Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Alþjóðlegar skuldbindingar

Mynd: Scott Graham - UnsplashMynd: Scott Graham - Unsplash

Íslenska ríkið hefur tekið á sig ýmsar skuldbindingar á alþjóðlegum vettvangi. Hér verður fjallað stuttlega um samningana, skuldbindingar og aðgerðir er tengjast alþjóðlegum samningum um náttúruvernd.

     Þeir samningar sem fjallað verður um eru:

Samningur um líffræðilega fjölbreytni

Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) var samþykktur á heimsráðstefnu um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro árið 1992. Ísland undirritaði samninginn á ráðstefnunni og gekk hann í gildi hér á landi árið 1994. Nær allar þjóðir heims eru aðilar að samningnum sem hefur þau markmið að vernda líffræðilega fjölbreytni, að nýting sé sjálfbær og að skipting hagnaðar af auðlindum sé sanngjörn og réttlát.

Í samningnum er sett fram svokölluð þriggja stiga nálgun til að vinna að líffræðilegri og upprunalegri fjölbreytni:

  1. Að koma í veg fyrir innkomu ágengra framandi tegunda er yfirleitt mun hagkvæmara og umhverfisvænna en aðgerðir sem ráðast þarf í eftir að slíkar tegundir hafa fest sig í sessi.
  2. Ef ágeng framandi tegund hefur numið land er mikilvægt að greina það fljótt og grípa tafarlaust til aðgerða til að hindra að hún festi rætur. Oft er æskilegt að uppræta viðkomandi tegund eins fljótt og mögulegt er.
  3. Ef uppræting er ekki möguleg er nauðsynlegt að hindra útbreiðslu og skipuleggja aðgerðir til langs tíma til að hemja tegundina.


Meðal skuldbindinga Íslands er að:

  • Koma á kerfi verndarráðstafana og verndarsvæða.
  • Stýra og stjórna mikilvægum líffræðilegum auðlindum til að tryggja vernd þeirra og sjálfbæra þróun.
  • Stuðla að sjálfbærri þróun á svæðum sem eru aðliggjandi vernduðum svæðum.
  • Endurheimta röskuð vistkerfi og stuðla að því að tegundir í hættu nái sér.
  • Stuðla að sátt milli nýtingar og verndar.
  • Koma í veg fyrir innflutning óæskilegra framandi tegunda, hafa stjórn á uppgangi þeirra eða uppræta þær.
  • Virða og viðhalda þekkingu og venjum hefðbundins lífstíls innfæddra.
  • Stjórna og hafa eftirlit með notkun og losun erfðabreyttra lífvera.
  • Efla fræðslu og þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni Íslands.

Fimmtánda ráðstefna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD), fór fram dagana 7.–19. desember 2022 í Montreal, Kanada. Á ráðstefnunni unnu aðildarþjóðir samningsins að samþykkt nýrrar stefnu og aðgerðaáætlunar til ársins 2030 með það að meginmarkmiði að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og stuðla að verndun, endurheimt og sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auðlinda.

 Ríkisstjórn Íslands vinnur nú að endurnýjun stefnunnar um líffræðilegri fjölbreytni með hliðsjón af markmiðum samningsins. Á heimasíðu  Stjórnarráðsins má fylgjast með vinnunni.

Ramsarsamningurinn um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi einkum fyrir fuglalíf

Samningurinn var samþykktur 1971 og tók gildi 1978 á Íslandi. Með samningnum er áhersla lögð á mikilvægi votlendissvæða fyrir vatnsmiðlun, fjölbreytt góðurfar og dýralíf, sérstaklega votlendisfugla. Samningsaðilar eru hvattir til aðgerða til að vernda votlendissvæði fyrir ágengum framandi tegundum sem kunna að ógna líffræðilegum einkennum slíkra svæða og tegundum sem þar lifa. Nýting skal ekki ganga á vistkerfi svæða eða rýra svæðið á annan hátt. Með samningnum er verið að tryggja búsvæði fuglastofna sem treysta á búsvæði óháð landamærum. Votlendi eru líka mikilvæg til bindingar kolefnis, þar á sér stað mikil jarðvegsmyndun, þau auka vatnsgæði og taka upp og virka sem miðlun vatns.

