Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Plöntuverndarvörur geta haft neikvæð áhrif á heilsu manna og umhverfið og því er mikilvægt að grípa til aðgerða til að lágmarka notkun þeirra eins og kostur er. Í Aðgerðaáætlun um notkun varnarefna 2016-2031 er eitt af markmiðunum að draga skuli úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, meðfram vegum, í öðru manngerðu umhverfi og gegn ágengum tegundum, en þess í stað teknar upp aðferðir í plöntuvernd sem ekki byggjast á notkun efna.

Umhverfisstofnun hefur tekið saman upplýsingar um notkun á plöntuverndarvörum hér á landi og þau gögn leiða í ljós að almenningur, sveitarfélög, fyrirtæki og opinberir aðilar eru að nota um 60% af því magni sem sett er á markað á hverju ári af þessum vörum. Þegar skoðað er hvar þessi mikla notkun fellur til kemur í ljós að hún á sér stað við ýmis konar ræktun í einka- og almenningsgörðum, á opnum grænum svæðum, í sumarbústaðalöndum, á íþróttasvæðum og í skógrækt, þar sem kljást þarf við illgresi og skaðvalda á gróðri. Einnig er um að ræða notkun á illgresiseyðum á svæðum þar sem ekki er ætlast til að gróður sé til staðar, s.s. torgum og gangstéttum, stígum, hlöðum, innkeyrslum, iðnaðarsvæðum, vegöxlum og víðar.

Til að stuðla að því markmiði að draga úr notkun á plöntuverndarvörum meðal landsmanna stóð Umhverfisstofnun fyrir því að útbúa leiðbeiningar um plöntuvernd og illgresiseyðingu og leitaði í þeirri vinnu eftir samráði við Vegagerðina, Landgræðsluna, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra sveitarfélaga (SAMGUS), Samtök íþrótta- og golfvallarstarfsmanna á Íslandi og Skógræktina.

Nú liggja fyrir leiðbeiningar þar sem fjallað er um aðgerðir í plöntuvernd og í baráttunni gegn ágengum tegundum, sem eru til þess fallnar að draga úr notkun plöntuverndarvara. Þar má til dæmis nefna hefðbundnar aðferðir eins og að uppræta óæskilegan gróður með handafli eða verkfærum, notkun yfirlagsefna í gróðurbeðum, slátt, vandað og fjölbreytt tegundaval á gróðri sem hentar aðstæðum, notkun á staðargróðri til þess að endurskapa náttúrulegar aðstæður í kjölfar framkvæmda, líffræðilegar varnir og ýmislegt fleira.

Með því að útbúa leiðbeiningar um aðgerðir í plöntuvernd sem ekki byggja á notkun efna er vonast til að almenningur og þeir aðilar sem starfa við skipulagningu eða umhirðu gróðurs nýti sér upplýsingarnar til þess að ná árangri í að draga úr áhættu fyrir heilsu og umhverfi af völdum efna.

Hvernig má draga úr notkun plöntuverndarvara í þéttbýli, öðru manngerðu umhverfi og gegn ágengum tegundum?