Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Spurt og svarað

Ekki er gert ráð fyrir að stjórnunar- og verndaráætlun breyti ákvæðum um reiðleiðir umfram það sem fyrir er. Fjallað er um reiðleiðir í aðalskipulagi sveitarfélagsins og mun skipulagið gilda eftir sem áður. Bent hefur verið á að reiðleið sem liggur um hlað á Sandbrekku og Hrafnabjörgum valdi ábúendum þeirra jarða ónæði auk þess sem leiðin liggur um Urðir milli Hrafnabjarga og Unaóss sem veldur óþarfa álagi á náttúrufar auk þess sem þrengsli skapa hættu fyrir göngufólk og knapa. Nánari útfærslum um legu þeirrar leiðar er vísað til endurskoðunar aðalskipulags.

Samkvæmt friðlýsingarskilmálum er óheimilt að fara um Stórurð á hestum. Ekki er heimilt að víkka út skilmála friðlýsingar í stjórnunar- og verndaráætlun og því mun bann við ríðandi umferð gilda í Stórurð.
Það er vilji til þess að gera sem flestum hópum útivistarfólks fært að njóta svæðisins án þess þó að skerða náttúrufar eða upplifun. Rætt hefur verið um möguleikana á að skilgreina hjólreiðaleiðir og koma upp aðstöðu fyrir hjólreiðarfólk t.d. við Stórurð svo hægt sé að skilja hjólin við sig og ganga um Stórurð en hjólreiðar um Stórurð eru óheimilar.

Samstarfshópur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar mun vinna að stefnumótun vegna skilgreininga reiðhjólaleiða.
Almennt eru hjólreiðar heimilar innan landslagsverndarsvæðisins norðan Dyrfjalla á skilgreindum hjólreiðaleiðum. Hjólreiðaleiðir hafa enn ekki verið skilgreindar og því liggur ekki fyrir hvar hjólreiðar eru heimilar. Unnið er að því að ljúka gerð stjórnunar- og verndaráætlunar svo að heimildir verði ljósar.

Hjólreiðar innan náttúruvættisins Stórurðar eru óheimilar. Ekki er heimilt að víkka út skilmála friðlýsingar í stjórnunar- og verndaráætlun og því mun bann við hjólreiðum gilda í Stórurð.
Samkvæmt friðlýsingarskilmálum er óheimilt að hjóla um Stórurð. Ekki er heimilt að víkka út skilmála friðlýsingar í stjórnunar- og verndaráætlun og því mun bann við hjólreiðum gilda í Stórurð.
Það er vilji til að tryggja sem best aðgengi að svæðinu fyrir sem flesta þjóðfélagsþegna. Ekki er enn ljóst með hvaða hætti verði hægt að mæta þörfum ólíkra hópa varðandi aðgengi. Stefna Umhverfisstofnunar er þó að hafa aðgengilegar upplýsingar um aðgengi á ferðamannastöðum á heimasíðu sinni og munu upplýsingar um svæðið norðan Dyrfjalla og Stórurð verða aðgengilegar. Umhverfisstofnun styðst við leiðbeiningar um gott aðgengi í ferðaþjónustu sem er samstarfsverkefni Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar, Ferðamálastofu og Sjálfsbjargar.
Komið hafa fram ábendingar um að aðgengi björgunaraðila að Stórurð hafi verið erfitt. Í neyðartilfellum hefur verið farið að urðinni á sexhjólum og má á sumum stöðum sjá rask í landi vegna slíkrar umferðar. Talin hefur verið þörf á að útbúin verði gönguleið að Stórurð sem beri umferð slíkra björgunartækja í neyðartilfellum. Samstarfshópur um stjórnunar- og verndaráætlanagerð mun taka þær hugmyndir til umræðu.
Samkvæmt sérreglum um veiðar í náttúruvættinu Stórurð, sem er að finna í 16. gr. friðlýsingar (auglýsing nr. 850/2021), eru veiðar takmarkaðar innan náttúruvættisins. Veiðar eru heimilar á mink og ref skv. almennum reglum um veiðar á ref og mink ásamt því sem rjúpnaveiðar eru heimilar með leyfi landeigenda.
Ekki hefur fengist leyfi til að halda skipulagt hlaup í gegnum Stórurð vegna skorts á innviðauppbyggingu. Umhverfisstofnun hefur ákveðnar leiðir til að stýra umferð um svæðið og eitt þeirra tækja er að veita leyfi fyrir viðburðum. Það er mat stofnunarinnar að á meðan uppbygging stíga er takmörkuð sé ráð að skipulagðir viðburðir auki ekki álag á viðkvæm svæði. Áhugi er á að byggja upp innviði til þess að auka útivistarmöguleika á svæðinu í framtíðinni.
Fjármagn er tiltækt til að koma upp skiltum innan friðlýsa svæðisins. Lögð er áhersla á að upplýsa fólk að um friðlýst svæði er að ræða og að merkja viðkvæm svæði. Gerð verður áætlun um frekari uppsetningu skilta og fræðsluefnis í stjórnunar- og verndaráætlun.
Nokkur bílastæði eru á svæðinu þar sem aðkoma er að gönguleiðum að Stórurð og Stapavík. Samstarfshópur mun, í samráði við Vegagerðina og sveitarfélagið meta m.t.t. náttúruverndar, hagnýtingar og umferðaröryggis hvar leggja á áherslu á uppbyggingu innan svæðisins þ.m.t. uppbyggingu bílastæða.
Almennar reglur gilda um notkun fjarstýrðra loftfara, eða dróna, innan landslagsverndarsvæðisins en sérreglur gilda innan náttúruvættisins Stórurðar þar sem flug fjarstýrðra loftfara er óheimilt. Þrátt fyrir bann innan náttúruvættisins Stórurðar gildir undanþága fyrir notkun fjarstýrðra loftfara vegna leitar- og björgunarstarfa. Skoðað verður hvort að undanþáguákvæðið gildi fyrir leit búfjár.
Samkvæmt friðlýsingarskilmálum er umferð ríðandi óheimil í náttúruvættinu Stórurð án undantekninga. Ekki er heimilt að víkka út skilmála friðlýsingar í stjórnunar- og verndaráætlun og því mun bann við ríðandi umferð gilda í Stórurð.
Um notkun vélknúinna farartækja til smalamennsku fer skv. almennum lögum þar um innan landslagsverndarsvæðis norðan Dyrfjalla.

Samkvæmt friðlýsingarskilmálum er notkun vélknúinna ökutækja óheimil í náttúruvættinu Stórurð nema þegar jörð er frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki er hætta á náttúruspjöllum. Ekki er heimilt að víkka út skilmála friðlýsingar í stjórnunar- og verndaráætlun og því mun verða óheimilt að nota vélknúin faratæki til smalamennsku innan náttúruvættisins Stórurðar nema við vetraraðstæður.