Stök frétt

Gísli Halldór Halldórsson, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar stýrði fundi. Framsögumenn voru Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður hjá Matvælastofnun og Sigríður Kristjánsdóttir, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun. Einnig var í pallborði Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar. Á fundinn mættu um 60 manns.

Daníel Jakobsson bæjarstjóri þakkaði framsögumönnum fyrir að koma og veita upplýsingar. Sagði hann frá því að fulltrúarnir hefðu fundað með bæjaryfirvöldum fyrr um daginn.

Daníel lýsti málinu frá sjónarhóli bæjaryfirvalda. Gerð var mæling á mjólk í desember, aðeins ein mæling og óvissu háð, sem var yfir mörkum. Haft var samband við yfirvöld til að fá leiðbeiningar. Upplýst að ekki stafaði bráð hætta gagnvart fólki af mengun í þessu mæli. Þá, þegar niðurstöður mælinga lágu fyrir, var strax ákveðið að loka Funa, brennt það sem var í gryfjunni en hætt að brenna 4-5 vikum fyrr en áætlað var. Bæjaryfirvöld höfðu ekki önnur úrræði í málinu en að hætta að brenna sorp. Enn á eftir að komast til botns í því hversu umfangsmikil mengunin er. Daníel taldi að öllum hafi verið það ljóst að mengunin frá Funa var óásættanleg undir það síðasta en engan grunað að það kynni að hafa áhrif á heilsufar fólks. Ísfirðingar vilja kenna sig við hreina náttúru og þá skiptir ekki máli hvaða viðmiðunarmörk eru, menn vilja gera þetta eins vel og þeir geta. Unnið hefur verið að því af hálfu yfirvalda að undanförnu. Mikilvægast er að flokka sorp svo brennsla og urðun verði sem minnst og er það ætlunin. Daníel sagði að oft hefðu verið notuð stærri orð en innistæða var fyrir á opinberum vettvangi, m.a. um heilsu fólks, að upplýsingum hefði verið stungið undir stól og að fjárhagslegir hagsmunir hafi verið teknir fram fyrir heilsu fólks. Bæjarstjórinn taldi þetta of stór orð. Hugsanlega hefði mátt kynna þetta betur en það var ekki gert af því að menn töldu að þetta stofnaði ekki í hættu heilsu fólks á svæðinu og að menn unnu að öðrum lausnum. Málið er ekki til fyrirmyndar, það hefði átt að vera búið að finna lausn í sorpeyðingarmálum, klára málið hraðar en oft taka mál lengri tíma en menn vilja. Niðurstaðan sé góð, að sorpbrennslu hafi verið hætt og flokkun úrgangs aukin. Sveitastjórn óskaði eftir skýrari farvegi fyrir upplýsingar og menn eru að vinna á því bót og þessi fundur liður í því. Unnið er í  því að koma sorpflokkun af stað í bæjarfélaginu og ráðgert var að færi í gang 1. mars en sorptunnur munu ekki koma til landsins fyrr en í byrjun mars. Bæklingar verða sendir í hús með kynningu á flokkuninni.

Sigríður Kristjánsdóttir, deildarstjóri hjá Umhverfisstofnun, kynnti díoxín og hvernig það myndast.  Díoxín myndast við ýmsa framleiðslu, helst sorpbrennslu en einnig í náttúrunni. Rannsóknir benda til að áhrifin séu minni í mönnum en tilraunadýrum. Sigríður fór yfir þróun díoxínlosunar á Íslandi frá 1990. Dregið hefur úr losun díoxíns hérlendis frá árinu 1990 en þá var heildarlosun díoxíns um 11 gr. en var komin niður í tæp 4 gr. árið 2008. Í heildina dró úr losun um 66% á því tímabili, þar af um 82% frá opnum brennslum. Losun díoxíns hérlendis er lítil í samanburði við önnur lönd en Finnland losar um 15 gr., Norðmenn um 20 gr. og Svíþjóð um 35 gr. á ári. Bretland losar um 200 gr. árlega. Losun díoxíns í Evrópu hefur dregist hratt saman, úr 11 kg niður í rúm 2 kg í ESB-27 frá 1990-2008. Sigríður sagði frá því að af þeim 4 gr. sem metið er að hafi verið losuð árið 2008 á Íslandi hafi 1,8 gr. komið frá áramótabrennum, 0,7 gr frá fiskiskipum og 0,6 gr. frá sorpbrennslum.

