Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir tillögu að starfsleyfi fyrir Hringrás á Akureyri. Sótt var um útvíkkun á núgildandi starfsleyfi til þess að taka á móti almennum úrgangi til flokkunar, umhleðslu, forvinnslu, böggun, pökkun og geymslu. Í tillögunni er lagt til að heimilt verið að taka á móti eftirfarandi tegundum úrgangs:
  • a) 200 tonn á ári af hvers kyns spilliefnum, þ.m.t. sprengifim efni, sóttmengaður úrgangur og raf- og rafeindatæki sem innihalda hættuleg efni.
  • b) 3200 tonn á ári af málmum, þ.m.t. úr sér gengin ökutæki sem innihalda vökva eða önnur hættuleg efni.
  • c) 500 tonn á ári af hjólbörðum.
  • d) 16000 tonn á ári, af hættulitlum, almennum úrgangi til flokkunar, umhleðslu, forvinnslu, böggunar, pökkunar og geymslu. Þ.e. öllum tegundum úrgangs sem ekki flokkast sem spilliefni skv. reglugerð nr. 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.
  • e) 4000 tonn á ári, af timbri, garðúrgangi til flokkunar og tætingar.

Móttaka geislavirks úrgangs er bönnuð í tillögunni sem og öll förgun úrgangs á athafnasvæði rekstraraðila.

Í tillögu eru settar fram ákveðnar takmarkanir á magni þess úrgangs sem geymdur er á athafnasvæði rekstraraðila. Skal magnið þannig aldrei verða svo mikið að hætta skapist. Magn brennanlegs úrgangs á athafnasvæðinu skal aldrei fara yfir 1000 rúmmetra í hverju brunahólfi. Ekki er áformað að boða til almenns kynningarfundar (borgarafundar) um tillöguna á auglýsingatíma nema eftir því verði sérstaklega óskað.

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum í Ráðhúsi Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, Akureryri. Tillöguna má einnig nálgast hér fyrir neðan.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 8. júlí 2013.

Fylgiskjöl