Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Almennt um svæði

Kerlingarfjöll eru mikill fjallabálkur á miðhálendi Íslands, rétt sunnan Hofsjökuls. Svæðið allt var friðlýst sem landslagsverndarsvæði sumarið 2020. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðminjar, landslag, óbyggðir og ásýnd svæðisins, auk þess sem henni er ætlað að efla Kerlingarfjöll sem útivistarsvæði og stuðla að góðri umgengni og bættu aðgengi að svæðinu. Kerlingarfjöll hafa um árabil verið eitt vinsælasta útivistarsvæðið á miðhálendi Íslands. 

Fjöllin standa hátt upp úr annars nokkuð sléttum og víðáttumiklum Hrunamannaafrétti og setja mikinn svip á landið þegar ekið er yfir Kjöl. Öræfin í kringum fjöllin eru almennt í 600-700 metra hæð yfir sjávarmáli á meðan hæstu tindar Kerlingarfjalla rísa snarbrattir upp í yfir 1400 metra hæð. Hæstur er Snækollur, 1488 metra hár. Fjallaklasinn í heild nær yfir um 140 ferkílómetra, en verndarsvæðið er 367 ferkílómetrar. Árnar Ásgarðsá og Kisa renna frá fjöllunum og skipta þeim upp í tvo hluta, Austur- og Vesturfjöll. Hæstu fjöllin á svæðinu eru í Austurfjöllum – Snækollur (1488 m), Fannborg (1458 m) og Loðmundur (1429 m). Vesturfjöll eru ívið lægri, en til þeirra teljast m.a. Höttur (1312 m), Mænir (1357 m) og Ögmundur (1357 m) 

Svæðið ber öll einkenni megineldsstöðvar sem er svo til óröskuð og hefur hátt verndargildi. Innan Kerlingarfjalla er að finna næststærsta líparítsvæði landsins. Allt líparítið hefur myndast við gos í jökli og sum fjallana eru líparítstapar, sem þykja sérlega fágæt jarðmyndun á heimsvísu. Líparítmyndanirnar í fjöllunum eru heildstæðar, fágætar á heimsvísu, eru óraskaðar og teljast hafa mjög hátt verndargildi sökum þess.  

Í Kerlingarfjöllum er að finna eitt fjölbreyttasta hverasvæði landsins. Finna má þrjú öflug hverasvæði - Neðri Hveradali, Efri-Hveradali og HverabotnaHveravirknin í Kerlingarfjöllum telst mjög mikil og fágætt er að finna jafn mikinn þéttleika af laugum, hverum og gufuaugum. Í heildina ná jarðhitasvæði Kerlingarfjalla yfir 7 ferkílómetra á yfirborðinu. Háhitasvæðin hafa mjög hátt verndargildi sökum fágætis, vísinda- og fræðslugildis.