Sigríður fór yfir hvernig þau mörk sem gilda fyrir díoxín en settar voru reglur í Evrópusambandinu sem teknar voru upp hérlendis árið 2003 en veitt undanþága fyrir starfandi sorpbrennslur á þeim tíma. Fyrir nýrri brennslur eru mörk fyrir díoxín svokölluð losunarmörk fyrir útblástur en ekki umhverfismörk eða mörk fyrir heildarlosun á ári. Mörkin eru 0,1 ng/m3 í útblæstri frá sorpbrennslustöð. Heildarlosun er því háð magni, tegund sorps og loftflæði stöðvarinnar. Þannig getur það gerst að stöð sem hefur hærra útblástursgildi hafi minni heildarlosun en stöð með lægra útblástursgildi eins og raunin er t.d. hérlendis þar sem heildarlosun á Kirkjubæjarklaustri er metin lægri en í Skutulsfirði þrátt fyrir að útblástursgildið sé hærra á Kirkjubæjarklaustri.

Sorpbrennslan Funi fékk endurnýjað starfsleyfi 19. febrúar 2007 og starfaði á grundvelli undanþágu frá reglugerð árið 2003, m.a. hvað varðar díoxín. Sigríður tilgreindi þau mörk sem eru í starfsleyfinu og kynnti svo mælingar frá sorpbrennslunni Funa, síðustu fimm mælingar og díoxínmælinguna 2007. Í mælingu í nóvember 2009 kom í ljós að ryk var langt yfir mörkum. Þungmálmar voru töluvert yfir mörkum líka 2009. Sigríður sagði frá þeim athugasemdum sem Umhverfisstofnun gerði í eftirlitsskýrslum, þar sem meðal annars var bent á að gat væri á pokasíum árið 2008. Ári síðar voru talsverðar athugasemdir og greinilega mikið að. Þá var glufa í brennsluofni og ekki farið fram mælingar árið áður. Farið var yfir mælingarnar frá 2007. Þess var krafist 2010 að nýjar mælingar færu fram og tekið fram að brýnt væri að gera endurbætur. Mælingar gerðar í desember 2009 og bárust í febrúar 2010.

Umhverfisstofnun fór út í þvingunarúrræði gagnvart Funa 2010. Áform um áminningu ásamt kröfu um úrbætur voru send út í mars og þau svör fengust að málin væru í skoðun og óskað eftir undanþágu. Formleg áminning var send í maí og þess getið að Umhverfisstofnun gæti ekki veitt undanþágu. Mælinga einnig krafist þá. Mælingar voru ekki framkvæmdar og lét Umhverfsstofnun framkvæma þær en þær drógust af óviðráðanlegum ástæðum. Í desember sendi Umhverfisstofnun tilkinningu um að ef mælingar væru enn yfir mörkum yrði sorpbrennslan svipt starfsfleyfi.

Sigríður greindi frá því að Umhverfisstofnun hafi ákveðið að mæla díoxín í jarðvegi í nágrenni allra mögulegra uppsprettna hérlendis. Tekin verða sýni í nágrenni Funa, innar í Engidal, við Holtahverfi og úr sjávarseti í Skutulsfirði. Víða um land verði tekin sýni við sorpbrennslur og mengandi starfsemi.

Engin viðmiðunarmörk eru í gildi á Íslandi um díoxín í jarðvegi. Umhverfisstofnun hefur verið að skoða hvað mörk eigi að miða við og Sigríður kynnti mörk frá Þýskalandi (sem má sjá í glærukynningu Sigríðar). Hún kynnti helmingunartíma í jarðvegi. Helmingunartími í jarðvegi er að meðaltali um 13 ár. Plöntur taka ekki upp díoxín úr jarðvegi heldur þyrlast díoxín upp úr jarðvegi og sest á plöntur sem svo berast í dýr. Mörkin ekki endanlega ákveðin fyrir Ísland, einungis kynnt til viðmiðunar. Sigríður sýndi myndir af því hvar áætlað er að taka myndir en endanleg sýnatökuáætlun verður kynnt á næstu dögum af hálfu Umhverfisstofnunar.

