Stórurð og svæði norðan Dyrfjalla

Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Mynd: Hafþór Snjólfur Helgason

Svæði norðan Dyrfjalla var friðlýst sem landslagsverndarsvæði þann 2. júlí 2021 ásamt því sem Stórurð var friðlýst sem náttúruvætti.

Svæðið sem um ræðir er hluti Dyrfjallaeldstöðvarinnar og er staðsett ofan á þykkum basalthraunum. Innan svæðisins er að finna elstu hraun sem fundist hafa á Austfjörðum, um 13,5 milljón ára. Í hömrunum milli Stapavíkur og Selvogsnes er einnig að finna líparít bergganga.

Stórurð er gömul skriða sem féll ofan í Urðardal sem einkennist af stórum björgum og stórgrýti. Innan um stórgrýtið eru litlar tjarnir og sléttir grasbalar. Stórgrýtið er úr móbergi sem á uppruna sinn í megineldstöðinni í Dyrfjöllum. Úr Stórurð er mikilfenglegt útsýni, meðal annars á dyrnar í Dyrfjöllum sem er stórbrotin sjón.



Nokkrar vistgerðir eru á svæðinu sem hafa hátt verndargildi og flokkast sem forgangsvistgerðir. Má þar nefna runnamýravist, starungsmýrarvist, gulstararflóavist, kjarrskógavist, lyngskógavist, kransþörungavötn og hrúðurkarlafjörur.

Héraðssandur er innan þess svæðis á úthéraði sem skilgreint er sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Landslagsverndarsvæðið nær yfir hluta þess svæðis við ósa Selfljóts og tjarnir Ósbakka en talið er að um 40 tegundir fugla verpi þar.

Ýmsan sérstakan gróður er að finna á svæðinu, til að mynda mosann dökklepp sem er sjaldgæf tegund, fléttuna geislabikar sem er válistategund og lyngbúa, súrsmæru og línarfa sem allar eru friðaðar og á válista.

Út af Unaósi eru tvö selalátur þar sem fjöldi sela hefur farið vaxandi á undanförnum árum.

Helsta landnýting innan friðlýsta svæðisins er landbúnaður, skot- og stangveiði, útivist, ferðaþjónusta auk þess sem þar er frístundabyggð.

 

Kort af svæðinu
Auglýsing um landslagsverndarsvæði norðan Dyrfjalla og náttúruvættið Stórurð
Stórurð - greinargerð
Umsögn að loknum áformum, Hrafnabjörg, Heyskálar og Unaós
Hnitaskrá fyrir landslagsverndarsvæði
Hnitaskrá fyrir náttúruvætti
Hnitaskrá fyrir svæði á Hrafnabjörgum