Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Króm

Króm (e. chromium) er eitt af frumefnum jarðar og er þungmálmur (e. heavy metal). Efnasambönd króms eru misskaðleg. Sexgilt króm er talið það skaðlegasta en það getur aukið líkur á krabbameini og ofnæmi.

Hvar er líklegt að finna þau?

  • Sementi
  • Textíl
  • Litarefnum
  • Leðri
  • Málningu
  • Viðarvörnum
  • Rafhlöðum
  • Flugeldum
  • Innan í raftækjum
  • Klæðningum
  • Gagnvörðu timbri (fúavörn) frá árunum 1950 – 2004

Hvernig komast þau inn í líkamann?

  • Með innöndun 
  • Með upptöku í gegnum húð
  • Í gegnum fæðuna

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Aukið líkur á lungnakrabbameini
  • Aukið líkur á ófrjósemi
  • Skaðað augu
  • Valdið snertiofnæmi, húðkláða og ertingu
  • Vandamálum í öndunarfærum (t.a.m. astma, hósta, nefkvefi)

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja Oeko-Tex merktan textíl en þá er ekki farið yfir leyfileg viðmiðunarmörk hættulegra efna í vefnaði og framleiðslu hans.
  • Notum hlífðarfatnað og öryggisbúnað í vinnunni þegar til þess er ætlast.
  • Við úreldingu vara er mikilvægt að koma þeim í réttan farveg hjá móttökuaðilum. Við urðun geta efnin lekið út í jarðveginn.

Nánari umfjöllun um króm

Króm (e. chromium) er eitt af frumefnum jarðar og finnst í fjölmörgum efnasamböndum sem eru misskaðleg. Króm kemur fyrir í grjóti, plöntum, jarðvegi og lífverum og er m.a. talið að þrígilt króm sé nauðsynlegt næringarefni þegar það er í snefilmagni fyrir sumar lífverur. Króm í formi málms (Cr(0)) er ekki skaðlegt heilsu okkar og er aðalleg notað við framleiðslu á ryðfríu stáli en það hefur hátt tæringarþol og eðlishörku. Hættulegustu krómsamböndin eru sexgild krómsambönd (Cr(VI)) og eru þau sérlega eitruð vatnalífverum. Myndun þeirra er einkum vegna athafna manna en þau finnast í sementi og hafa einnig verið notuð við vinnslu á leðri. Algengasta aðferðin við að undirbúa húðir fyrir leðurgerð nú til dags notast við þrígilt króm (Cr(III)).

Áður fyrr var timbur gagnvarið með svokallaðri CCA þrýstimeðferð þar sem krómi (C), kopar (C) og arseni (A) var þrýst inn í viðinn. Slíkt timbur var takmarkað hér á landi árið 2004 en um er að ræða timbur sem kemur fúavarið í innflutningi en ekki hefðbundin fúavörn sem hægt er að versla út í búð og bera á sjálfur með pensli. Efnin munu halda áfram að leka úr gömlu CCA meðhöndluðu timbri næstu árin, en CAA meðhöndlað timbur flokkast sem spilliefni og því verður að skila á endurvinnslustöð sem slíku. Það má ekki brenna slíkt timbur þar sem efnin mynda eitraðan reyk, ryk og ösku.

Þegar talað er um skaðsemi og hættu vegna krómsambanda er yfirleitt verið að fjalla um þrígild og sexgild krómsambönd, en flestar takmarkanir eru á því síðarnefnda. Sexgild krómsambönd eru krabbameins- og ofnæmisvaldandi, auka líkur á exemi og hafa eiturhrif á erfðaefni. Þeir sem eru í mestri hættu af mögulegum áhrifum sexgildra krómsambanda eru vinnumenn í málningarframleiðslu, málmbræðslum, sementframleiðslu, leðurvinnslu og við framleiðslu á viðarvörnum. Þrígild krómsambönd eru talin minna skaðleg en sexgild en þau eru hins vegar varhugaverð og geta t.a.m. valdið ofnæmi og exemi hjá fólki. Að auki hefur það komið fyrir að þrígild  krómsambönd oxist yfir í sexgild í leðurvörum við geymslu.

Króm og efnasambönd þess eru takmörkuð og/eða bönnuð undir nokkrum reglugerðum hér á landi og innan EES. Vert er að nefna hér nokkrar þeirra:

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um sexgilt króm á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um króm á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um króm á sænsku á heimasíðu Karolinska Institutet.

 

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 2. apríl 2024.