Sigurður Örn Hansson kynnti fyrir hönd Matvælastofnunar (MAST) og ræddi fyrst um hlutverk MAST sem felst fyrst og fremst í því að tryggja matvælaöryggi. Stofnunin hafi eftirlit með fóðri, búfjárafurðum og fiskafurðum auk yfirumsjónar með matvælaeftirliti Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna (HES). Einnig dýraheilbrigði og dýravelferð og varnir gegn smitsjúkdómum í dýrum.

Aðdragandi þessa máls voru mælingar MS á mjólk frá bænum Efri-Engidal þar sem díoxín var yfir leyfilegum mörkum í mjólk á bóndabýli í Engidal. Sýnið tekið af frumkvæði MS sem liður í þeirra innra eftirliti og það tilkynnt til MAST.

Viðbrögð MAST voru að banna dreifingu búfjárafurða frá þessu býli, bann við sölu mjólk og bann við slátrun. Strax farið í að kanna útbreiðslu þessarar mengunar. Tekin sýni af mjólk, kjöti og heyi. Annað sýni af mjólkinni af býlinu í Engidal og einnig frá öðrum býlum í nærliggjandi fjörðum. Menn höfðu ekki aðgang að kjöti úr slátuhúsi en tekin voru sýni úr kjöti sem bændur höfðu til eigin nota á þeim jörðum sem voru á svæðinu. Öðrum stofnunum kynnt um þessar mælingar.

Niðurstaða greiningar á sýnum úr mjólk voru þannig að frá Efri-Engidal voru þau yfir viðmiðunarmörkum á þeim bæ sem áður hafði mælst yfir mörkum. Önnur mjólkursýni voru langt undir viðmiðunarmörkum. Einnig var tekið sýni á Svínafelli á Öræfum þar sem er eldri brennsla en þar mældust sýni undir mörkum.

Það voru tekin nautakjötsýni og af tveimur sýnum var annað yfir mörkum.

Sýni í lambakjöti sýndu að tvö þeirra voru eðlileg, tvö með lítilsháttar hækkun og þrjú sýni með mikla hækkun og þar af eitt yfir mörkum. Hey var við viðmiðunarmörk en það telst hækkað miðað við samanburðarsýni frá fyrri árum, 2003 og 2004.

Þegar þessar niðurstöður lágu fyrir var því beint til sláturleyfishafa og kjötvinnslu að rekja hvort kjöt væri enn á markaði og íhuga að innkalla það. Það er á ábyrgð markaðsaðila að innkalla kjöt ef sýni mælast yfir mörkum. Í þessu tilfelli fóru 1,5 tonn innanlands og fimm tonn til Englands og Spánar. Kjötvinnslan ákvað að innkalla í varúðarskyni þær vörur sem höfðu farið á markað og voru með ákveðna dagsetningu.

MAST ákvað var að funda sérstaklega með búfjáreigendum og fór sá fundur fram þann 10. febrúar. Á þeim fundi var upplýsingum miðlað og gögnum safnað um m.a. fjölda búfjár, hvar búfé hefði gengið á beit og hvar fóðurs hefði verið aflað. Skipaður hefur verið sérfræðingahópur sem í sitja fulltrúar frá MAST, Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og Rannsóknarstofu í næringarfræði og fer hópurinn yfir hvaða leiðir koma til greina varðandi búfjárhald og nýtingu búfjárafurða í Skutulsfirði. Einnig varðandi nýtingu berja, fugla, eggja og fleira. Einnig verða tekin fleiri sýni úr búfjárafurðum við sorpbrennslustöðvar.

Dýr sem hafa tekið í sig díoxín losna ekki við það nema að mjólkandi dýr skilja það út með mjólkinni. Þess vegna ekki unnt að nýta mjólk og kjöt af dýrum þegar mengunin er komin upp fyrir ákveðin mörk. Ber eru væntanlega menguð á yfirborði og díoxínið má skola af berjunum. Vangaveltur á þessu stigi og beðið nánari niðurstöðu frá sérfræðingahópnum.

