Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Þjóðgarður á Vestfjörðum

 

Umhverfisstofnun, ásamt samstarfshópi sem vinnur að undirbúningi friðlýsingar, leggur hér með fram tillögu að friðlýsingaskilmálum fyrir þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum ásamt tillögu að mörkum svæðisins. Svæðið nær m.a. til Dynjanda, Geirþjófsfjarðar, Vatnsfjarðar, Surtarbrandsgils og Hrafnseyrar. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna var til og með 26. maí 2021.

Í september 2019 færði RARIK íslenska ríkinu jörðina Dynjanda að gjöf. Við undirritun samkomulags vegna gjafarinnar staðfestu stjórnvöld að stefnt væri að frekari friðlýsingu jarðarinnar og vatnasviðs fossins á Dynjandisheiði.

Í byrjun ársins 2020 hófst vinna með Vesturbyggð, Ísafjarðarbæ og Umhverfisstofnun þar sem fyrirhugað var að vinna að mögulegri stækkun á náttúruvættinu Dynjanda og friðlandinu í Vatnsfirði, sem er í landi Brjánslækjar. Fljótlega komu fram hugmyndir um að tengja verndarsvæðin saman í eitt stærra friðlýst svæði vegna náttúru- sögu og menningarverðmæta, sem eru alltumlykjandi á þessu svæði. Í kjölfarið var ákveðið að stofna stærri samstarfshóp og bættust fulltrúar forsætisráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Landgræðslusjóðs í hópinn.

Tillaga að friðlýsingu þjóðgarðsins er hér með kynnt og allar helstu upplýsingar er að finna hér fyrir neðan.