kadmíum í mat þá bendum við á ráðleggingar frá Matvælastofnun Danmerkur vegna kadmíum efnasambanda á dönsku og Álit varðandi kadmíum í mat frá Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) á ensku.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um kadmíum á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um kadmíum á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um kadmíum á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet.

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 11. janúar 2024.