Spurningar sem menn standa frammi fyrir en hafa ekki svör við á þessum tímapunkti. Er hægt að nýta þessi fullorðnu dýr? Hvað með lömbin sem fæðast í vor? Díoxín skilst út með mjólkinni og berst þannig í lömbin. Ef bústofn er felldur mun búfé annars staðar frá sækja inn á beitilandið? Plöntur taka ekki upp díoxín úr jarðvegi með rótarkerfinu. Díoxínið situr á yfirborði plantna og skolast af í rigningu.

MAST hefur sett bann við nýtingu búfjárafurða frá Engidal og það mun gilda þar til sýnt hefur verið fram á að mengunin sé undir mörkum. MAST hefur ekki og sér ekki fyrir sér að fyrirskipa förgun búfjár í Engidal og Skutulsfirði. Athugað verður með frekari sýnatöku við aðra mengunarvalda eins og t.d. þá sem Umhverfisstofnun er að skoða.

Haraldur Briem, sóttvarnarlæknir, vildi geta þess fyrst að það er til nokkuð sem heitir sérstök samstarfsnefnd um sóttvarnir sem varð til með lögum sem í sitja nú Geislavarnir ríkisins, MAST, sóttvarnarlæknir og Umhverfisstofnun. Nefndin metur stöðu og grípur til aðgerða. Nefndin kom saman í kjölfar mælinganna í desember. Menn töldu nauðsynlegt að fá fleiri sýni og það hefur verið gert. Það sem Haraldur vildi benda á varðandi mörkin er að díoxín er þekkt sem eitur sem veldur skaða í tilraunadýrim, einkum nagdýrum. Mörkin eru sett til að draga úr uppsöfnun dioxins í mönnum og annars staðar í dýraríkinu.

En við stöndum frammi fyrir vanda varðandi áhrif á menn og satt best að segja að þá virðast menn þola díoxín miklu betur en tilraunadýr. Fyrir þessu liggja viðamiklar rannsóknir. Það hafa verið gerðar rannsóknir í áratugi á um 3000 bandarískum hermönnum sem unnu með Agent Orange á árunum 1960-1972 sem var með mikið díoxín og þeim var fylgt fram til 2004. Rannsóknir á þeim sýna að díoxín í miklu magni í langan tíma getur dregið út karlhormónum en einnig dregur það úr góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli en veldur ekki krabbameini í kynfærum karla eins og þekkt er í tilraunadýrum. Rannsakað hvort krabbamein eða sykursýki sé líklegra og almennt er það ekki í hópnum í heild en þeir sem urðu fyrir hvað allra mestri útsetningu á sem lengstum tíma sýndu einhverja aukningu hvað varðar sjaldgæf krabbamein. Díoxín og PCB hefur verið skoðað í brjóstamjólk kvenna frá Michigan í Bandaríkjunum þar sem mengun var talsverð í umhverfi en ekki var hægt að tengja hana við neitt óeðlilegt í börnum. Brjóstamjólk Inúítakvenna í norður Kanada og börn þeirra hafa verið rannsökuð en díoxín er almennt hækkað í þeim og berst til barnanna með mjólkinni. Ekki var hægt að merkja heilsufarsleg áhrif efnisins. Kanadamenn hafa því ákveðið að mælast ekki til þess að Inúítakonur hætti að hafi börnin á brjósti. Kostirnir vega þyngra en fræðilega áhættan vegna díoxíns. Kannað hefur verið með sjúkdóma í kynfærum kvenna en ekki tekist að sýna fram á það. Niðurstöður rannsókna frá Bandaríkjunum á verkamönnum sem unnu við að framleiða efni sem innihalda díoxín hafa ekki sýnt  merkjanlega aukning á krabbameini. Einnig var skrifuð fræðigrein í Bandaríkjunum um að ástæða væri til að taka díoxín af lista yfir krabbameinsvaldandi efni. Á Ítalíu var þetta einnig rannsakað mikið á svæðum þar sem mikil sorpbrennsla fer fram og annar iðnaður er til staðar sem losar díoxín. Meginniðurstaðan er sú að einungis fannst marktæk aukning á krabbameinum hjá þeim sem orðið höfðu fyrir áreiti í yfir 32 ár í í miklu magni, mun meiri mengun en var hér.