Meðal skuldbindinga Íslands er að:

  • Undirbúa og framkvæma skipulag þannig að stuðlað sé að vernd votlenda sem eru á Ramsar-listanum, svo og skynsamlegri nýtingu votlenda, eins og framast er unnt.
  • Fylgjast með og tilkynna ef vistfræðileg sérkenni votlenda á listanum hafa breyst, eru að breytast eða eru líkleg til þess að breytast vegna verklegra framkvæmda, mengunar, eða annarrar röskunar af mannavöldum.
  • Stuðla að vernd votlenda, m.a. með því að friðlýsa ákveðin svæði (sem friðlönd e. nature reserves) og stuðla að betri lífsskilyrðum votlendisfugla.
  • Ef brýna nauðsyn ber til að raska votlendi skal, eins og framast er unnt, bæta fyrir það, einkum með því að leggja til annað og sambærilegt votlendissvæði annað hvort á sama svæði eða á stað þar sem fyrirfinnst viðunandi hluti sömu tegunda.
  • Standa fyrir rannsóknum, miðlun upplýsinga og fræðslu um votlendi, gróður og dýralíf.
  • Leitast við að styrkja stofna votlendisfugla með viðeigandi ráðstöfunum.

Á heimasíðu Umhverfisstofnunar má finna upplýsingar um Ramsarsvæði á Íslandi.

Samningur um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu

Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu var gerður 1979 og tók gildi á Íslandi 1993. Með samningnum er lögð áhersla á að vernda villtar tegundir gróðurs og dýra auk búsvæða þeirra sem þörf er á að vernda, ekki síst þeirra tegunda sem þarfnast alþjóðlegrar samvinnu. Meðal aðgerða á grundvelli samningsins er að tryggja lífsvæði villtra dýra t.d. alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði.

Meðal skuldbindinga Íslands er að:

  • Vernda líffræðilega fjölbreytni, náttúrulegar vistgerðir og mikilvægt hlutverk þeirra við að hýsa fjölda tegunda dýra og plantna.
  • Gera nauðsynlegar ráðstafanir til að viðhalda jafnvægi milli tegunda í vistkerfum og/eða aðlaga stofnstærð villtra dýra og plantna einkum í samræmi við vistfræðilegar, vísindalegar og menningarlegar kröfur.
  • Meta umhverfisáhrif framkvæmda og þróunar.
  • Stuðla að aukinni þekkingu og upplýsingagjöf, m.a. með því að auka vitund og virkni almennings í verndun náttúruarfleifðar okkar.
  • Samræma umhverfisrannsóknir.
  • Takast á við umhverfislegar áskoranir eins og loftslagsbreytingar, framandi ágengar tegundir og skaðlegar athafnir manna.

Samningur um vernd votlendisfugla og búsvæði þeirra

Ísland varð aðili að samningnum árið 2013 en samningurinn var gerður fyrst árið 1995. Sáttmálinn snýr að verndun votlendisfugla og búsvæði þeirra í Afríku, Evrópu, Mið-Austurlöndum, Mið-Asíu, Grænlandi og Kanadísku eyjaklösunum. Markmiðið er að koma á fjölþjóða samvinnu og samræmdum verndaraðgerðum til að tryggja vernd viðkomustaða votlendisfugla. Samningurinn er lagalega bindandi fyrir aðildarríkin og tekur til verndar tegundanna og búsvæða en einnig til athafna mannsins sem kunna að ógna tegundunum.

