Stök frétt

Næstum átta af hverjum tíu vörum sem keyptar voru beint af vefverslunum með starfsemi í löndum utan EES reyndust ekki uppfylla kröfur evrópsku efnalöggjafarinnar. Þetta er meginniðurstaðan í norrænu efnaeftirlitsverkefni sem lauk nýlega og Umhverfisstofnun átti aðild að. 

Í eftirlitinu var skoðuð 361 vara frá 161 birgja og reyndust 78% af vörunum ekki uppfylla kröfur efnalöggjafarinnar þegar verslað var beint í vefverslunum með staðfestu utan EES. Samsvarandi hlutfall fyrir vörur frá fyrirtækjum innan svæðisins var 32%.

Eftirlitið beindist m.a. að efnum í raftækjum, leikföngum og ýmsum öðrum vörum svo sem íþróttabúnaði. Í 57% tilfella reyndust rafmagnsvörur innihalda bönnuð efni en fyrir leikföng og aðrar vörur var þetta hlutfall 23%. Algeng frávik stöfuðu af því að vörurnar innihéldu bönnuð efni, s.s. bór í leikfangaslími, blý í lóðningum rafmagnstækja og keðjustutt, klóruð paraffín (SCCP) í vörum úr plasti. Þá fundust nokkur efni sem eru á kandídatalista Evrópusambandsins, sem er skrá yfir sérlega varasöm efni,  t.d. voru bönnuð þalöt í um 20 prósentum af þeim vörum sem voru skoðaðar.

Þar sem vörurnar sem lentu í úrtaki verkefnisins voru ekki valdar af handahófi þarf að fara varlega í að alhæfa um ástandið á markaðnum út frá þeim, en þó er óhætt að segja að umtalsvert meiri líkur séu á því að vörur sem eru frá vefverslunum utan EES innihaldi ólögleg efni.

Smelltu  hér til að lesa skýrsluna á ensku.

Staðreyndir um hættuleg efni sem fundust í vörunum:

  • Bór í þeirri mynd sem það kemur fyrir í leikfangaslími getur haft neikvæð áhrif á æxlun.  
  • Blý er mjög eitrað efni sem bannað er að nota í margar vörur. Það skaðar m.a. taugakerfið sem kemur t.d. niður á getu til að læra og er sérstaklega hættulegt fóstrum og börnum.
  • Stuttkeðja klóruð parafín (SCCP) eru skaðleg vatnalífverum. Efnin eru þrávirk þannig að þau brotna afar hægt niður í umhverfinum og þau eru m.a. grunuð um að valda krabbameini.
  • Þalöt (t.d. DEHP, DIBP, DBP, BBP) er nokkuð stór hópur efna sem sum hver eru skaðleg heilsu. Þekkt er að þau minnka sæðisframleiðslu sem dregur úr frjósemi og þá geta þau truflað hormónastarfsemina.


Skilaboð til neytenda þegar verslað er á netinu:

  • Leiddu hugann að því frá hvaða landi vörurnar sem verið er að kaupa eru komnar. Vörur sem heimilt er að selja í löndum utan EES eru hugsanlega bannaðar innan svæðisins ef þær innihalda ákveðin efni sem eru skaðleg heilsu eða umhverfinu.
  • Athugaðu hvort raftæki og leikföng bera CE merkingu, en það er vottorð frá framleiðanda um að vörurnar uppfylli tilteknar evrópskar öryggiskröfur.
  • Veldu aðeins gæðavörur sem koma frá vel þekktum vörumerkjum. Ódýrar vörur frá lítið þekktum aðilum eru mun líklegri til að innihalda bönnuð efni.