Haraldur sagði að við ættum auðvitað að taka þetta alvarlega og auðvitað eigum við að draga eins mikið úr díoxínefni í umhverfinu og mögulegt er. Landslæknisembætti hefur skoðað heilsufar á Ísafirði og ef eitthvað er að þá er hægt að segja heilsufar manna þar sé með besta móti. Þótt engin merki séu um bráða vá er ætlunin kanna magn díoxíns í völdu fólki en sóttvarnarlæknir Vestfjarða mun stýra rannsóknum á þeim sem unnu í brennslunnni og einnig verða tekin sýni úr fólki á Ísafirði og svo í kringum aðrar sorpbrennslur. Tekin verða blóð- og  mjólkursýni en blý verður mælt í hársýnum eða nöglum. Ef blý mælist að þá er líklegt að einnig sé að finna díoxín. Blýmælingarnar eru ódýrari en díoxínmælingar og framkvæmdar hérlendis.

Umræður

Athugasemdir og spurningar úr sal eru aðgreindar með feitletruðum texta frá viðbrögðum og svörum framsögumanna.

Margir Ísfirðingar vita það að þegar Funi fór af stað á sínum tíma að þá var farið af stað með litla fjármuni og reynt að gera eins ódýrt og hægt væri. Ef brennsluofn brennir ekki vel að þá framleiðir hann díoxín. Þessi vitneskja er búin að vera í þessu bæjarfélagi mjög lengi. Því miður blæs vindurinn þessu ekki í burt eins og í Vestmannaeyjum. Efasemdir um að ofninn hafi verið nægilega góður í Funa. Skortir skýringar og mörgum spurningum enn ósvarað.

Kristín Linda sagði að það muni taka tíma að komast til botns í málinu. Mælingar teknar í Skutulsfirði en  sýnin séu greind erlendis og það taki mánuð að fá niðurstöður. Auðvitað vilja menn fá svör strax en þetta mun taka tíma.

Spurt var um mælingar í Hnífsdal á fólki, þar hafi verið brennsla í mörg ár sem fólk hafi kvartað yfir. Hnífsdælingar eigi að fá afsökunarbeiðni.

Haraldur sagði að aðferð við að mæla blý í hári geti komið þar til og fólk beðið um að hafa samband við sóttvarnarlækni á staðnum ef það vill taka þátt í rannsóknum. Kristín Linda greindi frá því að gerð verður mæling í jarðvegi í Hnífsdal.

Þakkað var fyrir upplýsingagjöfina. Mikilvægt að fá þessar upplýsingar varðandi mannfólkið. Ástandið versni ekki þar sem búið sé að loka Funa. Greint frá því á fundinum að Bændasamtök Íslands og Búnaðarsamband Vestfjarða lýsa yfir óánægju vegna óvissu bænda í Skutulsfirði og vilja að þar verði mögulegt að stunda búskap og bjóða aðstoð við að útvega fóður og skepnur. Fram kom að ekki hafi öllum verið tilkynnt með beinum hætti sem MAST mældi hjá heldur hafi fólk fengið upplýsingar í gegnum fjölmiðla. Fyrst MAST mun ekki fyrirskipa förgun, hver mun þá gera það? Þarf að farga nautgripum og fé? Hvað á að gera með 700-800 lömb í haust. Minnt var á að það séu erfiðar aðgerðir að farga fé sem er komið að burði og því eigi annað hvort að farga sem fyrst eða gefa út að þetta verði neysluhæf lömb. Hneyksli fyrir íslenska kindakjötsmarkaðinn, fréttaflutningur hafi skaðað bændur á svæðinu.

