Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Gálgahraun, Garðabæ

Markmiðið með friðlýsingu Gálgahrauns er að vernda nyrsta hluta Búrfellshrauns, þann hluta hraunsins sem runnið hefur í sjó fram, bæði vegna jarðmyndana og lífríkis. Markmið friðlýsingarinnar er jafn­framt að varðveita Gálgahraun sem vettvang náttúruskoðunar og fræðslu um ókomna tíð.

Gálgahraun, Garðabæ, friðlýst sem friðland í stjórnartíðindum B.nr. 877/2009.

Stærð friðlandsins er 108, 2 ha.

Verndargildi svæðisins byggir m.a. á því að verndarsvæðið í Gálgahrauni er á þessu svæði að mestu ósnortið. Þar sem hraunjaðarinn nær í sjó fram hefur rofmáttur úthafsöldunnar verið lítill í innvíkunum Arnarnesvogi og Lambhúsatjörn og er hraunið því að mestu eins og þegar það rann. Forsendur frið­lýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, en í hrauninu er m.a. forn gata, Fógetagata og forn aftökustaður, Gálgaklettur, sem hraunið dregur nafn sitt af.

Við ákvörðun um friðlýsinguna var höfð hliðsjón af samningnum um vernd villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu (Bern 1979) sbr. Stjórnartíðindi C 17/1993, samningnum um líffræðilega fjölbreytni (Ríó de Janeró 1992) sbr. Stjórnartíðindi C 3/1995 og samþykkt um votlendi sem hafa alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf (Ramsar 1971) sbr. Stjórnartíðindi C 1/1978.