Laugarás, Reykjavík

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982. Á svæðinu eru jarðminjar í formi jökulsrispaðs bergs og einnig má sjá ummerki um sjávarstöðu við lok ísaldar.

Náttúruvætti eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Markmiðið með friðlýsingu Laugaráss er verndun fágætra jarðminja svæðisins og vilji til að halda opnu svæði þar sem unnt væri að skoða þær merku jarðminjar sem eru á svæðinu.

Jarðminjar

Jarðminjar í Laugarási eru að mestu afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára gömul og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir í stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás þá einn af fáum stöðum sem ekki var neðansjávar, en sjávarstaðan þá var um 45 metrum hærri en hún er nú. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti svæðisins sem er sjávarbarið.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar.

Gróður og dýralíf

Friðlýsing Laugaráss er ekki bara mikilvæg til verndar jarðminjum, heldur einnig vegna verndunar upprunalegs holtagróðurs í miðju þéttbýli þar sem upprunalegar, einkennandi tegundir eru ríkjandi og mynda sérstök samfélög sem eru nokkuð tegunda auðug. Áður fyrr var þessi holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs sem herjar á. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju. Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri.

Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi. 

Náttúruvættið er 1,5 hektarar að stærð.

Gagnlegar upplýsingar

Náttúruvættið Laugarás er staðsett efst áLaugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík. Svæðið liggur að Vesturbrún í vestri og að mótum Austurbrúnar, Dyngjuvegar og Vesturbrúnar í suðri. Í norðri og austri liggur svæðið að íbúðalóðum við Austurbrún og Vesturbrún og er því staðsett í miðri íbúabyggð. Svæðið umlykur hæstapunkt Laugaráshæðar sem er nær 50 m.y.s. og eru jarðminjarnar í og við þann punkt.

Bílastæði er við jaðar svæðisins að sunnanverðu í Vesturbrún. Ekki er aðstaða til að geyma hjól á svæðinu. Göngustígur liggur frá bílastæðinu upp að hæsta punkti svæðisins. Við göngustíginn er fræðsluskilti. Töluvert margir aðrir stígar, misgreinilegir, hafa myndast á svæðinu, en um er að ræða troðninga en ekki eiginlega stíga. Flestir stígarnir liggja að hæsta punkti svæðisins, en þar er að finna steypustöpul sem skilgreinir mælingapunkt frá Landmælingum Íslands.

Frá hæsta punkti svæðisins er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla.

Umgengnisreglur

  • Óheimilt er að raska landi á friðlýsta svæðinu eða skerða jarðmyndanir á nokkurn hátt.
  • Gangandi vegfarendum er heimil umferð um svæðið, enda sé góðrar umgengni gætt.
  • Losun jarðefna, rusls og sorps er óheimil.

Rekstur og stjórnun

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982 með auglýsingu nr. 41/1982 í Stjórnartíðindum B. Svæðið er í umsjón Reykjavíkurborgar samkvæmt umsjónarsamningi sem gerður var í júní 2015. Samhliða undirritun umsjónarsamnings var samþykkt verndar- og stjórnunaráætlun fyrir svæðið sem gildir til ársins 2024.

Laugarás er á appelsínugulum lista yfir svæði í hættu.

Styrkleikar

Verndargildi svæðisins er jökulrispað berg og er svæðið dæmi um ísaldarminjar. Sumarið 2012 fékk Umhverfisstofnun til liðs við sig sérfræðinga frá Háskóla Íslands til að taka út svæðið. Merkt voru inn þau svæði sem æskilegt er að hreinsa gróður af til að varðveita verndargildi svæðisins. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar, í samvinnu við Reykjavíkurborg, hafa afmarkað göngustíga og unnið að grisjun góðurs árin 2013 og 2014. Í skýrslu náttúruverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram að borgin hafi framkvæmt ítarlega úttekt á ástandi svæðisins og metið verndargildi þess sumarið 2013. Reykjavíkurborg setti upp nýtt fræðsluskilti í byrjun árs 2014.

Veikleikar

Svæðið er á fjölförnum stað í miðju íbúðahverfi. Engir eiginlegir innviðir, svo sem göngustígar, eru innan friðlandsins en þó hafa orðið til stígar um svæðið sem ekki eru þó skipulagðir m.t.t. þeirra minja sem er að finna á svæðinu.

Ógnir

  • Lúpína og annar garðagróður hefur að mestu leyti kæft þær jökulmyndanir sem er að finna innan hins friðlýsta svæðis. 
  • Svæðið er fjölsótt og sífellt þarf að huga að umgengni. 

Tækifæri 

  • Vinna er hafin að gerð verndaráætlunar. 
  • Vinna þarf áfram að upprætingu framandi tegunda og ná fram þeim jökulminjum sem gera svæðið sérstakt. 
  • Viðhalda þarf göngustígum.