Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Malbikunarstöðina Hlaðbæ-Colas hf. í Hafnarfirði. Í gildi var framlenging eldra starfsleyfis.

Starfsleyfið gerir ráð fyrir að heimilt sé að framleiða allt að 240 t/klst. af malbiki, auk heimildar til að reka tengda starfsemi. Heimilt er að geyma allt að 250 m3 birgðir af biki og olíu á starfssvæðinu í litlum geymum, þar af 70 m3 í hvorum bikgeymi og allt að 70 m3 af dísilolíu, þar af 50 m3 í stærsta dísiltanknum og gert er ráð fyrir ílátum fyrir hreinsiefni (einkum repjuolíu).

Tillaga að starfsleyfi ásamt umsókn og grunnástandsskýrslu frá rekstraraðila var aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 9. febrúar til 9. mars 2021 og gafst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins var tekin.

Engar umsagnir eða athugasemdir bárust um tillöguna á auglýsingatíma. Breytingar voru ekki gerðar frá auglýstri tillögu utan einfaldra leiðréttinga og að bætt var við greinargerð. Einnig er rétt að geta þess að Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi undir nafninu Colas Ísland hf. þar sem gert var ráð fyrir að nafnabreyting væri að eiga sér stað á fyrirtækinu. Nafnabreytingunni er hins vegar ekki lokið og er niðurstaðan að starfsleyfið er gefið út á því nafni sem skráð er hjá Fyrirtækjaskrá.

Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu starfsleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunar stofnunarinnar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Tilkynning þessi er birt á fréttavefsvæði Umhverfisstofnunar en auk þess í sérstökum dálki fyrir opinberar birtingar á starfsleyfum sem stofnunin gefur út.

Starfsleyfi þetta, sem gefið er út í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit, öðlast þegar gildi og gildir til 31. mars 2037.

Starfsleyfi