Stök frétt

Síðastliðið ár gerði Umhverfisstofnun tvo rannsóknarsamninga til að meta stöðuna á plastmengun í hafi í kringum Ísland.  Annars vegar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum sem skoðaði örplast í kræklingi á völdum stöðum við Ísland. Hins vegar var gerður samningur við Náttúrustofu Norðausturlands um rannsókn á plasti í maga fýla.

Rannsóknin á kræklingi var valin því kræklingur er talin hentug bendilífvera fyrir mat á örplastmengun í hafi. Vöktun á plasti í maga fýla var valin því hún er notuð sem umhverfisvísir hjá OSPAR til að meta magn plasts í yfirborði sjávar. Eftirfarandi rannsóknir ásamt vöktun rusls á ströndum (sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með) gefa okkur heildrænni mynd af plastmengun í kringum Ísland, þ.e. á ströndum, í sjó (örplast) og yfirborði sjávar.

Lesa má nánar um rannsóknirnar í skýrslum hér og hér en helstu niðurstöður úr rannsóknunum eru eftirfarandi:

Örplast í kræklingi

  • Örplast fannst í fjörukræklingi á öllum stöðum sem voru kannaðir.
  • Fjöldi örplastagna var á bilinu 0 til 4 í hverjum kræklingi og fundust plastagnir í 40–55% kræklings á hverri stöð.
  • Alls fundust 77 örplastagnir í 120 kræklingum sem voru skoðaðir frá öllum stöðum.
  • Meðalfjöldi örplastagna í heild var 1,27 per krækling og 0,35 per g kræklings (votvigt).
  • Plastagnirnar voru aðallega þræðir (>90%, meðallengd 1,1 mm) og voru af ýmsum gerðum og litum.
  • Ekki reyndist marktækur munur á fjölda örplastagna í kræklingi á milli stöðva.

 

Plast í maga fýla

  • Plast fannst í um 70% fýla.
  • Um 16% þeirra voru með meira en 0,1 g af plasti.
  • Meðalfjöldi plastagna í meltingarvegi fýlanna var 3,65 og meðalþyngdin var 0,0486 g.
  • Meðalþyngd plasts í fýlunum frá Norðausturlandi var 0,0518 g, aðeins hærri en frá Vestfjörðum, 0,0452 g.
  • Marktækt meira plast var í kvenfuglum bæði hvað varðar fjölda plastagna og þyngd.

 

Þótt örplastmengun í kræklingi og plast í maga fýla reynist minni hér við land en í ýmsum öðrum löndum breytir það ekki því að Ísland er ekki laust við plastmengun í hafi. Mikilvægt er að Íslendingar dragi verulega úr neyslu á plasti og flokki/endurvinni allt plast. Einnig þarf að bæta hreinsun á skólpi og ofanvatni til að koma í veg fyrir losun á plasti og örplasti í sjóinn.

(Mynd: NNA)