Kortlagning og eftirlit

Loftmyndir hafa verið teknar reglulega af Surtsey síðan febrúar 1964 og hefur Surtseyjarfélagið séð um að það sé gert. Í byrjun voru það Landmælingar Íslands sem sáu um loftmyndatökurnar en á síðustu árum hafa Loftmyndir ehf. tekið loftmyndir af Surtsey. Reglubundnar loftmyndatökur gefa mikilvægar upplýsingar um vöxt og rof eyjarinnar.

Náttúrufræðistofnun Íslands og Landmælingar Íslands gáfu út árið 2000 jarðfræðikort af Surtsey í mælikvarða 1:5000. Höfundur jarðfræðikortsins er Sveinn P. Jakobsson jarðfræðingur. Endurskoðuð útgáfa af jarðfræðikortinu fylgdi með tilnefningaskýrslu Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO árið 2007 sem Náttúrufræðistofnun Íslands sá um að gera.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands eru til stafræn landupplýsingagögn af Surtsey frá mismunandi árum.

Sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands, áður Sjómælingar Íslands, hefur séð um sjómælingar og kotlagningu hafsbotnsins í kringum Surtsey frá upphafi. Sumarið 2007 sá sjómælingasvið um að kortleggja hafsbotninn með fjölgeislamælum.

Umsjón

Umhverfisstofnun fer með umsjón friðlandsins og frá maí 2008 hefur hún rekið starfsstöð í Vestmannaeyjum. Starfsmaður Umhverfisstofnunar í Vestmannaeyjum og sérfræðingur friðlandsins Surtsey er Magnús Freyr Sigurkarlsson, jarðfræðingur.

Umhverfisstofnun hefur til ráðgjafar um málefni friðlandsins sex manna ráðgjafarnefnd sem skipuð er til fjögurra ára í senn. Fulltrúi Umhverfisstofnunar er jafnframt formaður nefndarinnar.

Ráðgjafarnefnd um málefni friðlandsins var skipuð eftirfarandi fulltrúum í júní 2024:

  • Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, Umhverfisstofnun
  • Ólafur Einar Lárusson, Vestmanneyjarbær
  • Halla Svavarsdóttir, Vestmannaeyjabær
  • Lilja Gunnarsdóttir, Hafrannsóknarstofnun
  • Svanhildur Egilsdóttir, Hafrannsóknarstofnun
  • Lovísa Guðrún Ásbjörnsdóttir, Surtseyjarfélagið
  • Olga Kolbrún Vilmundardóttir, Náttúrufræðistofnun