Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Fuglalíf

Heiðagæs - anser brachyrhynchus. Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjórsárver eru skilgreind sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði. Verin voru lengi mesta varpland heiðagæsar í veröldinni og fræðimenn hafa verið þeirrar skoðunar um langa hríð að hann skipti sköpum um afkomu þessa stofns á Íslandi og Grænlandi. Margir aðrir fuglar verpa innan friðlandsins, meðal annars rjúpa, heiðlóa, sandlóa, óðinshani, lóuþræll, sendlingur, snjótittlingur, kjói og kría. Af andategundum eru hávella og straumönd mest áberandi, en annars eru fremur fáar andategundir í verunum. Himbrimi verpir á afmörkuðu svæði og álftin, sem var fyrrum algeng, sést mun sjaldnar en áður. Af ránfuglum má stundum sjá fálka, ásamt því sem snæugla á það til að svífa yfir verin í ætisleit. Í heildina hafa 46 fuglategundir sést í verunum.

Heiðagæsinni í verunum hefur fækkað á síðustu áratugum og hafa Guðlaugstungur tekið við sem mesta vaprland tegundarinnar. Var áður talið að um 70% allra heiðagæsa í heiminum yrpi í Þjórsárverum, en sú tala er nú komin niður í 10-15%. Mikilvægi Þjórsárvera fyrir heiðagæsina þykir hinsvegar áfram ótvírætt sem beitiland og hvíldarstaður.