Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Skýrsla ársins 2013 er sú fyrsta á nýju fimm ára áætlunartímabili þar sem gerð eru upp ný markmið. Gerðar voru nokkrar breytingar á skipulagi stofnunarinnar á árinu þar sem áhersla er lögð á teymisvinnu. Við höfum trú á því að teymisfyrirkomulagið leysi ýmis vandamál eins og að málaflokkar séu ekki háðir þekkingu eins starfsmanns og að þekking glatist ekki þegar starfsmenn hætti. Þá vonumst við til að með auknum samskiptum og samvinnu aukist starfsánægja og þróun í okkar verkum. 

Við viljum horfa á árangur. Það er lykilatriði að vita hvort lög og reglur og framkvæmd á þeim sé að skila árangri eða ekki. Forsenda þess eru upplýsingar um hvort við séum á leiðinni í rétta átt eða ekki. Og þær upplýsingar eru einnig mikilvægar öðrum aðilum, s.s. almenningi, þingmönnum, hagsmunafélögum og fyrirtækjum. Miðlun upplýsinga og gegnsæi eru auk þess einn af hornsteinum árangursríks kerfis í stjórnsýslu umhverfismála. Það er mikilvægt að allir skilji hvernig kerfið virkar og hvaða árangri það er að skila. 

Æskilegast er að kerfin okkar séu sem einföldust. Ekki síst í ljósi þess að sífellt eru gerðar meiri kröfur samhliða niðurskurði og færra starfsfólki. En þegar rætt er um einföldun þarf að hafa í huga að einfaldara kerfi þarf að ná jafngóðum eða betri árangri. Annars er ekki um einföldun að ræða heldur minni kröfur um árangur. Þá getur einföldun á einum stað getur aukið flækjustig annars staðar. Við munum leggja okkur sérstaklega fram um að einfalda okkar kerfi sem mest, með það að leiðarljósi að skila betri árangri. Auka þarf fjárfestingu í grænu hagkerfi sem tryggir okkur góða samkeppnisstöðu og hagvöxt til framtíðar. Við þurfum að vinna meira með fólki en ekki bara fyrir það til að ná árangri. Það er tímafrekt en höfum trúum á að það muni skila meiru til lengri tíma litið. Við þurfum að leyfa okkur að fjárfesta í byrjun sem svo sparar okkur til framtíðar. 

Við höfum eftirlit með ákveðnum mengandi fyrirtækjum og viljum veita þeim gott aðhald til að draga sem mest úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Það er okkar hlutverk að gæta þess. Við gerðum miklar breytingar á eftirlitinu okkar frá 2008-2010 sem komu að fullu til framkvæmda árið 2011. Síðan þá hefur frávikum fækkað um rúmlega helming. Það þýðir að 2013 voru rúmlega 100 færri tilfelli þar sem fyrirtæki fylgdu ekki þeim kröfum sem til þeirra voru gerð en annars hefði verið. Það er stórt stökk á aðeins þriggja ára tímabili. Þá eru fyrirtækin líka miklu fljótari að bæta úr frávikum. Ríkisendurskoðun gerði úttekt á eftirliti stofnunarinnar með sorpbrennslum í kjölfar díoxínmálsins og skilaði eftirfylgniskýrslu í byrjun árs 2014 þar sem engar frekari athugasemdir eru gerðar. 

Stofnunin setti sér það markmið árið 2008 miðla meiri upplýsingum til almennings um sín störf og umhverfismál almennt. Við leggjum mikla áherslu á gagnsæi og forðumst ekki opinbera umræðu, jafnvel þótt á móti blási. Samkvæmt úttekt IMPEL á eftirliti stofnunarinnar með mengandi starfsemi er stofnunin leiðandi í Evrópu hvað varðar miðlun upplýsinga í kjölfar eftirlits. Árið 2013 var Umhverfisstofnun rúmlega tvöfalt meira í fjölmiðlum en árið 2009. Við fögnum því. Bæði hefur aukist fréttaumfjöllun sem og dægurmálaumræða um umhverfismál. Heimsóknum á vefsíðu stofnuarinnar fjölgaði um rúm 35% í kjölfar þess að við opnuðum nýja vefsíðu árið 2011. Við tökum virkan þátt í umræðunni og ætlum okkur að gera enn betur. Umhverfismál er sá málaflokkur sem hefur vaxið hvað mest á undanförnum áratugum og á eftir að vaxa enn meir. Meðvitund um neikvæð umhverfisáhrif, t.d. loftslagsbreytingar og slæm loftgæði, hefur aukist umtalsvert. En önnur mál á borð við kokteiláhrif og græna ferðaþjónustu eru nýkomin inn í umræðun. 

