Skógafoss

Sjá þrívíddarkort af svæðinu.

Skógafoss var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1987. Þessi svipmikli, 60 metra hái foss er neðsti fossinn í fegurri fossaröð Skógaár. Hið friðlýsta svæði við Skógaá takmarkast af hringveginum í suðri og nær um 7 km í norður upp á Skógaheiði, en mörkin fylgja ánni 100 metra sitthvoru megin frá miðju hennar. Er því öll fossaröðin í Skógaá upp að göngubrúnni á leiðinni upp á Fimmvörðuháls friðlýst. Nafnkunnir fossar í þessari röð, auk Skógafossar, eru m.a. Hestavaðsfoss, Fosstorfufoss og Skálabrekkufoss. Heildarflatarmál hins friðlýsta svæðis er 1,65 ferkílómeter.