Dimmuborgir

Dimmuborgir eru friðlýstar vegna sérstakra hraunmyndana og landslags.

Svipaðar hraunmyndanir og Dimmuborgir hafa hvergi fundist utan Mývatnssveitar nema á hafsbotni undan ströndum Mexíkó. Nokkuð er um svipaðar hraunmyndanir í Mývatnssveit og eru hraundrangarnir við Höfða (Klasar og Kálfastrandarstrípar) þekktastar þeirra

Markmiðið með friðlýsingu Dimmuborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslu- og útivistargildis, en svæðið í heild sinni hefur um langan tíma verið afar vinsæll útivistarstaður heimamanna og viðkomustaður ferðamanna sem um Mývatnssveit fara.

Skoða þrívíddarkort af svæðinu.

Hvar er náttúruvættið?

Dimmuborgir eru í Mývatnssveit á Norðausturlandi. Þær eru rúmlega kílómeter austan við bæina að Geiteyjarströnd. Náttúruvættið er rúmlega 423 hektarar að stærð.

Hvað er áhugavert?

Dimmuborgir eru afar sérstæðar hraunmyndanir, þær eru minjar tæmdrar hrauntjarnar sem myndaðist fyrir um 2300 árum þegar hraun rann frá Lúdentar- og Þrengslaborgum yfir Mývatn og í sjó fram í Aðaldal. Þar sem Dimmuborgir mynduðust hefur fyrirstaða í hrauninu valdið því að hraunbráð safnaðist fyrir undir storkinni hraunskán og myndaði hringlaga gúl eða hrauntjörn, um 2 km í þvermál og um 20 m á hæð. Hraunbráðin hefur síðan fengið framrás til vesturs í átt að Mývatni, en eftir standa hraundrangar sem taka á sig ótrúlegustu kynjamyndir. Talið er að drangarnir hafi myndast í hrauntjörninni þar sem gufa hefur leitað upp í gegnum bráðið hraunið og kælt það. Víða sjást merki þess að hálfstorknuð yfirborðshella tjarnarinnar hefur smurt hraunbráð utan á drangana þegar hún hefur sigið er tjörnin tæmdist.

Dimmuborgir hafa verið i umsjón Landgræðslu ríkisins síðan 1942 en þá gáfu landeigendur í Geiteyjarströnd og Kálfaströnd Sandgræðslu ríkisins (nú Landgræðslu ríkisins) landið því þeir sáu ekki fram á að geta varið svæðið fyrir ágangi sands sem leitaði inn í borgirnar og kaffærði. Landgræðsla ríkisins hefur unnið metnaðarfullt árangursríkt starf í landgræðslu á svæðinu. Einnig hefur Landgræðsla ríkisins staðið fyrir uppbyggingu svæðisins sem áfangastaðar fyrir ferðamenn í samstarfi við Umhverfisstofnun.

Á jólaföstunni er oft mikið um að vera í Dimmuborgum því Jólasveinarnir í Dimmuborgum eru þar á stjá.

Skoða fræðsludagskrá landvarða á Norðurlandi eystra sumarið 2022

Aðgengi

Malbikaður vegur liggur að Dimmuborgum frá Geiteyjarströnd.

Snjór, hálka og krapatjarnir geta takmarkað og jafnvel hindrað að hægt sé að ganga um Dimmuborgir.

Við bílaplanið við Dimmuborgir er þjónustuhús með salernisaðstöðu, veitinga og minjagripaverslun.

  • Dimmuborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti sumarið 2011
  • Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu sem og spilla gróðri eða trufla dýr af ásetningi innan marka náttúruvættisins.
  • Fylgja ber merktum stígum um samræmi við fyrirmæli umsjónaraðila.
  • Óheimilt er að hafa næturstað sem og urða eða henda rusli innan náttúruvættisins.
  • Óheimilt er að hafa hunda í náttúruvættinu nema með sérstöku leyfi umsjónaraðila.