Lauffellsmýrar

Kynningarfundur

Kynningarfundur um tillögu að framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár fyrir landeigendur Lauffellsmýra fór fram þann 22. janúar 2024. Fundurinn var stafrænn.

Horfa á upptöku frá fundinum

Skoða glærur frá fundinum

Um svæðið

Sveitarfélag: Skaftárhreppur

Möguleg stærð: 55.9 km2

Svæðið er ósnortið mýrarsvæði sem liggur í tæplega 500 m y. s. og lækkar land til suðurs og austurs. Stærstu mýrarflákarnir eru sunnan Hellisár en einnig eru stórar mýrabreiður norðan árinnar að Skaftáreldhrauni. Lauffellsmýrar eru víðáttumestu rimamýrar á Íslandi og er vistgerðin sjaldgæf. Mikið er af hálendistjörnum á svæðinu.

Rimamýrar einkennast af áberandi mynstri langra rima og forblautra flóalægða og tjarna á milli sem liggja þvert á eða lítilsháttar í sveig undan landhalla. Á rimum vex mólendis- og deiglendisgróður en flóagróður í lægðum. Rimamýrar eru fremur frjósamar og fuglalíf þeirra er talið allríkulegt. 

Votlendissvæðið fellur undir ákvæði 61. gr. náttúruverndarlaga um sérstaka vernd.

Staðreyndarsíða Náttúrufræðistofnunar Íslands um Lauffellsmýrar

Tillaga að svæði á framkvæmdaáætlun

Mögulegar verndarráðstafanir

1.  Vegna ríkulegs fuglalífs og líffræðilegs fjölbreytileika svæðisins er möguleg friðlýsing svæðisins sem friðlands skv. 49. gr. náttúruverndarlaga.

Með friðlýsingu sem friðlands er áhersla á vernd lífríkis og tegund lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. Í auglýsingum um friðlýsingu, sem eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda, er m.a. kveðið á um markmið friðlýsingar, umsjón, umferð og umgengni, tilhögun verndar, landnotkun og mannvirkjagerð ofl.

Friðlýsing er unnin í samstarfshópi sem skipaður er fulltrúum frá Umhverfisstofnun, sveitarfélagi, landeigenda og annarra eftir þörfum.

Sambærilegt friðlýst svæði er friðland í Guðlaugstungum.

2.  Vegna nálægðar svæðisins við Vatnajökulsþjóðgarð er jafnframt möguleiki að það falli innan  þjóðgarðsins.

3.  Önnur verndarráðstöfun fyrir svæðið er friðun vistgerðanna skv. 56. gr. náttúruverndarlaga.

Friðun vistgerða felur m.a. í sér sérstaka aðgæsluskyldu, forðast rask, framkvæmdaleyfisskyldu og mótvægisaðgerðir vegna mögulegs rasks. Í auglýsingu um friðun, sem er birt í B-deild Stjórnartíðinda, er kveðið á um umfang friðunar og þær takmarkanir sem af henni leiðir. Sambærileg friðun er til fyrir æðplöntur, mosa og fléttur frá árinu 2021.

Mögulegar takmarkanir/innviðir

Með vernd svæðisins þarf að tryggja að vatnsrennsli á vatnasviði þess haldist óraskað. Þar sem svæðið er nokkuð afskekkt er lítil sem engin umferð um það sem krefst ekki frekari innviða að svo stöddu.

Tilnefnt af Náttúrufræðistofnun Íslands vegna:

  • Rimamýravistar

Rimamýravist

Verndarstaða vistgerðar: Ákjósanleg – góð

Verndargildi vistgerðar: Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar

Víðáttumiklar mýrar til heiða með áberandi mynstri langra þúfnagarða (rima) og forblautra flóalægða á milli sem liggja þvert á eða í lítilsháttar sveig undan landhalla. Pollar og smátjarnir í lægðum. Vatn á að mestu uppruna af hærra landi í kring, sígur fram undan halla, er fremur steinefnaríkt og eru mýrarnar því nokkuð frjósamar. Á rimum vex mó- og deiglendisgróður en flóagróður í lægðum. Land er mjög vel gróið og gróður hávaxinn. Æðplöntuþekja er fremur gisin, mosi mikill í sverði og ríkjandi, einkanlega á rimum, mjög lítið er um fléttur.

Vistgerðin er frekar fátæk af tegundum æðplantna, frekar rík af mosategundum en fléttutegundir eru fáar. Á rimum er allmikil þekja af svarðmosa og hraungambra í þúfum, brúnmosar eru ríkjandi í lægðum. Lífræn jörð er einráð. Jarðvegur er mjög þykkur, frekar ríkur af kolefni og sýrustig fremur lágt. Vistgerðin hefur allríkulegt fuglalíf. Algengustu varpfuglarnir eru spói, lóuþræll, heiðlóa, óðinshani, álft og heiðagæs.

Upplýsingar um rimamýravist á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands