Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Brennisteinsvetni

Flestir þekkja hveralykt. Hveralykt stafar af gastegundinni brennisteinsvetni sem kemur upp með heitri gufu á jarðhitasvæðum. Lyktin finnst einnig af hitaveituvatni á svæðum þar sem örlitlu magni af brennisteinsvetni er bætt í vatnið til að eyða uppleystu súrefni í vatninu sem myndi annars tæra vatnsleiðslur.

Mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti

Í febrúar árið 2006 hóf Umhverfissvið Reykjavíkur stöðugar mælingar á brennisteinsvetni í andrúmslofti í Reykjavík. Mælt er í mælistöð Umhverfisstofnunar og Umhverfissviðs Reykjavíkur sem staðsett er á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar. Mælingarnar hófust m.a. til að fylgjast með áhrifum jarðhitavirkjana á loftgæði í höfuðborginni.

Jarðhitavirkjanir í nágrenni Reykjavíkur

Í nágrenni Reykjavíkur eru jarðhitavirkjanirnar Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun, í þeim er heit gufa notuð til rafmagnsframleiðslu og upphitunar vatns. Með gufunni kemur brennisteinsvetni sem sleppur út í andrúmsloftið. Gangsetning Hellisheiðarvirkjunar hófst í september á síðasta ári með því að holur voru látnar blása og þær voru prófaðar en virkjunin var formlega gangsett í október. Mælingar sýna að á svipuðum tíma jókst styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti borgarinnar. Niðurstöður mælinganna fyrir árið 2006 eru sýndar á grafi hér fyrir neðan. Þar kemur fram að styrkur brennisteinsvetnis fer vaxandi frá byrjun september, eða á þeim tíma sem virkjunin var gangsett.

 
Hér að neðan er sýnt kort af næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Á kortinu er vindrós sem sýnir meðalstyrk brennisteinsvetnis í ólíkum vindáttum árið 2006. Miðja vindrósarinnar er sett á mælistöðina á Grensásvegi og sýnir hún þær vindáttir við mælistöðina sem bera oftar með sér hæstan styrk brennisteinsvetnis. Greinilegt er að styrkur brennisteinsvetnis er að jafnaði hærri í vindáttum sem standa af jarðhitavirkjununum, en það eru austlægar og suðaustlægar vindáttir.

 

Síðustu ár hefur verið mikil aukning á brennisteinsvetni í andrúmslofti á Íslandi og er það einkum vegna aukinnar nýtingu á jarðhita. Losun brennisteinsvetnis frá jarðhitavirkjunum mælist nú í miklu magni og er orðinn stærsti hlutinn af losun brennisteinssambanda út í andrúmsloftið.

Áhrif brennisteinsvetnis á heilsu

Í miklum styrk er brennisteinsvetni skaðlegt heilsu. Það eru helst augu, lungu og öndunarvegur sem eru viðkvæm. Lægsti styrkur sem talinn er valda skaða er u.þ.b. 15.000 míkrógrömm í rúmmetra en það er meira en 100 sinnum yfir þeim styrk sem mest hefur mælst hefur í Reykjavík.

Umhverfismörk

Umhverfisráðherra Íslands hefur gefið út reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmsloftinu sem tók gildi í júlí 2010. Með þessari reglugerð voru sett heilsuverndarmörk brennisteinsvetnis á Íslandi sem er 50 µg/m3 að meðaltali miðað við 24 klukkustunda tímabil. Markmið reglugerðarinnar er að lágmarka loftmengun af völdum brennisteinsvetnis, setja umhverfismörk fyrir styrk þess í andrúmslofti sem miða að því að fyrirbyggja eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og umhverfið í heild og tryggja nægilegar mælingar á styrk brennisteinsefnis og miðla upplýsingum til almennings þar um. Heilsuverndarmörk sem Alþjóðaheilbrigðisstofnun (WHO) hefur gefið út eru 150 µg/m3 en sú viðmiðun gæti breyst í framtíðinni þar sem WHO vinnur að endurskoðun.

Hveralykt

Margir finna lykt af brennisteinsvetni þó styrkur þess sé mjög lítill. Í Kaliforníu hafa umhverfismörk verið miðuð við næmni fólks fyrir lykt, þar eru mörkin 42 míkrógrömm í rúmmetra sé miðað við klukkustundarmeðaltal, en rannsóknir sýna að við þann styrk skynji um 80% almennings lyktina. Mælingar frá því í febrúar 2006 til miðjan febrúar 2007 sýndu að styrkur brennisteinsvetnis í Reykjavík fór samtals 48 sinnum yfir umhverfismörk Kaliforníu í mislöngum tímabilum, þar af urðu 45 skipti eftir 1.september 2006. Vegna þessa hefur meira borið á hveralykt í höfuðborginni eftir að Hellisheiðarvirkjun var gangsett.

Samanburður mælinga við heilsuverndarviðmið WHO

Grafið hér að neðan sýnir tiltækar mælingar af brennisteinsvetni fram til 13. febrúar 2007. Rauða línan sýnir heilsuverndarviðmið WHO sem eru 150 míkrógrömm í rúmmetra að meðaltali á sólarhring. Það sést að þó aukningin sé mikil eftir gangsetningu Hellisheiðarvirkjunar fara mælingar aðeins 5 sinnum yfir núverandi heilsuverndarmörk Íslands.