Þalöt

Þalöt (e. phthalates) eru manngerð efni sem komu fyrst á markað á milli 1920 og 1930. Efnin eru aðallega notuð í plast til að mýkja það og gera sveigjanlegra.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

  • Borðbúnaði úr plasti
  • Matvælaumbúðum úr plasti
  • Leikföngum úr plasti
  • Snyrtivörum (t.d. sápur, sjampó, hárlökk, ilmvötn, naglalökk)
  • Textíl
  • Íþróttavörum
  • Uppblásnum dýnum úr plasti
  • Kynlífstækjum
  • Garðslöngum/vatnsslöngum
  • Byggingarvörum, húsgögnum, bílavörum og fjarskiptavörum úr PVC plasti
  • Einangrun í snúrum og vírum í rafeindabúnaði og byggingum.
  • Vínyl gólfefnum
  • Lími, þéttiefnum, málningu
  • Hreinsiefnum
  • Hlutum úr PVC, PP, PE, PET, PU plasti

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

  • Í gegnum fæðuna
  • Með upptöku í gegnum húð
  • Með innöndun
  • Þegar börn stinga leikföngum eða hlutum úr plasti í munninn

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Aukið líkur á ofvirkni, athyglisbrest
  • Truflað á hormónastarfsemi
  • Aukið líkur á insúlínviðnámi
  • Dregið úr frjósemi
  • Aukið líkur á offitu
  • Auknar líkur á astma

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir þalötum?

  • Velja vörur án þalata, í innihaldslýsingu vara enda slík efni á -phthalate (enska heitið).
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja textíl sem er mertkur með Oeko-Tex 1000.
  • Forðast leikföng úr mjúku plasti - sérstaklega þau sem voru framleidd fyrir 2007 (þá voru settar strangari reglur).
  • Forðast að hita hluti úr plasti, ekki síst í örbylgjuofni.
  • Forðast að leyfa börnum að leika sér með hluti sem ekki eru leikföng eins og t.d. raftæki. Innihald efna í slíkum vörum uppfylla ekki þær kröfur sem gerðar eru til efna í barnaleikföngum.
  • Nota frekar gler eða ryðfrítt stál til að geyma mat og drykki í stað plasts.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um þalöt

Þalöt eru stór hópur efna með mismunandi eiginleika og notkun, en efnin hafa öll sömu grunnbyggingu. Algengasta notkun þeirra er sem mýkiefni fyrir pólývínýlklóríð plast (e. PVC, plasttegund nr. 3). PVC er í eðli sínu mjög hart/stökkt og er því almennt mýkt með um 40-50% af þyngd sinni með mýkiefnum á borð við þalöt. Notkunarsvið PVC er afar breitt en það er m.a. notað í leikföng, pípulagnir, rafkapla, textíl, gólfefni, lækningatæki, matvælaumbúðir, íþróttabúnað og umbúðir.

Þalöt eru einnig notuð sem leysar og sem bindiefni, t.a.m. til að halda ilm í vörum, draga úr sprungumyndun í naglalakki og auðvelda vörum að komast í gegnum húðina og gefa henni raka. Því má áætla að útsetning okkar í daglegu lífi sé mikil.

Útgufun og leki þalata úr efninu/miðlinum, t.d. plasti, er lítill en stöðugur þar sem þau eru ekki bundin við plastið og eru lítið rokgjörn við venjulegar aðstæður. Losunin eykst þegar varan/hluturinn hitnar eða kemst í snertingu við fitu, t.a.m. ost eða feitt kjöt. Þalöt sem losna út í umhverfið bindast gjarnan við ryk og geta þannig borist langar vegalengdir með lofti. Í umhverfinu brotna mörg efnanna frekar auðveldlega niður í vatni, en mun hægar í seti og jarðvegi. Að auki geta þalöt safnast upp í mismiklu mæli í lífverum, en það fer allt eftir getu lífveranna til að brjóta efnin niður.

Skaðsemi þalatanna díbútýl þalats (e. DBP) og bis(2-etýlhexýl) þalats (e. DEHP) á frjósemi manna hefur verið kunn um áratugaskeið. Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl á milli útsetningar fyrir þalötum (einkum DEHP og DBP) og skaðlegra áhrifa á frjósemi og þróun og virkni æxlunarfæra sérstaklega hjá drengjum. Slíkar rannsóknir benda einnig til mögulegra tengsla á milli útsetningar fyrir þalötum og astma, snemmbúins kynþroska stúlkna, skemmda í sæðisfrumum og skjaldkirtilsvandamála en frekari rannsóknir þarf til að geta dregið sterkari ályktanir.

Vegna fjölda tegunda þalata er tímafrekt verk að skoða skaðsemi hvers og eins og er þeirri vinnu hvergi nærri lokið. Eftirfarandi er listi yfir þekktustu efnin og hættuflokkun þeirra:

  • Bis(2-etýlhexýl) þalat (DEHP) – hefur eiturhrif á æxlun (Eit. á æxlun 1B) og er innkirtlatruflandi.
  • Díbútýl þalat (DBP) – hefur eiturhrif á æxlun (Eit. á æxlun 1B), er innkirtlatruflandi og hættulegt fyrir vatnsumhverfi (Bráð eit. á vatn 1). Að auki er verið að meta það fyrir PBT-eiginleika (þrávirkt efni sem safnast fyrir í lífverum og er eitrað).
  • Díísíbútýl þalat (DIBP) – hefur eiturhrif á æxlun (Eit. á æxlun 1B) og er innkirtlatruflandi.
  • Bensýl bútýl þalat (BBP) – hefur eiturhrif á æxlun (Eit. á æxlun 1B), er innkirtlatruflandi og hættulegt fyrir vatnsumhverfi (Bráð eit. á vatn 1 og Langv. eit. á vatn 1). 
  • Dípentýl þalat (DPP) – hefur eiturhrif á æxlun (Eit. á æxlun 1B), er innkirtlatruflandi og hættulegt fyrir vatnsumhverfi (Bráð eit. á vatn 1).
  • Dísýklóhexýl þalat (DCHP) – hefur eiturhrif á æxlun (Eit. á æxlun 1B), er innkirtlatruflandi og næmir húð (Húðnæm. 1B).

Ákveðnir hópar eru viðkvæmari og berskjaldaðri fyrir efnunum en aðrir. Þetta á sérstaklega við ungabörn og fóstur sem eru útsett fyrir efnum í móðurkviði. Að auki vilja vísindamenn skilgreina unglinga á kynþroskaskeiði, einkum stráka, sem sérstakan áhættuhóp.

Nokkur þalöt eru takmörkuð innan EES og kemur það við sögu í nokkrum reglugerðum. Vert er að nefna hér nokkrar takmarkanir og bönn:

Athugið að DEHP er enn mikið notað í löndum utan Evrópu og því ber að sýna varkárni með val á vörum sem framleidd eru utan svæðisins.

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Upplýsingar um þalöt á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um þalöt á ensku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA).

Almennt um þalöt á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Umfjöllun um þalöt í leikföngum á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almennt um þalöt á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um þalöt á sænsku á heimasíðu Efnastofnun Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen).

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 20. september 2022.