Jarðfræði

Mývatn er á flekamótum jarð-skorpufleka, Norður-Ameríku og Evrasíu. Þá rekur í sundur um 2 sm á ári en á samskeytunum kemur upp hraunkvika sem fyllir í skarðið og er eldvirkni þarna mikil.

Hverfjall (Hverfell)

Hverfjall (Hverfell) er formfagur gjóskugígur sem gaus fyrir rúmlega 2500 árum. Gígskálin er um 1 km í þvermál milli barma og um 140 m djúp. Gjóskuflóð hafa borist langar leiðir frá Hverfjalli (Hverfelli). Skriða hljóp úr gígbarminum til suðurs meðan á gosinu stóð og er hringlögun fjallsins því rofin þeim megin. Gígar af sömu gerð eru óvíða, þó er annar gígur, Lúdentarskál, mun eldri, skammt suðaustur af Hverfjalli (Hverfelli).

Laxárhraun yngra

Fyrir um 2300 árum varð mikið gos á um 12 km langri sprungu suður af Hverfjalli (Hverfelli). Ýmsar sérkennilegar jarðmyndanir eru í þessu hrauni sem nefnt hefur verið Laxárhraun yngra. Mikil gígaröð - Lúdentarborgir - myndaðist á gossprungunni en  Þrengslaborgir eru nafn á tveimur áberandi gígum sunnarlega á sprungunni.
Laxárhraun yngra flæddi um meginhluta Mývatnssveitar, lagðist yfir stórt stöðuvatn sem þar var. Hraunið rann niður Laxárdal og náði í sjó fram í Aðaldal. Þar sem vötn og votlendi urðu á vegi hraunsins náðu gufusprengingar víða að mynda gíga. Gígar af þessu tagi nefnast gervigígar því að þeir eru útrásir vatnsgufu en ekki hraunkviku. Þyrpingar formfagurra gervigíga eru allt í kringum Mývatn og einnig í Laxárdal og Aðaldal. Margir gíganna eru tvöfaldir og sumir þrefaldir. Stærstu gervigígarnir eru við Vindbelg.

Dimmuborgir

Dimmuborgir eru afar sérstæðar hraunmyndanir í Laxárhrauni yngra. Hrauntjörn hefur myndast meðan á gosinu í Lúdentarborgum stóð. Tjörnin hefur síðan fengið framrás til vesturs í átt að Mývatni en eftir standa háir hraundrangar. Talið er að drangarnir hafi myndast í hrauntjörninni þar sem gufa leitaði upp í gegnum bráðið hraunið og kældi það. Víða má sjá láréttar línur sem mynduðust þegar yfirborð tjarnarinnar seig í áföngum. Sams konar hraunmyndanir og Dimmuborgir finnast á hafsbotni undan ströndum Mexíkós en munu ekki kunnar á þurru landi utan Mývatnssveitar. Hraundrangarnir við Höfða (Klasar og Strípar) eru svipaðar hraunmyndanir og sumar umflotnar vatni.

Kröflueldstöðin

Svæðið umhverfis Leirhnjúk er megineldstö. Fyrir um 100 þúsund árum var þarna eldkeila sem gaus miklu gosi en seig að því loknu ofan í sjálfa sig. Askjan sem þá myndaðist er nú barmafull af síðari tíma gosefnum svo að landið er slétt yfir að líta. Undir er þó kvikuhólf á um þriggja km dýpi. Á nokkurra alda fresti verður eldstöðin óvenju virk. Kvika streymir inn í kvikuhólfið sem þenst út, og landið rís. Síðan brestur hólfið skyndilega, kvika hleypur neðanjarðar eftir sprungum til norðurs eða suðurs og um leið gliðnar jarðskorpan. Hluti kvikunnar getur spýst upp á yfirborðið í eldgosi. Þegar þrýstingur minnkar í hólfinu sígur landið hratt. Þessi atburðarás endurtekur sig á fárra mánaða fresti í nokkur ár samfleytt. Mývatnseldar hófust árið 1724 með miklu sprengigosi er myndaði Víti. Næstu árin komu hrinur jarðskjálfta og eldgosa í nágrenni Kröflu. Mesta gosið varð 1729 er hraun rann ofan frá Leirhnjúk alla leið niður í Mývatn. Hraunið sem þar brann (Eldhraun) er enn lítt gróið og liggur milli Reykjahlíðar og Grímsstaða.

Eldvirkni tók sig upp að nýju við Kröflu (Kröflueldar) árið 1975 eftir tæplega 250 ára hlé. Eldgos urðu níu sinnum á jafn mörgum árum.