Sundlaugamerkingar

Nýjar merkingar og öryggisreglur á sundstöðum

Í sumar geta gestir sund- og baðstaða hér á landi átt von á að sjá þar nýjar öryggismerkingar því að frá og með næsta ári á að vera búið að setja upp ný alþjóðleg öryggis-,  varúðar- og leiðbeiningamerki á sund- og baðstöðum.

Sundlaugar eru eitt af einkennum Íslands og njóta mikilla vinsælda hjá bæði okkur Íslendingum sem og erlendum gestum.  Þar  sem mikill fjöldi innlendra og erlendra gesta kemur saman er mikilvægt að notað sé alþjóðlegt, staðlað og myndrænt merkjakerfi.  Kostur alþjóðlegra staðlaðra merkja er að þekking almennings á slíkum merkjum verður almenn þar sem sama merkjamálið er notað í mörgum löndum. Slík merki draga úr þörf á texta og þar með líkum á misskilningi vegna tungumálaörðugleika. Reynslan hefur sýnt að notkun staðlaðra merkjakerfa eins og t.d. umferðamerkja þar sem hver tegund merkja hefur sína liti og lögun, og notar frekar myndtákn en letur, eykur öryggi og dregur úr slysahættu.

Öryggi barna í sundi

Börn eru stór hópur sundlaugargesta og er mikilvægt að tryggja öryggi þeirra sem best. Samkvæmt nýjum reglum mega börn yngri en 10 ára ekki fara í sund nema í fylgd með syndum einstaklingi, 15 ára eða eldri. Viðkomandi má þó ekki hafa með sér fleiri en tvö börn, nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna.

Gæta þarf öryggis þegar komið er með hóp barna í sund.  Nú gildir sú regla að þegar farið er með hóp barna, yngri en 10 ára, í sund eiga þau að vera með auðkennismerki  svo sem sundhettur, sundvesti, armbönd eða sambærilegt í áberandi lit. Þetta á að auðvelda hópstjórum  að fylgjast með börnunum meðan þau eru í laug. Hópstjórar þurfa að kynna sér reglur sundstaðarins og aðstoða starfsfólk við gæslu barnanna. Ekki mega vera fleiri en fimmtán börn, 10 ára eða yngri, í umsjón hvers hópstjóra.

Nánari upplýsingar um öryggismerkingar á sund og- baðstöðum.

Hér fyrir neðan má sjá leiðbeiningar með öryggismerkingum á sundstöðum. Einnig er er hægt að skoða útgáfuna bæði í PDF (Adobe Acrobat) og AI (Illustrator) sniði.