Umhverfisstofnun var lögð niður 31. desember 2024. Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi.

Stök frétt

Höfundur myndar: Gísli Jónsson

Umhverfisstofnun hefur gefið út endurnýjað starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Starfsleyfið gefur rekstraraðila heimild til að framleiða fiskimjöl og lýsi úr fiski og fiskúrgangi í verksmiðjunni. Hámarksafköst verksmiðjunnar eru miðuð við að framleitt verði úr 850 tonnum af hráefni á sólarhring. Starfsleyfið gildir ekki um aðra vinnslu fiskafurða eða rekstur vélaverkstæðis.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 7. janúar til 4. mars 2010 og barst ein athugasemd við hana, auk þess sem ábendingar frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands lágu fyrir áður en auglýsingatímabilið hófst.

Útgefið starfsleyfi er að mestu óbreytt frá auglýstri tillögu stofnunarinnar, utan lagfæringa á villum og orðalagi í textanum. Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 30. apríl 2026. Með gildistöku þessa starfsleyfis fellur úr gildi eldra starfsleyfi verksmiðjunnar frá 18. október 2002 sem var gefið út af Hollustuvernd ríkisins.