Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Á árinu 2019 fór af stað söfnunarátak um skil á rafhlöðum og raf- og rafeindatækjaúrgangi. Umhverfisstofnun og Úrvinnslusjóður vinna saman að verkefninu í þeim tilgangi að auka skil á raf- og rafeindatækjum, rafhlöðum og ljósaperum til endurvinnslu eða endurnýtingar.

Þátttakendur eru fjögur sveitarfélög og ein til tvær verslanir innan hvers þeirra. Sveitarfélögin eru Fljótsdalshérað, Grindavík, Kópavogur og Vestmannaeyjar. Haft var í huga að færa söfnunina nær almenningi og var því settur upp söfnunarkassi í matvöruverslununum, þar sem almenningur getur skilað inn rafhlöðum, litlum raftækjum, ljósaperum og flúrperum.

Verkefnið er tilraunaverkefni til eins árs, en eftir að því lýkur verður framtíðarfyrirkomulag þess endurskoðað með það fyrir augum að sveitarfélögin eða aðrir sjái taki við því. Að söfnunarátaki loknu verður árangur verkefnisins metinn.