Aðgengi

Sjóleiðis

Algengasta aðkomuleiðin á Hornstrandir er af sjó. Boðið er upp á áætlunarferðir frá Ísafirði, Bolungarvík og Norðurfirði á Ströndum inn í friðlandið. Einnig er hægt að koma landleiðina og ganga þá frá Ófeigsfirði á Ströndum annarsvegar eða frá Dalbæ á Snæfjallaströnd. 

Flugtakssvæði

Samkvæmt aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar eru tvö óskráð lendingar- og flugtakssvæði án nokkurs búnaðar, á Látrum í Aðalvík og í Fljótavík. Óheimilt er að lenda þyrlum innan friðlandsins.

Tilkynningaskylda

Á þeim tíma þegar gróður, lífríki og gönguslóðar eru viðkvæmir þarf að tilkynna Umhverfisstofnun rafrænt um allar ferðir í friðlandið, eða frá tímabilinu 1. mars til 15. júní og frá 1. september til 1. nóvember ár hvert. Þessi tilkynningarskylda tekur þó ekki til ferða hús- og landeigenda.

Gönguleiðir

Helstu gönguleiðir á Hornströndum eru varðaðar en gestum getur auðveldlega  yfirsést vörður á ókunnum slóðum  og því er brýnt að hafa meðferðis gott kort og áttavita, eða GPS tæki til rötunar.

Þokusælt er á svæðinu og stundum vandratað. Ár geta verið erfiðar yfirferðar í miklum vatnaveðrum og talsverður snjór er á hálendi svæðisins allt árið um kring. Skaflar geta verið brattir og þá ekki síst snemmsumars. Það er mikilvægt að gæta ávallt varúðar, ekki síst ef skyggni er slæmt.

Skoða kort af gönguleiðum

Búnaður og ferðaáætlun

Áður en lagt er af stað í gönguferð á Hornstrandir er mikilvægt að undirbúa sig vel. Nauðsynlegt er að taka með sér góð kort og kynna sér leiðarlýsingar sem hafa verið gefnar út, skoða veðurspár og skilja eftir ferðaáætlun. Ferðaáætlun er hægt að skila inn á Safetravel – www.safetravel.is

Veður geta verið margbreytilegt á svæðinu og veðurskipti tíð. Nálægð við opið úthaf hefur mikil áhrif og þoka og kuldi getur lagst fyrirvaralaust yfir. Ávalt skal reikna með tíðum og snöggum veðrabreytingum yfir daginn og skal miða skjólfatnað og útbúnað við það.

Ferðamenn verða að hafa með sér tjöld og góðan klæðnað, vatnsheldur fatnaður er mjög mikilvægur. Allan mat þarf að taka með sér. Gera þarf ráð fyrir að ferðaáætlun standist ekki og menn tefjist, því skal pakka með aukamáltíð. 

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá Umhverfisstofnun og Upplýsingamiðstöð ferðamála á Ísafirði og á Hólmavík.

Tjaldstaðir

Aðeins er heimilt að tjalda á skilgreindum tjaldsvæðum innan friðlandsins. Á Hornströndum eru fjórtán tjaldstaðir á vegum Umhverfisstofnunar og tveir að auki einkareknir þar sem heimilt er að talda. Við tjaldstaðina eru ýmist þurrsalerni eða vatnssalerni.

Landeigendum er heimilt að leyfa tjöldun á sínu landi og sjá þá gestum sínum fyrir hreinlætisaðstöðu.

Vegna gróðurverndar er aðeins heimilt að hafa tjald innan tiltekins tjaldstaðar í eina viku í senn, að þeim tíma liðnum er gestum skylt að færa tjaldið innan tjaldstaðarins eða taka það niður.

Umhverfisstofnun er með aðstöðu fyrir landverði sína á tjaldstöðunum í Höfn í Hornvík og á Hesteyri og þeir eru gestum svæðisins þar til upplýsingagjafar.

Önnur þjónusta

Á Hesteyri er rekin ferðaþjónustua í Læknishúsinu öll sumur, þar er hægt að kaupa bæði gistingu og veitingar.

Í Hornbjargsvita er Ferðafélag Íslands með rekstur frá lokum júní og fram í ágúst

Umgengisreglur

  • Skildu ekki eftir nein ummerki um heimsókn þína. Það felur í sér að taka þarf allt rusl með sér til baka. Ekki byggja vörður, endurraða steinum eða á nokkurn máta skilja eftir ummerki. Skildu við svæðið í sama ásigkomulagi og það var í þegar þú komst. Ekki taka með þér steina, bein, rekavið eða annað sem kann að verða á vegi þínum.
  • Notum göngustígana, alltaf þegar það er mögulegt. Ef nauðsynlegt reynist að fara út fyrir stíg, verum vakandi fyrir því hvar við stígum niður og reynum að vernda gróðurinn á svæðinu. Notumst eingöngu við göngustafi þegar það er nauðsynlegt.
  • Takmörk eru sett á stærðir gönguhópa sem ferðast um friðlandið, þannig að hópar á vestari hluta svæðisins séu ekki fjölmennari en 30 og á austari hluta svæðisins eigi fleiri en 15.
  • Tjöldum eingöngu á skilgreindum tjaldsvæðum. Öll tjaldsvæði hafa salerni/kamar í næsta nágrenni. Vegna gróðurverndar er aðeins heimilt að hafa tjald innan tiltekins tjaldstaðar í eina viku í senn, þá þarf að færa tjaldið innan tjaldstaðarins eða taka það niður. 
  • Gestir innan svæðisins eru hvattir til að notast við kamra/salerni sem eru á svæðinu alltaf þegar það reynist mögulegt. Ekki má skilja eftir hreinlætisvörur í náttúrunni. 
  • Förum varlega með prímusa og önnur eldunaráhöld. Varðeldar eru bannaðir innan friðlandsins
  • Ónáðið ekki fugla og dýr að óþörfu.  Ef þú ert staddur/stödd nálægt dýrum eða fuglum á hreiðri, reyndu að halda hávaða í lágmarki. 
  • Virðum refinn. Höldum okkur í 40 metra fjarlægð frá refagrenjum og reynum að stoppa ekki hjá greninu lengur en í 20 mínútur. Ef nauðsyn reynist að ganga fram hjá refagreni, göngum þá rösklega og hljóðlega og stoppum ekki fyrr en við erum komin í 40 metra fjarlægð. Forðumst að verða á milli tófu og yrðlinga. Gefum refnum ekki að borða.
  • Virðum einkalíf húseigenda á svæðinu. Höldum okkur í fjarlægð frá húsum. Gægjumst ekki á glugga og förum ekki óboðin inn í hús.
  • Hundar eru ekki leyfir á svæðinu, nema hvað land- og húseigendum er heimilt að vera með sína hunda. Hundar skulu ávallt vera í taumi.
  • Hjólreiðar eru ekki heimilar innan friðlandsins.