Um svæðið

 

Frá 20. júní til 15. september frá kl. 8 - 15 þarf að bóka bílastæði í Landmannalaugum / Mynd: Canva

 

Landmannalaugar eru umvafnar miklum og litríkum fjallasal og fjölmargar gönguleiðir hefjast við skálasvæðið þar sem flest ættu að geta fundið leið við sitt hæfi. Einnig er þetta upphafsstaður Laugavegsins, sem er sennilega þekktasta gönguleið landsins.

Aðkoma er að Landmannalaugum um Fjallabaksleið Nyrðri (F208), en síðustu 2,5 km er ekið eftir Landmannalaugavegi (F224). Leiðin er öll fær fjórhjóladrifnum bílum, en rétt áður en komið er til Landmannalauga þarf að fara yfir tvö vöð. Hægt er að leggja á P1 (við Námskvísl) án þess að fara yfir vöðin og er mælt með því fyrir smærri jeppa og/eða óreynda ökumenn og fara þá yfir göngubrú. Skoðið ávallt færð á vegum áður en ekið er á hálendið.

Í Landmannalaugum er boðið upp á skálagistingu og tjaldsvæði sem rekið er af Ferðafélagi Íslands, sem jafnframt sér um rekstur salerna og sturtuklefa. Skálaverðir veita nánari upplýsingar á staðnum og hjá þeim er hægt að greiða fyrir gistingu og kaupa gönguleiðabækling um friðland að Fjallabaki. 

Landverðir Umhverfisstofnunar eru með daglega upplýsingagjöf í Landmannalaugum. 

 

Frá 20. júní til 15. september frá kl. 8 - 15 þarf að bóka bílastæði í Landmannalaugum / Mynd: Canva
Skála- og tjaldsvæðið í Landmannalaugum.