Stök frétt

Höfundur myndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hefst laugardaginn 20. ágúst. Veiðar á grágæs og heiðagæs hafa verið að aukast hin síðari ár. Þegar um 90% af veiðiskýrslum eru komnar inn fyrir árið 2010 þá er skráð heildarveiði á grágæs um 46.000 fuglar og á heiðagæs um 17.000 fuglar.  Til samanburðar má skoða árið 2009 þar sem veiðin var samkvæmt veiðiskýrslum tæpar 60.000 grágæsir og um 20.000 heiðagæsir. Líklegt er að afkomubrestur hafi orðið hjá báðum þessum stofnum þar sem slæmt veður framan af spillti varpi á einhverjum svæðum. Heildaveiði á grágæs og heiðagæs má sjá á meðfylgjandi mynd fyrir árin 1995-2010. 

Veiði á grágæs og heiðagæs 1995-2010Helsingja er leyfilegt að veiða frá 1. september utan Skaftafellssýslna en þar má ekki veiða helsingja fyrr en 25. september. Tilgangur friðunar á helsingja í Skaftafellssýslum er að vernda þann varpstofn sem hefur verið að ná fótfestu á undanförnum árum. Helsingi verpir ekki á Íslandi nema í Skaftafellssýslum svo vitað sé og þykir því sérstök ástæða til þess að veiðimenn sýni aðgát á þessu svæði. Blesgæs er áfram friðuð eins og undanfarin ár.  

Endurnýjun veiðikorta

Veiðimenn eru minntir á að endurnýja veiðikort sín enda er einungis heimilt að stunda skotveiðar á fuglum sé veiðikort meðferðis. Hægt er að endurnýja veiðikortið á vef Umhverfisstofnunar.

Skil á fuglamerkjum

Sérstök ástæða er til að hvetja veiðimenn til að skila inn merkjum ef þeir veiða merkta fugla. Upplýsingarnar sem merkin veita eru mikilvægar fyrir rannsóknir á þessum veiðistofnum. Merkjunum á að skila til:

Náttúrufræðistofnun Íslands

Urriðaholtsstræti 6-8
Fuglamerkingar
Pósthólf 125
IS-125 Reykjavík

Upplýsingar um hvað þarf að fylgja með fuglamerkjum er að finna í Veiðidagbókinni sem fylgir veiðikortinu en einnig má fá upplýsingar í síma 590 0500 hjá Náttúrfræðistofnun Íslands.

Skil á gæsavængjum

Nú í ár eins og undafarin ár munu Arnór Þ. Sigfússon og Halldór W. Stefánsson á Austurlandi safna og skoða gæsa- og andavængi til að meta hlutfall unga frá sumrinu. Vilji menn senda inn vængi skulu þeir senda vængi sömu megin af öllum fuglunum, t.d. hægri væng. Nánari upplýsingar um þetta má sjá á bls. 48 í Veiðidagbókinni 2011 eða í símum 422-8000/843-4924 (Arnór - ats@verkis.is) og á austurlandi 471-2553/846-5856 (Halldór – halldor@na.is).

Ef vængir eru geymdir og sendir þá má ekki geyma þá í plasti lengi því þá úldna þeir fljótt. Best er að leyfa þeim að þorna og setja svo í pappakassa. Ef vængir eru höggnir af þá sendið alltaf vængi sömu megin af öllum fuglunum, t.d. hægri væng. Látið fylgja með nafn, síma, heimilisfang og/eða netfang og hvenær gæsirnar og endurnar voru veiddar og gjarnan á hvaða veiðisvæði skv. veiðidagbók veiðistjórnunarsviðs. Við sendum ykkur svo til baka aldurshlutfall í aflanum ykkar.