Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Þann 17. júní 2020 undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Geysissvæðisins í Haukadal.

Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar enda eitt fárra sem þekkt var í árhundruð. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði. Örnefnið Geysir hefur gefið goshverum nafn á erlendum tungumálum auk þess sem hverahrúður er oft kallað „geyserite“. Upp af hverasvæðinu rís Laugarfell (187 m) sem er innskot úr líparíti þar sem ýmsar jarðmyndanir er að finna. Á því svæði sem tillagan nær til er að finna plöntutegundina laugadeplu sem skráð er á válista sem tegund í nokkurri hættu. Þá er einnig að finna menningarminjar innan svæðisins sem vitna um mannvistir fyrr á tímum, m.a. konungssteina sem eru minjar um heimsóknir þriggja konunga danska ríkisins til Íslands.

Markmiðið með friðlýsingu náttúruvættisins er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að tryggja að svæðið nýtist til fræðslu og vísindarannsókna en fræðslu og vísindagildi svæðisins er hátt á lands- og alþjóðavísu. Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að því að náttúrufar sem raskað hefur verið verði endurheimt og það fært til fyrra horfs eins og unnt er.

Undirritunin fór fram á hverasvæðinu í Haukadal að viðstöddum fulltrúum Bláskógabyggðar, Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og fleirum. Við athöfnina söng karlakór Hreppamanna og að henni lokinni var boðið til þjóðhátíðarkaffis á Hótel Geysi.

Geysissvæðið hefur verið í umsjón Umhverfisstofnunar um nokkurt skeið en með friðlýsingunni er það formlega orðið hlutverk Umhverfisstofnunar að sinna landvörslu, uppbyggingu, viðhaldi og rekstri svæðisins til framtíðar. Ýmis verkefni í tengslum við uppbyggingu svæðisins eru nú í undirbúningi. Starfsmenn Umhverfisstofnunar vonast til að samstarf við sveitarfélag um framtíð svæðisins verði farsælt héðan í frá sem hingað til.

Ljósmyndari er Golli.