Sigurður Örn sagði það ekki gott ef menn hafa ekki fengið tilkynningu frá MAST beint um niðurstöður. Fara þarf yfir hvað mætti fara betur. Hver á að fyrirskipa förgun búfjár? Þetta er eitthvað sem Sigurður mun taka með sér til MAST og mun stofnunin ræða það. Hjá MAST hefur fyrst og fremst verið lagt bann við sölu búfjárafurða en ekki förgun. Unnið er þess að afla svara við þessum spurningum, meðal annars varðandi lömbin og hvort verði mögulegt að nýta þau. Nauðsynlegt að fá þau svör sem fyrst. Ekki er um að ræða búfjársjúkdóm heldur snýst málið um öryggi matvæla. Nauðsynlegt sé að halda styrk díoxínefna eins lágum og mögulegt er, grípa til þeirra aðgerða sem eru tiltækar til að lækka díoxína í matvælum.

Díoxín brotni niður í sólarljósi, er þá skynsamlegt að plægja?

Sigurður Örn sagði þetta vera eitt af því sem að sérfræðingahópur á vegum MAST mun taka fyrir. Hópurinn muni leita til annarra sérfræðinga eftir því sem við á. Kristín Linda sagð að fyrst þurfum við að vita hvað er mikið magn í jarðvegi. Eftir tvo til þrjá mánuði vitum við hvað er í jarðveginum og þá verðum við líka með svör við því til hvaða viðbragða þarf að grípa.

Sagt var frá því að á heimasíðu MAST segi að heysýni séu yfir mörkum en nú séu þau við viðmunarmörk. Mikilvægt að vandað sé til verka. Er það rétt að MAST sé farin að beita sér fyrir því að skrá öll hross á þessu svæði og sérmerkja þau í World Fengur og gera menn sér grein fyrir því hvað þetta þýðir til framtíðar?

Sigurður Örn sagði að fyrstu niðurstöður varðandi heysýnið hafi verið bráðabirgðaniðurstöður og á þeim tímapunkti ekki búið að framkvæma endurtekna greiningu eins og gert er þegar sýni eru við mörk. Þá er það þannig að seinni mælingin ræður því hvort sýnið er metið yfir eða undir mörkum, eftir því hvort hún mælist hærri eða lægri en fyrri mælingin. Það sem gerðist með heysýnið var að síðari mælingin var eilítið lægri en sú fyrri og því er það metið við mörkin. Varðandi díoxín er talað um aðgerðarmörk og viðmiðunarmörk og heysýnið er yfir aðgerðarmörkum sem kallar á að menn leiti uppruna mengunarinnar og grípi til aðgerða til að draga úr henni. Varðandi hestana að þá er ekkert að heilsufari hestanna, þetta snúi að matvælaöryggi. Þeim mun meira mengað fóður sem hestarnir fá þeim mun meira díoxín fá þeir í sig og þá dregur úr líkum á því að nýta megi afurðir. Varðandi að MAST skrái hesta í World Fengur veit hann ekki til þess að svo hafi verið gert en það er ein leið til að tryggja að afurðir fari ekki á markað.

Eru einhver tengsl díoxíns við taugasjúkdóma?

Haraldur Briem sagði að áhrif á miðtaugakerfið séu þekkt í tilraunadýrum en ekki liggja fyrir upplýsingar um slíkt í mönnum. Díoxín í því magni sem þekkist hérlendis hefur ekki sýnilega árhif á taugakerfið.

Af hverju myndast svona mikið af díoxín í áramótabrennum?

Kristín Linda sagði að þær tölur sem Umhverfisstofnun hefur um losun frá áramótabrennum sé mat út frá því magni sem er brennt. Áramótabrennur brenna við frekar undir þeiom hita sem þarf til að koma í veg fyrir myndun díoxíns og þar eru til staðar þau efni sem þarf til að mynda díoxín, lífræn efni, salt og klór. Ef menn brenna t.d. gamla trébáta að þá eru kjörskilyrðu fyrir myndum díoxíns. Þá myndast díoxín einnig í skógareldum.

Ef skipt væri út heyi, væri þá hægt að nýta þessar afurðir í framtíðinni? Þarf að farga þeim?

