Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hættumerki

Á hverju ári valda efni sem notuð eru í heimahúsum fjölda slysa. Hægt er að koma í veg fyrir þau með því að kynna sér merkingar á vörum sem innihalda hættuleg efni, en þar má meðal annars finna upplýsingar um eðli hættunnar og varúðarráðstafanir sem hægt er að grípa til, ef eitthvað fer úrskeiðis.

Hættumerkin níu eru notuð til þess að vara við hættu af völdum efna og þau byggjast á alþjóðlegu, samræmdu kerfi sem verið er að innleiða á heimsvísu.

Fimm góð ráð

  • Geymdu hættuleg efni alltaf í upprunalegum umbúðum.
  • Fylgdu leiðbeiningum á merkimiðanum.
  • Varastu að hættuleg efni komist í snertingu við húð, augu eða lungu.
  • Geymdu hættumerktar vörur þar sem börn ná ekki til.
  • Hugsaðu um umhverfið áður en þú fargar hættumerktum vörum.

Það er mikilvægt að geyma hættumerktar vörur þar sem börn ná ekki til og ekki nálægt matvælum, dýrafóðri, lyfjum eða álíka vörum. Þegar búið er að nota vöruna þá þarf förgun innihalds og umbúða að vera í samræmi við reglur. Á merkimiða hættulegra efna eru gefnar ráðleggingar um viðbrögð við óhöppum og slysum.

Ef þú finnur til langvarandi óþæginda sem rekja má til meðferðar á vöru sem inniheldur hættuleg efni skaltu leita til læknis eða Eitrunarmiðstöðvar Landspítala í síma 543-2222 og hafa þá umbúðir eða merkimiða vörunnar við hendina. Á heimasíðu Eitrunarmiðstöðvar er að finna góð ráð til að koma í veg fyrir eitranir.

Mælt er með því að fara kerfisbundið í gegnum öll herbergi á heimilinu og huga að því hvar hættuleg efni og lyf eru geymd. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því fyrir hvað hættumerkin standa og þess vegna þarft þú að kynna þér málið til að eiga auðveldara með að taka upplýsta ákvörðum um vöruval og meðhöndlun á vörum sem innihalda hættuleg efni.