Við leggjum áherslu á að fólk dragi úr neyslu, endurnoti og endurvinni. Regla númer eitt er að alltaf hugsa sig tvisvar um áður en keypt er. Önnur leið til þess að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af neyslu og framleiðslu eru umhverfisvottanir á borð við Svaninn. Framleiðendur og neytendur sem velja Svansmerkta vöru eða þjónustu eru að leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar framtíðar. Umhverfisstofnun hefur umsjón með norræna umhverfismerkinu Svaninum og árið 2008 voru fjögur fyrirtæki á Íslandi með Svansvottun og vöruúrval í verslunum takmarkað. Í lok árs 2013 voru Svansvottuðu fyrirtækin orðin 26. Það er rúmleg sexföldun fyrirtækja. Stór hluti prentiðnaðar á Íslandi er Svansvottaður og við vonumst til að sjá fjölmörg fyrirtæki slást í hópinn á næstu árum. 

Friðlýst svæði og Þjóðgarðar á Íslandi eru nú yfir 110 talsins og eru flest þeirra í umsjón Umhverfisstofnunar. Á undanförnum árum hefur heilsársstarfsmönnum sem hafa umsjón með friðlýstum svæðum úti á landi fjölgað úr þremur í sjö. Samhliða því höfum við bætt við fjórum nýjum starfsstöðvum úti á landi. Samskipti við fólk í heimabyggð, hvort sem um er að ræða í nágrenni við friðlýst svæði eða mengandi starfsemi, skipta okkur miklu máli. Svæðunum okkar er betur sinnt með því að hafa heilsársstarfsmenn í nágrenni við þau fremur en að ráða nær eingöngu inn tímabundna starfsemenn yfir sumartímann. Ísland hefur að geyma fjölmargar einstakar náttúruperlur og ósnortin svæði sem við berum mikla ábyrgð á að varðveita. Sem betur fer hefur auknu fjármagni verið veitt til uppbyggingar á svæðunum á undanförnum árum. En betur má ef duga skal og vonumst við til þess að ný gjaldheimta muni skila þeim fjármunum sem þarf til að halda áfram uppbyggingu á friðlýstum svæðum. 

Ísland er auðugt af vatni og almennt talið að ástand vatns sé gott. Miklu máli skiptir fyrir viðskipti, ímynd og umhverfisgæði landsins að geta sýnt fram á að svo sé þar sem hér á landi er ýmis starfsemi sem getur valdið álagi á vatn. Síðan 2011 og áfram næstu árin fer fram greining á því hver staðan er í raun og grundvallast sú vinna á aðferðarfræði sem er sambærileg milli landa Evrópu. Vinnan stuðlar að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Næsta verkefni er heildstæð vöktunaráætlun fyrir landið allt og vonast ég til þess að fjármagn fáist til að ljúka verkefninu hratt og örugglega. Enda umtalsverðir hagsmunir í húfi. 

Við erum með ISO 9001 vottað gæðakerfi sem gætir þess að allir verkferlar séu skýrir og að farið sé eftir bókinni. Fylgst er náið með tölfræði um starfið okkar, t.d. um hversu hraða þjónustu við veitum. Þar höfum við náð þeim árangri að svartími almennra fyrirspurna fór úr 11 dögum niður í innan við tvo á einu ári. Afgreiðslutími leyfa og erinda hefur styst en þar viljum við ná enn betri árangri á næstu árum. Við viljum bæta þjónustu stofnunarinnar umtalsvert og næstu skref í því er aukin rafræn þjónusta. Stærstur hluti okkar þjónustu á að verða aðgengilegur í gegnum „mínar síður“ á vefnum okkar innan skamms. Þar getur fólk sótt þá þjónustu sem við veitum og fylgst með framgangi sinna mála á einfaldan hátt. Við höldum reglulega samráðsfundi með hagsmunaaðilum og opna fundi í aðdraganda stærri ákvarðana. Umhverfisstofnun er með starfsstöðvar á átta stöðum úti á landi og nær öll ný störf auglýst án staðsetningar sem gefur okkur færi á að auka tengsl um allt land. 

Við erum að fara kerfisbundið yfir okkar skyldur og árangur með það að leiðarljósi að ná betri árangri. Ef við sjáum möguleika á því að ná sama eða betri árangri með einfaldari hætti fyrir okkur eða aðra að þá stendur ekki á okkur í því. Við ætlum okkur að ná enn betri árangri.

Kristín Linda Árnadóttir
Úr ársskýrslu Umhverfisstofnunar 2013