Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Úrvinnslusjóður og Umhverfisstofnun settu í desember af stað tilraunaverkefni um söfnun raftækja í verslunum. Söfnunarkassar hafa verið settir upp í sjö verslunum á landinu, það eru í Krónunni í Lindum og Nettó í Búðakór í Kópavogi, Nettó í Grindavík, Bónus og Nettó á Egilsstöðum og Bónus og Krónunni í Vestmannaeyjum.

Raftækjaúrgangur er sá úrgangur sem er að aukast hvað mest á heimsvísu og á Íslandi er áætlað að um 7.200 tonn af raftækjaúrgangi falli til árlega. Söfnun til endurvinnslu hefur verið slæm og einungis 37% af raftækjum skilaði sér í endurvinnslu árið 2018. Raftæki innihalda oft verðmæta málma og sjaldgæf efni sem mikilvægt er að endurvinna og draga þannig úr ofnýtingu á auðlindum jarðar. Þegar vörurnar eru orðnar að úrgangi geta þær verið hættulegar umhverfinu, heilsu manna og dýra vegna spilliefna sem þær innihalda. 

Markmið tilraunaverkefnisins er að auka söfnun til endurvinnslu á raf- og rafeindatækjum, rafhlöðum, ljósperum og flúrperum með því að færa hana nær almenningi. Kassinn er hannaður til að taka við litlum raftækjum, allt upp í brauðristar og miðlungsstórar fartölvur.

Á meðan á verkefninu stendur mun Úrvinnslusjóður miðla upplýsingum um magntölur úrgangsins sem safnast og að verkefninu loknu verða niðurstöður um útkomu verkefnisins teknar saman. Vonast er til þess að verkefnið skili árangri og geti verið fyrirmynd fyrir viðlíka söfnun í framtíðinni.

Við þökkum þeim sveitarfélögunum, matvöruverslununum og þjónustuaðilum í úrgangsmálum sem taka þátt í verkefninu. Þegar allir leggjast á eitt geta slík verkefni í þágu umhverfisins orðið að veruleika og skilað árangri.

Þau sem geta ekki nýtt sér söfnunarkassanna eða þurfa að losa sig við stærri raftæki er bent á að skila raftækjum til endurvinnslustöðva.