Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Skútustaðagígar

Sjá þrívíddarkort af svæðinu.

Skútustaðagígar voru friðlýstir árið 1973. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda útlit gíganna og gera þá aðgengilega sem og að standa vörð um nýtingarrétt landeigenda.

Hvað er verið að vernda?

Gervigígar eru jarðmyndanir sem eru fágætar á landsvísu sem og á heimsvísu. Gervigígar eru sjaldgæfar hraunmyndanir sem myndast við gufusprengingar þar sem þunnfljótandi hraun rennur út yfir vötn og mýrar (eða út í sjó á Hawaii). Gervigígarnir á Íslandi tengjast flestir stórum flæðigosum (Laxárhraun yngra, Þjórsárhraun, Eldgjárhraun, Leitahraun). Gígarnir eru meðal merkustu náttúruminja Íslands og við Mývatn eru þeir sérlega formfagrir og mynda umgjörð vatnsins. Gervigígar eru viðkvæmir fyrir ágangi og þarf hvarvetna að gera sérstakar ráðstafanir til að varðveita þá þar sem einhver umferð er.

Hvar eru Skútustaðagígar?

Skútustaðagígar eru við Skútustaði við suðurströnd Mývatns sem er á norðausturlandi. Friðlýsta svæðið er tæpir 70 ha. að stærð.

Hvað er áhugavert við Skútustaðagíga?

Gervigígarnir hafa valdið jarðfræðingum meiri heilabrotum en flest annað í Mývatnssveit og hafa sprottið upp margar og mismunandi skýringar á tilurð þeirra. Þorvaldur Thoroddsen virðist hafa verið mjög nálægt því að skilja hið rétta eðli þeirra, en Sigurður Þórarinsson varð fyrstur manna til að gera rækilega grein fyrir eðli þeirra, þótt skýring á myndun þeirra hafi verið komin fram fyrr. Gervigíganafnið (e: pseudocrater) kemur frá Sigurði Þórarinssyni og hefur fest rætur hér á landi. Svipuð gos verða á Hawaii þar sem hraun rennur út í sjó. Þar nefnast gígarnir littoral cones eða strandgígar. Svo virðist sem gervigígar þekkist ekki annars staðar á jörðinni en á Íslandi og Hawaii. Nýlegar myndir frá reikistjörnunni Mars sýna gígaþyrpingar sem líkjast gervigígum og er talið að gígarnir hafi myndast við að hraun hafi runnið yfir sífrera.

Náttúruvættið hentar ágætlega til fuglaskoðunar. Algengt er að sjá eftirfarandi fugla á svæðinu: Himbrima, flórgoða, skúfönd, duggönd, stokkönd, rauðhöfðaönd, gargönd, stelk, óðinshana og kríu. Einnig er algengt að sjá hornsíli í Skipalæknum.

Mikill tegundafjöldi plantna er á svæðinu meðal annars vegna fjölbreyttra búsvæða innan náttúruvættisins.

Aðgengi

Tvær merktar gönguleiðir eru í Skútustaðagígum. Önnur er lítill hringur sem nær frá bílaplaninu við Gíg, gestastofu að bílaplaninu við Sel hótel Mývatn og er um 1,5 km að lengd. Önnur gönguleið nær frá bílaplaninu við Sel hótel Mývatn hringinn í kringum Stakhólstjörn. Gönguleiðin er um 3 kílómetrar. Við Sel Hótel Mývatn er minjagripaverslun, veitingasala, hótel og salernisaðstaða.

Hvenær er besti tíminn til að heimsækja svæðið?

Gangandi er best er að heimsækja svæðið á sumrin og haustin. Ef áhugi er á að skoða fugla er best að koma að vori til. Á veturna er getur verið erfitt að fara um svæðið gangandi vegna snjóa og hálku sem gerir svæðið ákjósanlegt til gönguskíðaiðkunar. Oft er ágætis ís á Stakhólstjörninni til að renna sér á skautum.

Hömlur, lokunarákvæði, reglur friðlýsingar sem eiga við.

Gangandi fólki er heimil för um svæðið utan ræktaðs lands eftir merktum stígum, en öllum er skylt að ganga vel um og snyrtilega. Bannað er að tjalda á eða í gígunum.

Hvernig kemstu á svæðið?

Hægt er að keyra að svæðinu eftir þjóðvegi 848 Mývatnsvegi. Bílastæði er við Sel hótel Mývatn og Gíg, gestastofu.

Hvernig þarftu að vera útbúinn?

Göngustígarnir eru auðveldir yfirferðar. Fara þarf upp tröppur til að fara upp á 3 af gígunum. Mögulegt er að fara um styttri gönguleiðina á hjólastól/ með barnavagn. Engar stórar hindranir en ávalar brekkur eru á gönguleiðinni í kringum Stakhólstjörn og ættu nánast allir sem treysta sér til að ganga 3 km að vera færir um að ganga leiðina.