Sigurður Örn sagði að það sé vitað að mjólkandi dýr skilja út díoxín í mjólkinni. Hvað það tekur langan tíma fer eftir því hvað dýrið hefur innbyrt mikið díoxín og hann treysti sér ekki til að svara því á staðnum hvað það taki langan tíma.

Tímabær fundur og mikilvægar upplýsingar frá sóttvarnarlækni um áhrifin á mannfólkið - létti mikið. Þess var óskað að þeir sem fjalla mest um þetta mál taki saman skýrslu fyrir Vestfirðinga þar sem málin eru skýrð eins vel og á þessum fundi. Nokkrir beindu því til bæjarstjórnar að semja um bætur við þá sem hafa orðið fyrir tjóni og að ríkissjóður eigi að koma að því. Fyrrum bæjarfulltrúi baðst afsökunar á því að hafa ekki verið nægilega vel á vaktinni. Hlusta hefði átt á gagnrýnisraddir. Ekki bara sjónmengun. Ábyrgðin er líka þeirra eftirlitsstofnana sem eiga lagalega og siðferðilega að hafa þessi mál í lagi. Það var ekki í lagi að veita starfsleyfi með skilyrðum sem voru ekki nægileg. Fleiri þurfa að biðjast afsökunar. HES á ekki að fylgjast með storpbrennslum en hefði átt að gera viðvart.

Kristín Linda sagði að varðandi undanþágu á árinu 2003 hafi það verið þannig að ákveðið var í ESB að allar brennslur þyrftu að uppfylla ströng skilyrði varðandi díoxín þar sem þær voru helsta uppspretta þess. Hins vegar var ákveðið þá að eldri brennslur fengju fimm ára aðlögunartíma. Hér á Íslandi þegar þessi tilskipun kemur var ljóst að hér voru nokkrar nýlegar brennslur sem voru mjög litlar, sérstaklega í evrópsku samhengi. Í Evrópu er mikið brennt af rusli því það er nýtt til orkuöflunar. Úrgangur er hráefni þar en samt líka mikil flokkun. Þar hafa menn ekki þetta góða aðgengi að grænni orku eins og hérna. Í Evrópu eru mjög stórar brennslur. Úrgangur er í raun vara innan ESB. Í þessu evrópska umhverfi kom nýja löggjöfin. Þá kom sterk beiðni frá sveitarfélögum um undanþágu vegna þess að brennslurnar voru svo litlar og mönnum ljóst að þær myndu ekki endast lengi. Litið var til þess að ESB gaf fimm ára aðlögun fyrir starfandi sorpbrennslur. Það er grunnurinn að því að Umhverfisstofnun mælir fyrir því að gefa þessa undanþágu og umhverfisráðuneytið semur um hana við ESB. Auðvitað er það þannig að þegar við lítum til baka hefðum við viljað að þessi ákvörðun hefði ekki verið tekin um undanþáguna. En við erum alltaf að bera okkur saman við milljónaþjóðir og teljum því að mengunin nái ekki til okkar. ESB veitti undanþáguna af því að þetta voru litlar brennslur og lítið magn. Umhverfisstofnun er ekki sátt og hefði viljað gera betur. Afstaða stofnunarinnar til undanþága hafi verið að breytast og stofnunin mun almennt ekki mæla fyrir undanþágum í framtíðinni. Funi var í gjörgæslu hjá Umhverfisstofnun á árinu 2010. Umhverfisstofnun  hefur eftirlit með Funa en ekki Heilbrigðiseftirlitið. Kristín Linda fór yfir þvingunarferlið gagnvart Funa á árinu 2010. Rykmengun jókst mikið skv. mælingu 2009 og Umhverfisstofnun telur mikilvægt að tryggja góð loftgæði.

Það hafa farið ungkálfar í eldi annars staðar, er ekki betra, að grípa inn í strax en að breyta með fóðri?

Sigurður Örn þakkaði ábendinguna með ungkálfa og sagði það fara eftir því hvað þeir voru ungir þegar þeir voru fluttir, fengu þeir móðurmjólk og fleira þess háttar.

Hvaða árangur hefur innköllun á kjöti borið og hafa verið tekin sýni úr þessu kjöti?

