Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Saga og nýting

Nýting Þjórsárvera

Heiðgæsin var nýtt öldum saman í Þjórsárverum, að líkindum fram á 18. öld. Þegar gæsin var í sárum var henni smalað og hún rekin í réttir. Enn má sjá rústir gæsarétta, en slík mannvirki þekkjast ekki annars staðar á landinu. Ekki hefur alltaf verið auðvelt að smala gæsunum saman í votlendinu, en það hefur þó hjálpað til að fuglinn er mjög hjarðsækinn og safnast í flokka. Fyrrum voru álftir einnig teknar í sárum í Þjórsárverum og þeim slátrað.

Vitað er að um aldir hefur sauðfé sótt í beit í Þjórsárverum, en hrossum var aldrei haldið til beitar hér og það hefur sett svip sinn á gróðurfarið. Sauðfé sækir enn hingað, en þar eð sauðfjárhald hefur dregist mjög saman á síðustu árum hefur sauðkindum fækkað hér að sama skapi og trúlega hafa þær nánast engin áhrif á gróðurfar veranna lengur. Fyrrum voru fjallagrös tínd norðan undir Arnarfelli þar sem þótti gott grasaland.

Útilegumenn í Þjórsárverum

Fyrrum lágu þjóðleið milli Suður- og Norðurlands um Sprengisand. Þrjár leiðir lágu um Þjórsárver og réðst það af vöðum yfir Þjórsá hvar þær lágu. Víða má enn sjá móta fyrir þessum fornu reiðgötum. Fjalla-Eyvindur (Eyvindur Jónsson, fæddur 1714) og fylgikona hans, Halla Jónsdóttir, lifðu í útlegð um að minnsta kosti fimmtán ára skeið og héldu þá til á ýmsum óbyggðum svæðum á landinu. Margar frásagnir eru til um felustaði þeirra á hálendinu sem voru að líkindum meðal annars í Herðubreiðarlindum, Hvannalindum, á Hveravöllum og í Þjórsárverum. Hjúin héldu líklega til í Þjórsárverum í nokkur ár fram til 1772. Talið er að þau hafi byggt fleiri en einn íverustað í verunum og sagt er að Eyvindur hafi lýst því yfir að hvergi hafi hann unað hag sínum betur en þar. Eyvindur var einkar hagur maður og nýtti öll gæði náttúrunnar sem völ var á sem frekast hann mátti.

Það er ótrúlegt að Eyvindur og Halla hafi getað þraukað veturna og lifað af fimbulfrost og illviðri á svæði þar sem engin dýr var að finna. Þau urðu því að viða að sér vetrarforða og fólk úr nágranna­byggðum fann einhverju sinni 75 sauðahausa við kofa Eyvindar í grennd við Arnarfell. Þar fundust einnig mannlausar tjaldbúðir og híbýli árið 1762 sem talið er að hafi verið íverustaður þeirra hjúa. 10 árum síðar voru þau svo handtekin við Innra-Hreysi, austan við Þjórsá.