Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Dagana 28. og 29. ágúst heldur Umhverfisstofnun Spjaraþon, hugmyndasmiðju þar sem þátttakendur vinna í teymum að skapandi lausnum sem miða að því að draga úr umhverfisáhrifum textíls.

Í Spjaraþoninu er farið yfir helstu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í textíliðnaðnum bæði í framleiðslunni sjálfri og þegar kemur að neyslumynstri samfélagsins. Eftir það mynda þátttakendur teymi í kringum mögulegar lausnir og vinna með þær hörðum höndum þangað til þær eru kynntar fyrir dómnefnd. Í dómnefndinni sitja Eliza Reid, forsetafrú, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður og Kristján Mikelson, framkvæmdarstjóri Rafmyntaráðs Íslands.

Eins og virðiskeðja textíls lítur út í dag erum við að kaupa miklu meira en við þurfum. Við notum fötin okkar sífellt minna og erum latari að gera við og lengja þannig líftímann. Tíska ræður miklu um innkaup og ýtt er undir ofneyslu með lágum verðum.

Textíliðnaðurinn hefur stækkað mjög hratt síðustu áratugi og er talið að framleiðslan hafi tvöfaldast síðan árið 2000. Við framleiðslu textíls er notað gríðarlegt magn af efnavöru til að ná fram ákveðnum eiginleikum eins og lit, áferð, mýkt og vatnsheldni. Einnig krefst framleiðslan mikillar notkun orku og vatns, sem dæmi fara um 10.000 lítrar í framleiðslu á einu pari af gallabuxum. Um 8-10% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum er á ábyrgð textíliðnaðarins.

Framleiðsla textíls hefur líka í för með sér neikvæð samfélagsleg áhrif, en þar ber helst að nefna ómannsæmandi vinnuskilyrði. Aðstæður vinnufólks eru oft slæmar, launin lág og öryggi þeirra oft ekki tryggt á sama tíma og öll efnavaran í framleiðsluferlinu getur haft neikvæð áhrif á heilsu starfsfólks.

Við hvetjum alla til að kynna sér málið á www.spjarathon.is og lesa meira um textílvandann á www.samangegnsoun.is !