Sigurður Örn greindi frá því að hann hafi ekki fylgst með því hvort eitthvað skilaði sér úr innköllun. Það lambakjöt sem hafi farið á innanlandsmarkað hafi allt selst. Ekki heyrt að neitt hafi skilað sér tilbaka. Það sem var flutt út, eitthvað af því hafði ekki verið selt, var enn hjá birgjum og það hafa ekki verið tekin sýni af því. Það var ákvörðun fyrirtækjanna sjálfra að innkalla þetta kjöt í varúðarskyni, það er þeirra skylda að innkalla ef  vara sem grunur er um að sé yfir mörkum. Einu sýnin sem hugsanlega verður hægt að skoða eru sýni á Spáni. Ekki vitað til þess að neitt hafi skilað sér.

Hvað með búfenaðinn? Hvernig á að ná utan um þetta? Hvenær verðum við sloppin fyrir horn? Hvað með ábyrgðina?

Kristín Linda sagði að þetta sé langhlaup. Fyrstu niðurstöður um miðjan desember, næstu niðurstöður í lok janúar. Niðurstöður eftir tvo til þrjá mánuði úr jarðvegssýnum. Það verður að skoða þetta nánar, komast til botns og vinna málið af ábyrgð en eins hratt og mögulegt er. Við höfum engin jarðvegssýni. Höfum bara mælingar í búfjárafurðum. Um leið og við vitum meira mun upplýsingum verða komið á framfæri. Komum hingað aftur. Höfum lært að fara fyrr af stað í að tala beint við fólk en ekki treysta eingöngu á miðlun í gegnum fjölmiðla og t.d. vefsvæði stofnanna.

Verða tekin nóg af sýnum eða þarf þá að taka fleiri sýni?

Kristín Linda sagði að það verður tekið mið af því við sýnatökuna. áætlunin er að fara í umfangsmikla sýnatöku um allt landa þar af margar hér í Skutulsfirði. MAST mun taks sýni í búfjárafurðum og sóttvarnarlæknir úr mönnum.

Ábendingar komu fram um hvar mikilvægt er að taka sýni, þar á meðal í Hnífsdal og innst í Skutulsfirði.

Kristín Linda þakkaði ábendingarnar og sagði að tekið verði tillit til athugasemda við gerð áætlunarinnar.

Þess var getið að ekki hefðu borist fregnir af mælingum í Súgandafirði. Talað var um að ekki mætti valda tjóni með því að fara gáleysilega með upplýsingar. Nefnt var að fréttir af innkölluninni gæfu til kynna að málið væru umfangsmeira en það sé í raun og veru. Fréttaflutningur af stöðu búskapar í firðinum hafi verið þannig að menn hafi ekki vitað við hverju væri að búast. Sumir töldu það ekki rétt að innkalla það sem er undir mörkum heldur skapi það óþarfa vandamál hvað varðar ímynd. Kallað var eftir ítarlegri upplýsingum frá MAST.

Daníel Jakobsson bæjarstjóri þakkaði fyrir fundinn. Margt gagnlegt komið fram í framsögum og fyrirspurnum. Varðandi ábyrgðina að þá mun Ísafjarðarbær axla þá ábyrgð sem honum ber. Bærinn tók út mengunarvaldana. Ekki ætti að bíða með að skipta um fóður. Bærinn vill liðka fyrir bændum og sérstaklega þeim bónda sem varð fyrir mestu tjóni en hann hefur ekki viljað tala við bæinn. Snýr ekki endilega að því að bærinn sé að fara að kaupa hey fyrir alla en bærinn vill skoða að liðka fyrir. Alvarlegasta í þessu er ímyndin og bærinn vill ekki að Ísafjarðarbær og Vestfirðir verði tengdir við díoxín. Tekur undir með fólki að það verður að vera skýrara til hvaða aðgerða á að grípa og hvernig menn geta fengið hreinleikavottorð eins fljótt og auðið er. Því verður fylgt eftir af hálfu bæjaryfirvalda en það mun örugglega taka tíma. Ef eitthvað er að þá á fólk á Ísafirði hafa samband við bæinn sem reyni að afla upplýsinga.