Fossvogsbakkar, Háubakkar og Laugarás


Umhverfisstofnun, ásamt Reykjavíkurborg, vinnur nú að gerð sameiginlegrar stjórnunar- og verndaraáætlunar fyrir Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás.
 Svæðin eru öll friðlýst sem náttúruvætti en það eru náttúrumyndanir sem mikilvægt er að varðveita sakir fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna.
Fossvogsbakkar voru friðlýstir með auglýsingu nr. 326/1999. Á svæðinu er að finna fágætar jarðminjar í jarðsögu Reykjavíkur og landsins alls, Fossvogslögin, og felst verndargildi svæðisins í verndun þeirra. Markmiðið með friðlýsingu Fossvogsbakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins.
Háubakkar voru friðlýstir með auglýsingu nr. 347/1983.  Á svæðinu er að finna þykk setlög sem bera merki um áhrif loftslagsbreytinga á ísöld. Markmiðið með friðlýsingu Háubakka er verndun fágætra jarðminja svæðisins í núverandi mynd.
Laugarás var friðlýstur með auglýsingu nr. 41/1982.  Á svæðinu eru jarðminjar í formi jökulsrispaðs bergs og einnig má sjá ummerki um sjávarstöðu við lok ísaldar. Markmiðið með friðlýsingu Laugaráss er verndun fágætra jarðminja svæðisins og vilji til að halda opnu svæði þar sem unnt væri að skoða þær merku jarðminjar sem eru á svæðinu.
Samkvæmt 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er það hlutverk Umhverfisstofnunar að hafa umsjón með gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði. Núverandi verndar- og stjórnunaráætlanir fyrir þessi náttúrvætti gildir til ársins 2024 og því æskilegt að hefja vinnu að endurskoðun núgildandi áætlunar.
Gert er ráð fyrir að formlegt kynningarferli hefjist á vormisseri 2025 og að lokaútgáfa stjórnunar- og verndaráætlunar verði tilbúin sumarið 2025. Skilgreindir samráðsaðilar verða upplýstir þegar kynningarferli hefst.
Hér að neðan verður að finna verk- og tímaáætlun, hagsmunaaðilagreiningu og fundargerðir vegna verkefnisins.
Lögð er áhersla á opið og gagnsætt ferli og eru einstaklingar hvattir til að kynna sér verkefnið og senda inn athugasemdir og ábendingar.
Frekari upplýsingar veita Sveinn Kári Valdimarsson sveinn.k.valdimarsson@umhverfisstofnun.is og René Biasone rene.biasone@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

Fundargerðir
1. fundur samstarfshóps, dags. 17. okt. 2024
2. fundur samstarfshóps, dags. 7. nóv. 2024

 

Verk- og tímaáætlun
Samráðsáætlun