Meðal skuldbindinga Íslands er að:

  • Samkvæmt grundvallarreglu samningins skulu samningsaðilar grípa til samræmdra verndaraðgerða til að viðhalda eða endurheimta ákjósanlega verndarstöðu votlendisfarfugla.
  • Gerðar skulu raunhæfar ráðstafanir til að vernda votlendisfarfugla, sérstaklega tegundir sem eru í hættu eða með óhagstæða verndarstöðu, þ.m.t. að greina og gera ráðstafanir til verndar búsvæðum þeirra og viðkomustöðum.
  • Tryggja að nýting tegunda byggi á sjálfbærni og bestu mögulegu þekkingu á vistfræðilegri stöðu þeirra.
  • Fræðsla, miðlun upplýsinga og stuðla að vitundarvakningu.

Árósasamningurinn

Samningurinn var gerður árið 1998 og hefur verið í gildi á Íslandi frá 2011. Samningurinn snýst um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum, þátttöku í ákvarðanatöku stjórnvalda í ákvarðanatöku og aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Gefa skal almenningi kost á að taka þátt í ákvarðanatöku um útgáfu leyfa fyrir tiltekinni starfsemi sem haft getur áhrif á umhverfið:

  • Almenningur sem málið varðar skal upplýstur um fyrirhugaða starfsemi og fyrirhugað ferli ákvarðanatöku.
  • Veita skal sanngjarna tímafresti til að gefa almenningi kleift að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin.
  • Þátttaka almennings skal hefjast snemma í ákvörðunarferlinu á meðan allir valkostir eru fyrir hendi.
  • Almenningi sem málið varðar skal veita aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta varðandi ákvarðanatökuna.
  • Tryggja skal að við ákvarðanatöku sé tekið eðlilegt tillit til niðurstöðu af þátttöku almennings.
  • Almenningur skal upplýstur um ákvörðun þegar hún liggur fyrir og röksemdir fyrir henni.

Landslagssamningur Evrópu

Samningurinn var gerður á vettvangi Evrópuráðsins árið 2000 en var fullgiltur á Íslandi 1. apríl árið 2020. Markmið samningsins er að efla verndun, nýtingu og áætlanir um landslag, og að skipuleggja evrópska samvinnu um málefni varðandi landslag. Samningurinn gildir um allt yfirráðasvæði aðildarríkja og nær til ósnortins lands, þéttbýlis, dreifbýlis og umhverfis borga. Hann tekur einnig yfir innri og skipgengar vatnaleiðir og sjávarsvæði auk þess sem samningurinn gildir hvort sem landslag kunni að teljast framúrskarandi, hversdagslegt eða niðurnítt.

Í samningnum eru settar fram markvissar ráðstafanir sem aðildarríki eiga að innleiða í löggjöf sinni og í aðgerðum. Eftirfarandi þættir eru tilteknir sem markvissar ráðstafanir:

  • Vitundaraukning þar sem aðildarríki ábyrgjast að auka vitund meðal almennings, í einkarekstri og hjá hinu opinbera um gildi landslags, hvert hlutverk þeirra er og breytingar á því hlutverki.
  • Þjálfun og uppfræðsla sem aðildarríki ábyrgjast að efla s.s. með þjálfun sérfræðinga, gera þverfaglegar þjálfunaráætlanir og stuðla að skóla- og háskólanámskeiðum þar sem fjallað er um verndun, nýtingu og skipulag landslags.
  • Auðkenning og mat byggir á að auðkenna og greina landslag, að meta gildi landslagsgerða í huga almennings og hagsmunaaðila og að gæta þess að aðferðafræði við auðkenningu og mat samræmist aðferðafræði annarra aðildarríkja.
  • Gæðamarkmið um landslag þar sem aðildarríki ábyrgjast að skilgreina gæðamarkmið um landslagsgerðir.
  • Framkvæmd þar sem aðildarríki ábyrgjast að innleiða lög í þeim tilgangi að vernda, nýta og/eða gera áætlanir um landslag.