Stök frétt

Mynd úr hraunhelli á Íslandi
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur staðfest ákvörðun Umhverfisstofnunar um að takmarka aðgengi að hellum í Þeistareykjahrauni í Þingeyjasveit í verndarskyni. Umferð um alla hella í hrauninu, að undanskildum Togarahelli, verður bönnuð fyrir aðra en þá sem sinna lögbundnum rannsóknum á hellunum eða hafa lögbundið eftirlit með verndun þeirra. Ákvörðunin byggist á heimild í 25.gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ákvörðunin hefur verið birt í B-deild stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 888/2020. 

Í Þeistareykjahrauni hefur fundist nokkur fjöldi ósnertra hraunhella á undanförnum árum. Verndargildi þessara nýfundnu hella þykir sérlega hátt sökum mikils fjölda viðkvæmra hraunmyndana. Þéttleiki þeirra myndana er slíkur að erfitt er um vik að ferðast um hellana án þess að valda óafturkræfu tjóni. Þeistareykjahraun er að miklu leyti ókannað með tilliti til hraunhellarannsókna og er því viðbúið að fleiri hellar muni finnast með áframhaldandi rannsóknum.

Hraunhellar eru fágætar jarðmyndanir á heimsvísu, en sökum jarðfræðilegrar sérstöðu er Ísland sérlega ríkt af slíkum hellum. Fjölmargir nafnkunnir hellar hafa orðið fyrir óafturkræfum skaða á liðnum áratugum þar sem hraunstrá og dropsteinar hafa verið brotin og fjarlægð úr hellunum eftir því sem aðsókn í þá jókst. Með slíkri umgengni skerðist verðmæti hellana varanlega. 

Með  takmörkunum á aðgangi í hellana í Þeistareykjahrauni vonast Umhverfisstofnun til að hægt verði að fyrirbyggja skaða á ósnertum hellum í hrauninu. 

Ákvörðun þessi var unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Hellarannsóknarfélag Íslands og sveitarfélagið Þingeyjarsveit, ásamt því sem leitað var umsagnar Landsvirkjunar. Ákvörðunin verður endurskoðuð árlega.