Bessastaðanes

Mynd: Þórdís Björt SigþórsdóttirMyndir á síðu: Þórdís Björt Sigþórsdóttir

Þann 30. júní 2023 undirritaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, auglýsingu um friðlýsingu Bessastaðaness sbr. 49. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og náttúruverndaráætlun 2004-2008.

Bessastaðanes er hluti af alþjóðlega mikilvægu fuglasvæði Skerjafjarðar. Fuglalíf er fjölbreytt allt árið og svæðið er mikilvægur viðkomustaður farfugla og sjaldgæfra fuglategunda. Á svæðinu eru jafnframt fjölbreyttar fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki sem eru mikilvæg fæðusvæði fugla. Í Lambhúsatjörn er m.a. vistgerðin marhálmsgræður sem einkennist af fínkornóttu seti með beðum af marhálmi sem hefur takmarkaða útbreiðslu og er mikilvæg fæða fyrir ýmsar andfuglategundir s.s. margæsir. Á Bessastaðanesi eru tún og akurlendi en einnig votlendi. Verndargildi vistgerðanna á svæðinu er frá því að vera miðlungs hátt og upp í mjög hátt og eru votlendisvistgerðirnar starungsmýravist, gulstaraflóavist og marhálmsgræður á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem þarfnast verndar. 

Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og menningarminja en þar er fjöldi menningarminja.  

Á Bessastaðanesi er þjóðhöfðingjasetur.

Markmið friðlýsingarinnar 

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda og varðveita til framtíðar náttúrulegt ástand svæðisins sem búsvæði fugla og mikilvægt viðkomusvæði farfugla. Markmiðið er einnig að vernda líffræðilega fjölbreytni svæðisins, lífríki í fjöru, grunnsævi, hafsbotni og vatnsbol, einkum með tilliti til fugla. Jafnframt er markmiðið að vernda fræðslu- og útivistargildi svæðisins sem felst m.a. í líffræðilegri fjölbreytni, auðugu lífríki, tækifærum til útivistar innan þéttbýlis og nýtingar sem samrýmist verndun búsvæða fugla.
Svæðið er 4,45km2 að stærð.

Friðlýsing
Kort

 

 

 

Mynd: Þórdís Björt Sigþórsdóttir