CORSIA

CORSIA er nýtt kerfi á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar ICAO sem heldur utan um losun gróðurhúsalofttegunda í alþjóðaflugi og er því yfirgripsmeira en núverandi ETS kerfi sem nær eingöngu til flugs innan EES.

Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) samþykkti árið 2016 að koma á fót alþjóðakerfi varðandi losun gróðurhúsalofttegunda frá flugstarfsemi sem að byggir á sambærilegri hugmyndafræði og ETS kerfið.  Þetta kerfi virkar þannig að öllum ríkjum heims er boðið að skuldbinda sig til að taka þátt, og þegar þau hafa skuldbundið sig til þátttöku þá þurfa þeir flugrekendur í þeim ríkjum að halda utan um og gera upp losun til og frá sínu ríki og annarra ríkja sem taka þátt í kerfinu. Í maí 2019 hafa 79 ríki skuldbundið sig til þátttöku, þar með talið öll ESB ríkin, en einnig stór ríki eins og Ástralía, Kanada, Japan, Mexíkó, Tyrkland og Bandaríkin. Kerfið mun taka gildi frá og með 1. janúar 2021 en flugrekendur eru þegar farnir að vakta alla losun, þar sem losun áranna 2019 og 2020 mun vera ákveðin gagnaöflun fyrir grunnlínu (e. baseline). Flugrekendur þurfa síðan að standa skil á allri losun sem fer umfram meðaltalslosun þessara tveggja ára frá og með árinu 2021.

Til að koma í veg fyrir tvítalningu heimilda og til einföldunar og minnkunar á stjórnsýslubyrði bæði fyrir flugrekendur og lögbær stjórnvöld mun regluverk CORSIA verða innleitt inn í ETS tilskipunina, auk þess sem að reglur um vöktun og skýrslugjöf eru aðlagaðar að regluverki ICAO.

Frekari upplýsingar um CORSIA má finna hér.