Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Losun vegna urðunar dróst saman um 10% milli áranna 2018 og 2019. Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 2% á þessum sama tíma og er það í fyrsta skipti frá 2014 sem má sjá samdrátt í þessum flokki. Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst hins vegar um 5% á tímabilinu. Losun frá iðnaðarferlum og efnanotkun jókst umtalsvert en sú losun er að stærstum hluta annars eðlis þ.e., vegna kælimiðla sem hafa 7 ára líftíma og því er losun þeirra í beinu samhengi við innflutning þeirra 7 árum áður.

Umhverfisstofnun hefur tekið saman bráðabirgðaniðurstöður losunar gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands fyrir árið 2019. Þetta er nýmæli, því fram til þessa hafa losunartölur verið gefnar út tveimur árum eftir að losunin á sér stað, þegar þeim er skilað inn til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum, sem gætu átt eftir að taka breytingum, dróst losun á beinni ábyrgð Íslands saman um 0,3% á milli áranna 2018 og 2019. Með Parísarsáttmálanum höfum við skuldbundið okkur til að ná 29% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2030, miðað við losun ársins 2005. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðunum hefur losunin nú þegar dregist saman um 6,7% miðað við losunina 2005. Stefnt er að a.m.k. 35% samdrætti árið 2030 samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Bráðabirgðatölurnar ná ekki yfir losun sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS) né losun og kolefnisbindingu sem tengist landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF).

Helstu breytingar í losun milli áranna 2018 og 2019 eru:

  • Losun frá vegasamgöngum dróst saman um 2% milli áranna 2018 og 2019, og er það í fyrsta skipti sem sjá má samdrátt í þessum flokki síðan 2014.
    • Umhverfisstofnun gerði bráðabirgðagreiningu á þessum samdrætti í samstarfi við Hagstofu Íslands sem bendir til þess að um um 1/3 samdráttarins frá vegasamgöngum sé vegna innlendra aðila en um 2/3 sé vegna fækkunar ferðamanna á milli áranna 2018 og 2019.
  • Losun frá jarðvarmavirkjunum jókst um 5%. Þessi aukna losun er ekki vegna aukinnar framleiðslu heldur tengist hún breyttum framleiðsluskilyrðum.
  • Losun frá kælimiðlum (F-gösum) jókst umtalsvert eða um 25% milli 2018 og 2019. Helsta ástæðan fyrir því er að árið 2012 var mikið flutt inn af kælimiðlum sem m.a. eru notaðir á fiskiskipum, og þar sem að gert er ráð fyrir 7 ára líftíma á búnaðinum, þá er losunin vegna þeirra að miklu leyti að koma fram árið 2019. Þess ber þó að geta að:
    • Árið 2013 var minna flutt inn af kælimiðlum en árið 2012, því er viðbúið að samdráttur í losun vegna kælimiðla muni verða milli áranna 2019 og 2020.
    • Innflutningur kælimiðla dróst talsvert saman milli áranna 2018 og 2019 og mun sá samdráttur í losun koma fram sjö árum seinna.
  • Losun frá landbúnaði dróst saman um 2,5% vegna færri húsdýra.
  • Losun vegna urðunar dróst saman um 10% og er það aðallega vegna aukinnar metansöfnunar á Íslandi.

Samdrátt í losun má rekja til ýmissa þátta en þess ber að geta að fyrsta útgáfa aðgerðaáætlunar núverandi stjórnvalda í loftslagsmálum kom út í september 2018. Ríkisstjórnin gaf út uppfærða útgáfu hennar í júní á þessu ári. Í henni er að finna 48 aðgerðir sem stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu.

Mikilvægt er að taka fram að tölurnar sem um ræðir eru bráðabirgðaniðurstöður. Þær geta tekið breytingum áður en endaleg skil til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar verða þann 15. apríl 2021. Niðurstöður gefa engu að síður vísbendingu um þróun losunar á Íslandi.

Umhverfisstofnun stefnir að birtingu ítarlegri talna fyrir lok árs.