Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt


Covid-faraldurinn hefur kollvarpað heimsmyndinni eins og við þekkjum hana. Ekki bara til tjóns heldur sjá sumir tækifæri til að byggja upp hagkerfin á nýjan og umhverfisvænni hátt.

„Við þurfum að hugsa meira um sjálfbærni, horfa til lengri tíma og velja lausnir sem eru allt í senn umhverfisvænar, efnahagslega hagkvæmar og samfélaginu til góða,“ segir Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.

Birgitta segir að halda þurfi verðmætum inni í hagkerfinu eins lengi og mögulegt er með því að lágmarka auðlindanotkun og úrgangsmyndun, sem er einmitt kjarninn í hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. En hvernig gerum við það? „Við þurfum að draga úr neyslu, deila, leigja og kaupa meira notað, nýjar vörur þyrftu að vera hannaðar þannig að hægt sé að gera við þær. Svo þurfum við auðvitað að vera dugleg að endurvinna og í þessum áherslum felast tækifæri og ný störf,“ segir Birgitta.

Vörur seldust upp

Á Íslandi hafa netverslanir með notaðar vörur sprottið upp að undanförnu. Þær eru gott dæmi um hringrásarlausnir á tímum Covid. Vörur seldust upp á fyrsta degi í netverslun Góða hirðisins, fyrirtæki geta framlengt líf ýmissa vara og keypt notað fyrir reksturinn. Nú er einnig hægt að selja og kaupa  notuð föt á netinu svo dæmi séu tekin. Þar sem netverslun hefur almennt verið vinsæl á Íslandi síðastliðin ár segir Birgitta frábært að sjá netverslanir sem stuðli að minni sóun.

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á sjálfbæra uppbyggingu eftir Covid. Í fjármálaáætlun 2021-2025 er t.a.m gert ráð fyrir 1,7 milljörðum króna í þágu hringrásarhagkerfisins. Birgitta fagnar því að áhersla sé lögð á aðgerðir sem ýti undir ábyrga framleiðslu og neyslu, dragi úr sóun og auki endurvinnslu og endurnýtingu.

„Ég vona svo sannarlega að það verði jákvæð umhverfisáhrif að loknum faraldri.“

Kjarninn og hismið

Birgitta bendir á að veiran hafi  hægt á okkur og við séum daglega minnt á það sem skiptir mestu máli í lífinu. „Þar má nefna samkennd, samvinnu og samveru með okkar nánustu. Aukin fjarvinna mun vonandi festast í sessi eftir faraldurinn og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengun samhliða minni umferð. Hvað aðra þætti varðar eins og framleiðsluhætti, neyslu og ferðalög er erfitt að segja til um en ef við ætlum að sjá róttækar jákvæðar breytingar fyrir umhverfið að faraldri loknum verðum við að breyta um stefnu og innleiða hringrásarhugsun í öllum kimum samfélagsins,“ segir Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.