Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Ágengar framandi lífverur

Ágeng framandi lífvera er framandi lífvera sem veldur eða líklegt er að valdi rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni, sbr. 3. töluliður 5. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ágengar framandi tegundir eru nú taldar vera önnur helsta ástæða hnignunar líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum. Ísland hefur skuldbundið sig með aðild að ýmsum alþjóðasamningum til að vernda upprunalegt lífríki landsins og sporna við innflutningi framandi lífvera sem ógna vistkerfum, vistgerðum og innlendum tegundum. Þeirra á meðal eru samningurinn um líffræðilega fjölbreytni, Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu, Ramsar-samningurinn um votlendi, hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamningur um plöntuvernd. Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt Stefnumörkun Íslands um framkvæmd Samningsins um líffræðilega fjölbreytni, en þar er m.a. fjallað um aðgerðir til að takmarka dreifingu framandi ágengra tegunda. Einnig er í stefnumörkuninni lögð áhersla á mikilvægi þess að auka vægi samningsins um líffræðilega fjölbreytni við endurskoðun laga sem tengjast nýtingu náttúrunnar.  

Samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni skal hver samningsaðili, eftir því sem hægt er og viðeigandi, koma í veg fyrir að fluttar séu inn framandi tegundir sem ógna vistkerfum, vistgerðum eða tegundum eða að öðrum kosti stjórna þeim eða uppræta þær. Á grundvelli samningsins hafa verið gefnar út leiðbeiningarreglur, sem samningsaðilar hafa samþykkt, um ágengar tegundir. Í inngangskafla reglnanna er áréttað að samningsaðilar geri sér grein fyrir að ágengar framandi tegundir séu eitt því sem helst ógni líffræðilegri fjölbreytni, einkum í vistkerfum sem eru landfræðilega og þróunarlega einangruð, og að hættan sem af þeim stafi kunni að aukast vegna aukinnar heimsverslunar, samgangna, ferðamennsku og loftslagsbreytinga. Í leiðbeiningarreglunum er byggt á svokallaðri þriggja stiga nálgun og er hún grundvöllur aðgerða gegn ágengum framandi tegundum. Meginatriði hennar eru í fyrsta lagi að yfirleitt sé mun hagkvæmara og umhverfisvænna að koma í veg fyrir innflutning ágengra framandi tegunda en að ráðast í aðgerðir eftir að slíkar tegundir hafa fest sig í sessi. Í öðru lagi að ef ágeng framandi tegund hefur numið land sé mikilvægt að greina það fljótt og grípa tafarlaust til aðgerða til að hindra að hún festi rætur. Oft sé æskilegt að uppræta viðkomandi tegund eins fljótt og mögulegt er. Í þriðja lagi að ef uppræting er ekki möguleg sé nauðsynlegt að hindra útbreiðslu og skipuleggja aðgerðir til langs tíma til að hemja tegundina og takmarka útbreiðslu hennar. Í reglunum er því lögð áhersla á aðgerðir til að stjórna innflutningi framandi tegunda og koma í veg fyrir óviljandi innflutning sem og aðgerðir til að koma í veg fyrir dreifingu ágengra framandi tegunda.

Komið hefur verið á fót samstarfsverkefni þjóða í Norður-Evrópu (NOBANIS) sem hefur það að markmiði að draga úr eða koma í veg fyrir tjón af völdum ágengra tegunda. Verkefnið tekur til lífvera í sjó, fersku vatni og á landi og miðar að því að þróa og búa til net gagnagrunna með upplýsingum um framandi tegunda og gera þær aðgengilegar á netinu. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið þátt í verkefninu fyrir Íslands hönd. Nánari upplýsingar eru aðgengilegar á vefsíðu NOBANIS og vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.